Námskafli 39
Áhrifaríkt niðurlag
ÞÚ ERT búinn að viða að þér góðu efni í meginmál ræðunnar og vinna vel úr því. Þú ert líka búinn að semja inngang sem vekur áhuga. Þá er eitt eftir — áhrifaríkt niðurlag og það skiptir töluverðu máli. Menn muna oft lengst það sem þú segir síðast. Ef niðurlagið er slappt getur það dregið verulega úr krafti þess sem þú sagðir á undan.
Lítum á dæmi úr Biblíunni um áhrifarík niðurlagsorð. Skömmu fyrir dauða sinn flutti Jósúa minnisverða ræðu í áheyrn öldunga Ísraels og fjallaði þar um samskipti Jehóva við þjóðina allt frá dögum Abrahams. Lauk hann svo ræðunni einfaldlega með útdrætti þar sem helstu atriðin komu fram? Nei, hann hvatti þjóðina af mikilli festu og tilfinningu: „Óttist því Drottin og þjónið honum einlæglega og dyggilega.“ Lestu niðurlagsorðin í heild í Jósúabók 24:14, 15.
Annað eftirtektarvert dæmi er að finna í Postulasögunni 2:14-36. Þar segir frá ræðu sem Pétur postuli flutti í áheyrn mikils mannfjölda í Jerúsalem á hvítasunnuhátíðinni árið 33. Fyrst benti hann áheyrendum á að þeir hefðu séð spádóm Jóels um úthellingu heilags anda Guðs rætast. Síðan sýndi hann fram á hvernig þetta tengdist messíasarspádómum Sálmanna þar sem sagt var fyrir að Jesús Kristur myndi rísa upp frá dauðum og verða upphafinn til hægri handar Guði. Í niðurlagsorðunum benti Pétur svo á það sem allir í áheyrendahópnum stóðu frammi fyrir. Hann sagði: „Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi.“ „Hvað eigum vér að gjöra, bræður?“ spurðu viðstaddir. Pétur svaraði: „Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists.“ (Post. 2:37, 38) Um 3000 manns úr hópi áheyrenda tóku við sannleikanum um Jesú Krist þennan dag, djúpt snortnir af því sem þeir höfðu heyrt.
Hafðu eftirfarandi í huga: Það sem þú segir í niðurlagsorðunum ætti að vera nátengt stefi ræðunnar. Það ætti að vera rökrétt niðurstaða miðað við aðalatriðin sem þú ert búinn að fjalla um. Það er ekki nauðsynlegt að endurtaka stefið orðrétt í niðurlaginu en gott getur verið að nota einhver lykilorð þess.
Að öllu jöfnu flyturðu ræðu í því augnamiði að hvetja aðra til að gera eitthvað ákveðið í ljósi þeirra upplýsinga sem þú leggur á borð. Eitt meginmarkmið niðurlagsorðanna er að benda áheyrendum á hvað þeir eigi að gera. Valdirðu stefið og aðalatriðin með hliðsjón af því hvers vegna efnið skipti máli fyrir áheyrendur og hverju þú vildir ná fram með ræðunni? Þá veistu hvað þú vilt hvetja þá til að gera. Núna þarftu að segja þeim hvað það er og hvernig þeir eigi að gera það.
Auk þess að benda áheyrendum á hvað þeir eigi að gera ætti að vera viss hvatning í niðurlagsorðunum. Þar ættu að koma fram gildar ástæður fyrir því að gera það sem um er að ræða og hugsanlega má benda áheyrendum á hvernig það sé þeim til góðs. Ef síðasta setningin er úthugsuð og vel orðuð styrkir hún áhrifin af ræðunni í heild.
