Hvers vegna átti helförin gegn Gyðingum sér stað? Hvers vegna kom Guð ekki í veg fyrir hana?
Margir sem spyrja slíkra spurninga hafa sjálfir orðið fyrir átakanlegum missi og leita ekki bara svara heldur huggunar. Öðrum finnst illska mannanna hafa náð hámarki í helförinni og eiga erfitt með að trúa á Guð.
Algengar ranghugmyndir um Guð og helförina
Ranghugmynd: Það er ekki rétt af okkur að spyrja hvers vegna Guð leyfði helförina.
Staðreynd: Mjög trúað fólk hefur spurt hvers vegna Guð leyfi illskuna? Til dæmis sagði Habakkuk spámaður við Guð: „Hví sýnirðu mér illskuna og horfir aðgerðalaus á ranglætið? Hví eru fyrir augum mér ofbeldi og rán sem vekja ágreining og kveikja illdeilur?“ (Habakkuk 1:3) Í stað þess að ávíta Habakkuk lét Guð skrá spurningar hans í Biblíuna svo allir gætu lesið þær.
Ranghugmynd: Guði stendur á sama um þjáningar manna.
Staðreynd: Guð hatar illsku og þær þjáningar sem illskan veldur. (Orðskviðirnir 6:16-19) Guð „hryggðist í hjarta sínu“ á dögum Nóa vegna ofbeldisins sem breiddist út á jörðinni. (1. Mósebók 6:5, 6) Eins hefur helförin án efa valdið Guði miklum sársauka. – Malakí 3:6.
Ranghugmynd: Guð refsaði Gyðingum með helförinni.
Staðreynd: Guð leyfði Rómverjum að leggja Jerúsalem í rúst á fyrstu öld. (Matteus 23:37–24:2) Síðan þá hefur Guð ekki valið neina ákveðna þjóð til að umbuna eða refsa. Í augum Guðs er enginn munur á Gyðingum og fólki af öðrum þjóðum. – Rómverjabréfið 10:12.
Ranghugmynd: Ef kærleiksríkur, almáttugur Guð væri til hefði hann komið í veg fyrir helförina.
Staðreynd: Þótt Guð valdi aldrei þjáningum umber hann þær stundum um takmarkaðan tíma. – Jakobsbréfið 1:13; 5:11.
Hvers vegna leyfði Guð helförina?
Guð leyfði helförina af sömu ástæðum og hann leyfir þjáningar manna almennt, það er að segja sé til að útkljá siðferðileg deilumál sem komu upp fyrir langa löngu. Biblían sýnir greinilega að það er Satan djöfullinn sem stjórnar heiminum núna en ekki Guð. (Lúkas 4:1, 2, 6; Jóhannes 12:31) Í Biblíunni eru nefnd tvö mikilvæg atriði sem útskýra hvers vegna Guð leyfði að helförin ætti sér stað.
Guð gaf mannkyninu frjálsan vilja. Guð sagði Adam og Evu hvers hann vænti af þeim en þvingaði þau ekki til að hlýða sér. Þau völdu að ákveða sjálf hvað væri gott og hvað illt. Þessi slæma ákvörðun – og aðrar svipaðar sem fólk hefur tekið í aldanna rás – hafa haft hörmulegar afleiðingar fyrir mannkynið. (1. Mósebók 2:17; 3:6; Rómverjabréfið 5:12) „Þjáningar manna hafa fyrst og fremst stafað af misnotkun okkar á hinum frjálsa vilja sem við fengum“, eins og segir í bókinni Statement of Principles of Conservative Judaism. Í stað þess að svipta okkur frjálsum vilja gaf Guð mannkyninu tíma til að reyna að stjórna eigin málum óháð honum.
Guð hefur bæði vilja og getu til að afmáð skaðann sem helförin hefur valdið. Guð lofar að reisa milljónir manna upp frá dauðum, þar á meðal fórnarlömb helfararinnar. Hann mun líka afmá sársaukann sem skelfilegar minningar valda þeim sem upplifðu helförina. (Jesaja 65:17; Postulasagan 24:15) Við getum treyst því að Guð efni þessi loforð því hann elskar mannkynið. – Jóhannes 3:16.
Margir þeirra sem lifðu helförina af varðveittu trú sína og öðluðust tilgang í lífinu af því að þeir skildu hvers vegna Guð leyfði illskuna og hvernig hann ætlar að afmá afleiðingar hennar.