Hvað er synd?
Svar Biblíunnar
Synd er breytni, tilfinning eða hugsun sem stríðir gegn mælikvarða Guðs. Hún felur í sér að brjóta lög Guðs með því að gera það sem er rangt eða óréttlátt í augum Guðs. (1. Jóhannesarbréf 3:4; 5:17) Í Biblíunni kemur líka fram að syndir geta tengst vanrækslu, að gera ekki það sem er rétt. – Jakobsbréfið 4:17.
Á frummálum Biblíunnar stendur orðið sem er þýtt synd fyrir „að missa marks“. Hópur hermanna í Ísrael til forna var svo leikinn að slöngva steinum að hermennirnir „misstu ekki marks“. Ef orðtakið væri þýtt beint væri hægt að segja að þeir „syndguðu ekki“. (Dómarabókin 20:16) Að syndga er því að missa marks á því að fara eftir fullkomnum mælikvarða Guðs.
Þar sem Guð er skaparinn hefur hann rétt á að setja mælikvarða fyrir mannkynið. (Opinberunarbókin 4:11) Við erum ábyrg frammi fyrir honum fyrir gerðir okkar. – Rómverjabréfið 14:12.
Er mögulegt að komast algerlega hjá því að syndga?
Nei. Biblían segir: „Allir hafa syndgað og enginn nær að endurspegla dýrð Guðs.“ (Rómverjabréfið 3:23; 1. Konungabók 8:46; Prédikarinn 7:20; 1. Jóhannesarbréf 1:8) Hvers vegna er það raunin?
Fyrstu mannverurnar, Adam og Eva, voru syndlaus í upphafi. Það er vegna þess að þau voru sköpuð fullkomin, í mynd Guðs. (1. Mósebók 1:27) En þau misstu fullkomleika sinn þegar þau óhlýðnuðust Guði. (1. Mósebók 3:5, 6, 17–19) Börnin sem þau eignuðust fengu synd og ófullkomleika í arf, þau fæddust með erfðagalla. (Rómverjabréfið 5:12) Eða eins og Davíð konungur sagði: „Sekur er ég fæddur.“ – Sálmur 51:7.
Eru sumar syndir verri en aðrar?
Já. Biblían segir til dæmis að íbúar Sódómu til forna hafi verið ,illir og syndgað mjög‘, að synd þeirra hafi verið „mjög þung“. (1. Mósebók 13:13; 18:20) Skoðum þrjá þætti sem segja til um alvarleika syndar.
Alvarleiki. Í Biblíunni erum við vöruð við alvarlegum syndum eins og kynferðislegu siðleysi, skurðgoðadýrkun, þjófnaði, ofdrykkju, kúgun, morði og andatrúariðkun. (1. Korintubréf 6:9–11; Opinberunarbókin 21:8) Biblían aðgreinir þær frá syndum sem eru gerðar í hugsunarleysi og að óyfirlögðu ráði eins og til dæmis þegar maður særir annan mann í orði eða verki. (Orðskviðirnir 12:18; Efesusbréfið 4:31, 32) Í Biblíunni erum við samt hvött til að gera ekki lítið úr neinum syndum þar sem þær geta leitt til alvarlegri brota á lögum Guðs. – Matteus 5:27, 28.
Hvatir. Sumir syndga vegna þess að þeir þekkja ekki kröfur Guðs. (Postulasagan 17:30; 1. Tímóteusarbréf 1:13) Þótt Biblían afsaki ekki slíkar syndir sýnir hún að það er munur á þeim og brotum á lögum Guðs að yfirlögðu ráði. (4. Mósebók 15:30, 31) Syndir af ásetningi koma frá ,illu hjarta‘. – Jeremía 16:12.
Endurtekning. Í Biblíunni er líka gerður greinamunur á því að drýgja synd og iðka synd um lengri tíma. (1. Jóhannesarbréf 3:4–8) Þeir sem ,syndga vísvitandi‘, jafnvel eftir að hafa lært að gera rétt hljóta óhagstæðan dóm Guðs. – Hebreabréfið 10:26, 27.
Þeir sem gerast sekir um alvarlega synd geta fundið til yfirþyrmandi sektarkenndar vegna mistaka sinna. Davíð konungur skrifaði: „Misgjörðir mínar hafa vaxið mér yfir höfuð, þær eru byrði sem ég fæ ekki borið.“ (Sálmur 38:4) En í Biblíunni er að finna von: „Hinn guðlausi láti af breytni sinni og illmennið af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins svo að hann miskunni honum, til Guðs vors því að hann fyrirgefur ríkulega.“ – Jesaja 55:7.