Mundu að ræðunni er að ljúka. Það ætti að koma fram í niðurlagsorðunum og þess þarf jafnframt að gæta að hraðinn sé hæfilegur. Það er ekki gott að tala hratt allt fram í síðustu setningu og hætta svo skyndilega. En röddin má ekki heldur fjara út. Þú ættir að tala nægilega hátt en ekki of hátt. Það ætti að vera ákveðinn lokatónn í síðustu setningunum og þú ættir að flytja þær af vissri alvöru og sannfæringu. Gleymdu ekki að æfa niðurlagið þegar þú býrð þig undir að flytja ræðuna.
Hversu langt ætti niðurlagið að vera? Það ætti ekki að ráðast einvörðungu af klukkunni en þú mátt ekki heldur teygja lopann. Hægt er að meta það hvort niðurlagið sé hæfilega langt eftir þeim áhrifum sem það hefur á áheyrendur. Einfalt, stutt og jákvætt niðurlag er alltaf vel metið. Heldur lengra niðurlag með stuttu dæmi eða líkingu getur einnig verið áhrifaríkt ef það er vel undirbúið. Fjallræðan er mun styttri en Prédikarinn sem er heil biblíubók, en berðu saman stutt niðurlag Prédikarans í 12. kafla, 13. og 14. versi, og niðurlag fjallræðunnar í Matteusi 7:24-27.
Í boðunarstarfinu. Hvergi eru áhrifarík niðurlagsorð mikilvægari en í boðunarstarfinu. Hægt er að koma miklu góðu til leiðar með því að undirbúa sig og sýna öðrum kærleiksríkan áhuga. Leiðbeiningarnar á undanfarandi blaðsíðum eiga fyllilega við um tveggja manna tal.
Samtal getur verið örstutt. Húsráðandinn er kannski önnum kafinn og heimsóknin stendur ekki nema í eina mínútu. Ef við á gætirðu sagt eitthvað þessu líkt: „Ég skil að þú er önnum kafinn. En má ég nefna eitthvað uppbyggilegt í örstuttu máli? Biblían sýnir að skapari okkar ætlar að gera mjög jákvæða breytingu á jörðinni í okkar þágu — hún á að verða paradís þar sem fólk getur búið saman í friði að eilífu. Við getum fengið inngöngu í þessa paradís en við þurfum að kynna okkur til hvers Guð ætlast af okkur.“ En þú gætir líka boðist til að koma aftur þegar betur stendur á.
Þó að heimsóknin verði endaslepp vegna þess að húsráðandi er stuttur í spuna eða jafnvel ókurteis er engu að síður hægt að áorka ýmsu góðu. Mundu eftir leiðbeiningunum í Matteusi 10:12, 13 og Rómverjabréfinu 12:17, 18. Kannski geturðu breytt afstöðu viðmælandans til votta Jehóva með því að svara mildilega. Það væri góður árangur.
En segjum að þú eigir gott samtal við húsráðanda. Þá gæti verið gott að endurtaka aðalatriðin sem þú vilt að hann muni. Og ljúktu máli þínu með því að hvetja hann til að gera eitthvað í sambandi við það sem þið rædduð.
Ef þú sérð færi á að taka upp þráðinn aftur síðar skaltu gefa viðmælandanum einhverja ástæðu til að hlakka til þess. Berðu upp spurningu, kannski spurningu sem rætt er um í Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókinni) eða riti sem samið er til að nota við kennslu í heimahúsum. Hafðu hugfast hverju þú vilt áorka eins og Jesús lýsti því í Matteusi 28:19, 20.
Sérðu um biblíunámskeið? Þú auðveldar nemandanum að muna það sem rætt var með því að endurtaka stef námsefnisins. Upprifjunarspurningar hjálpa honum að leggja aðalatriðin á minnið, einkum ef upprifjuninni er ekki hespað af í flýti. Sé nemandinn spurður hvernig hann geti notað efnið sjálfur eða komið því á framfæri við aðra lærir hann að hugsa um notagildi þess. — Orðskv. 4:7.
Mundu að niðurlagið ræður töluverðu um það hve áhrifarík umfjöllun þín er á heildina litið.