Kafli 86
Glataði sonurinn
JESÚS er nýbúinn að segja faríseunum dæmisögur um týndan sauð og týnda drökmu sem finnast aftur. Og nú segir hann þeim dæmisögu um ástríkan föður og tvo syni hans sem báðir gera alvarleg mistök.
Yngri sonurinn er aðalpersóna dæmisögunnar. Hann biður um föðurarf sinn sem faðirinn gefur honum hiklaust. Síðan fer hann að heiman og tekur að lifa mjög siðlausu lífi. En heyrum Jesú segja söguna og sjáum síðan hvort þú kemur auga á hverja sögupersónurnar tákna.
„Maður nokkur átti tvo sonu,“ segir Jesús. „Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: ‚Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber.‘ Og hann skipti með þeim eigum sínum.“ Hvað gerir yngri sonurinn við hlut sinn?
„Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land,“ segir Jesús. „Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði.“ Sannleikurinn er sá að hann eyðir fénu í vændiskonur. En svo koma erfiðir tímar eins og Jesús lýsir:
„Er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.“
Hvílík niðurlæging að neyðast til að gæta svína því að þau töldust óhrein dýr samkvæmt lögmálinu! En það sem kvaldi soninn mest var þjakandi hungrið sem olli því að hann langaði jafnvel til að seðja sig á svínafóðrinu. Þessi hræðilega ógæfa varð til þess að sonurinn ‚kom til sjálfs sín‘ að sögn Jesú.
Jesús heldur sögunni áfram: „Hann . . . sagði [við sjálfan sig]: ‚Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.‘ Og hann tók sig upp og fór til föður síns.“
Þetta er umhugsunarvert. Hefði faðirinn kallað reiðilega á eftir syninum þegar hann fór að heiman, þá er ólíklegt að sonurinn hefði verið svona ákveðinn í hvað hann ætlaði að gera. Hann hefði kannski reynt að fá sér vinnu annars staðar í heimalandi sínu til að þurfa ekki að horfast í augu við föður sinn. En slíkt hvarflaði ekki að honum. Hann vildi komast heim aftur og ekkert annað!
Ljóst er að faðirinn í dæmisögu Jesú táknar ástríkan, miskunnsaman föður okkar á himnum, Jehóva Guð. Og þér er kannski ljóst líka að glataði sonurinn táknar alþekkta syndara. Farísearnir, sem Jesús er að tala við, voru áður búnir að brigsla honum um að matast með slíku fólki. En hvern táknar eldri sonurinn?
Þegar glataði sonurinn snýr aftur
Hvers konar móttökur fær glataði sonurinn í dæmisögu Jesú þegar hann snýr aftur heim til föðurhúsanna? Heyrum lýsingu Jesú:
„Er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.“ Þetta er miskunnsamur og hjartahlýr faðir sem lýsir vel himneskum föður okkar, Jehóva!
Trúlega hafði faðirinn frétt af óhófsömum lifnaði sonar síns. Engu að síður býður hann soninn velkominn heim án þess að bíða eftir ítarlegri greinargerð. Jesús er líka svona hlýlegur og á frumkvæðið að því að gefa sig að syndurum og tollheimtumönnum sem glataði sonurinn í dæmisögunni táknar.
Faðirinn í dæmisögu Jesú er skarpskyggn og gerir sér eflaust nokkra grein fyrir iðrun sonarins af dapurlegum svip hans þegar hann snýr aftur heim. En að sögn Jesú auðveldar hann syninum að játa syndir sínar með kærleiksríku viðmóti sínu: „Sonurinn sagði við hann: ‚Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.‘“
Sonurinn hefur varla sleppt orðinu þegar faðirinn fyrirskipar þjónum sínum: „Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.“ Síðan taka þeir að „gjöra sér glaðan dag.“
„Eldri sonur hans var á akri“ meðan þessu fór fram. Vittu hvort þú áttar þig á hvern hann táknar með því að hlusta á framhald sögunnar. Jesús segir um eldri soninn: „Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: ‚Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.‘ Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: ‚Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.‘“
Hverjir hafa fundið að þeirri miskunn og athygli sem syndurum hefur verið veitt, líkt og eldri sonurinn? Eru það ekki fræðimennirnir og farísearnir? Kveikjan að dæmisögu Jesú er gagnrýni þeirra á hann fyrir að taka vel á móti syndurum, þannig að eldri sonurinn hlýtur að tákna þá.
Jesús lýkur sögunni með því að faðirinn höfðar til eldri sonarins: „Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“
Jesús segir ekki hvað eldri sonurinn gerir. Síðar, eftir dauða Jesú og upprisu, „snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna,“ og vera má að sumir, sem ‚eldri sonurinn‘ táknaði og Jesús er að tala við, hafi verið meðal þeirra.
En hverja tákna synirnir tveir nú á tímum? Það hljóta að vera þeir sem hafa kynnst tilgangi Jehóva nógu vel til að geta eignast vináttusamband við hann. Eldri sonurinn táknar suma af ‚litlu hjörðinni‘ eða ‚söfnuði frumgetinna sem á himnum eru skráðir.‘ Þeir tileinkuðu sér sams konar viðhorf og eldri sonurinn í dæmisögunni. Þeir höfðu enga löngun til að bjóða jarðneskan hóp velkominn, hina „aðra sauði“ sem þeim fannst fá meiri athygli en þeir sjálfir.
Glataði sonurinn táknar hins vegar þá þjóna Guðs sem fara burt til að njóta þess sem heimurinn býður upp á. Síðar iðrast þeir og snúa aftur til að verða virkir þjónar Guðs á ný. Himneskur faðir okkar er svo sannarlega ástríkur og miskunnsamur við þá sem viðurkenna að þeir þarfnist fyrirgefningar og snúa aftur til hans. Lúkas 15:11-32; 3. Mósebók 11:7, 8; Postulasagan 6:7; Lúkas 12:32; Hebreabréfið 12:23; Jóhannes 10:16.
▪ Hverjum segir Jesús þessa dæmisögu og hvers vegna?
▪ Hver er aðalpersóna sögunnar og hvað verður um hann?
▪ Hverja tákna faðirinn og yngri sonurinn á dögum Jesú?
▪ Hvernig líkir Jesús eftir fordæmi miskunnsama föðurins í dæmisögunni?
▪ Hvernig lítur eldri sonurinn á móttökurnar sem bróðir hans fær, og hvernig hegða farísearnir sér líkt og eldri sonurinn?
▪ Hvernig á dæmisaga Jesú við nú á dögum?