VIÐAUKI
Hvað eru „sál“ og „andi“?
HVAÐ dettur þér í hug þegar þú heyrir minnst á „sál“ og „anda“? Margir trúa að þessi tvö hugtök merki að við mennirnir höfum eitthvað ósýnilegt og ódauðlegt innra með okkur. Þeir álíta að þessi ósýnilegi hluti mannsins yfirgefi líkamann og lifi áfram þegar líkaminn deyr. Svo útbreidd er þessi hugmynd að það kemur mörgum á óvart að hana skuli alls ekki vera að finna í Biblíunni. Hvað er þá sálin og hvað er andinn samkvæmt orði Guðs?
ORÐIÐ „SÁL“ Í BIBLÍUNNI
Lítum fyrst á sálina. Biblían var aðallega skrifuð á hebresku og grísku eins og þú kannski manst. Þegar biblíuritarar skrifuðu um sálina notuðu þeir hebreska orðið nefes og gríska orðið psykheʹ. Orðin tvö standa ríflega 800 sinnum í Biblíunni og þau eru alls staðar þýdd „sál“ í New World Translation. Þegar við skoðum hvernig orðið „sál“ er notað í Biblíunni kemur í ljós að það er aðallega notað um (1) menn, (2) dýr og (3) líf manna eða dýra. Lítum á nokkra ritningarstaði þar sem þessar þrjár merkingar koma fram.
Menn. „Á dögum Nóa . . . frelsuðust fáeinar — það er átta — sálir í vatni.“ (1. Pétursbréf 3:20) Hérna er orðið „sálir“ greinilega notað um fólk — um Nóa, eiginkonu hans, syni hans þrjá og konur þeirra. Í Jeremía 52:30 segir: „Tuttugasta og þriðja ríkisár Nebúkadresars herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi 745 sálir af Júdabúum. Alls voru það 4600 sálir.“ Ljóst er að hér er einfaldlega átt við hve margar manneskjur voru herleiddar. Af öðrum ritningarstöðum, þar sem „sál“ er notað um fólk, má nefna 1. Mósebók 46:18; Jósúabók 11:11 og Postulasöguna 2:41.
Dýr. Í 4. Mósebók 31:28 stendur: „Þú skalt taka í skattgjald Drottni til handa af bardagamönnunum, þeim er í leiðangurinn fóru, eina sál af hverjum fimm hundruðum — af mönnum, nautgripum, ösnum og smáfénaði.“ Opinberunarbókin 16:3 segir: „Sérhver lifandi sál dó, sú er í hafinu var.“ Í þessum tveim ritningargreinum er notað sama orðið um nautgripi, asna, smáfénað og sjávardýr — orðið „sál“. Þetta er einnig gert á frummálinu í sköpunarsögu Biblíunnar í 1. Mósebók 1:20, 24.
Líf mannsins. Stundum er orðið „sál“ notað um líf mannsins. „Þú hefir frelsað sál mína frá dauða,“ sagði Davíð í einum af sálmum sínum. (Sálmur 56:14) Það var auðvitað líf Davíðs sem Jehóva frelsaði frá dauðanum. Lærisveinninn Jakob notaði orðið sál í svipaðri merkingu þegar hann skrifaði: „Hver sem snýr syndara frá villu vegar hans mun frelsa sálu hans frá dauða.“ (Jakobsbréfið 5:20) Í þessum ritningargreinum er orðið „sál“ augljóslega notað um líf mannsins. Fleiri dæmi um orðið „sál“ í þessari merkingu er að finna í Sálmi 97:10; Esekíel 13:19 og Matteusi 16:26.
Nánari athugun á Biblíunni leiðir í ljós að orðið „sál“ er hvergi nokkurs staðar sett í samband við hugtökin „eilífur“ eða „ódauðlegur“. Biblían segir blátt áfram að mannssálin sé dauðleg og deyi. — Esekíel 18:4.
HVAÐ ER „ANDINN“?
Lítum nú á hvernig hugtakið „andi“ er notað í Biblíunni. Margir halda að „andi“ og „sál“ séu eitt og hið sama en svo er ekki. Ljóst er af Biblíunni að „andi“ og „sál“ eru tvennt ólíkt. Hver er munurinn?
Biblíuritararnir notuðu hebreska orðið rûaḥ og gríska orðið pneuma þegar þeir skrifuðu um „andann“. Merking orðanna kemur ágætlega fram í Biblíunni. Til dæmis segir í Sálmi 104:29: „Þú [Jehóva] tekur aftur anda [rûaḥ] þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.“ Í Jakobsbréfinu 2:26 segir: „Líkaminn er dauður án anda [pneuma].“ Í þessum versum merkir „andinn“ það sem gefur líkamanum líf. Án andans er líkaminn dauður. Þess vegna er biblíuorðið rûaḥ ekki aðeins þýtt „andi“ heldur einnig „lífsandi“. Guð sagði til dæmis um Nóaflóðið: „Ég læt vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi [rûaḥ] er í.“ (1. Mósebók 6:17; 7:15, 22) „Andinn“ er því ósýnilegur kraftur (lífsneistinn) sem gæðir allar lifandi verur lífi.
Sálin og andinn eru ekki það sama. Líkaminn þarf andann til að hann virki, rétt eins og útvarpstæki þarf rafmagn til að virka. Hugsum okkur ferðaútvarpstæki. Það má orða það þannig að tækið lifni við þegar maður setur í það rafhlöður og kveikir á því. Ef rafhlöðurnar vantar er útvarpstækið dautt. Hið sama er að segja um útvarpstæki sem tekið er úr sambandi við veitustrauminn. Andinn er sambærilegur að því leyti að hann er krafturinn sem gefur líkamanum líf. Og andinn hefur enga tilfinningu, né getur hann hugsað frekar en rafmagnið. Hann er ópersónulegt afl. En án þessa anda, lífskraftarins, „andast“ líkaminn og ‚hverfur aftur til moldarinnar‘ eins og sálmaritarinn sagði.
Í Prédikaranum 12:7 er talað um dauða mannsins og þar segir: „Moldin [það er segja líkaminn] hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann.“ Líkaminn deyr og snýr aftur til uppruna síns, jarðarinnar, þegar andinn eða lífskrafturinn yfirgefur hann. Lífskrafturinn snýr sömuleiðis aftur til uppruna síns, til Guðs. (Jobsbók 34:14, 15; Sálmur 36:10) Þetta merkir ekki að lífskrafturinn svífi bókstaflega til himna heldur að vonin um að látinn maður lifni á ný hvílir í höndum Jehóva Guðs. Það er aðeins með krafti Guðs sem hægt er að gefa lífskraftinn til baka þannig að maðurinn lifi aftur.
Það er hughreystandi til þess að vita að það er einmitt þetta sem Guð ætlar að gera fyrir alla sem hvíla í gröfinni. (Jóhannes 5:28, 29) Þegar upprisutíminn gengur í garð mun Jehóva mynda nýjan líkama handa þeim sem sofa dauðasvefni og lífga hann með því að blása anda eða lífskrafti í hann. Það verður ánægjulegur tími.
Ef þig langar til að fá meiri upplýsingar um hugtökin „sál“ og „anda“, eins og þau eru notuð í Biblíunni, geturðu leitað fanga í bæklingnum Hvað verður um okkur þegar við deyjum? og í bókinni Reasoning From the Scriptures, bls. 375-84. Bæði ritin eru gefin út af Vottum Jehóva.