Fyrsta Mósebók
48 Nokkru seinna var Jósef sagt: „Föður þínum hefur hrakað.“ Þá tók hann með sér báða syni sína, þá Manasse og Efraím, og fór til hans.+ 2 Þegar Jakobi var sagt að Jósef sonur hans væri kominn harkaði hann* af sér og settist upp í rúminu. 3 Jakob sagði við Jósef:
„Almáttugur Guð birtist mér í Lús í Kanaanslandi og blessaði mig.+ 4 Hann sagði við mig: ‚Ég geri þig frjósaman og gef þér marga afkomendur. Ég geri þig að fjölmennri þjóð+ og gef afkomendum þínum þetta land til eignar um ókomna tíð.‘+ 5 Báðir synir þínir, sem þú eignaðist í Egyptalandi áður en ég kom hingað til þín, eru nú mínir.+ Efraím og Manasse skulu vera mínir synir rétt eins og Rúben og Símeon.+ 6 En börnin sem þú eignast eftir þá skulu vera þín. Þau munu bera nafn bræðra sinna í erfðalandi þeirra.+ 7 Þegar ég var á leiðinni frá Paddan dó Rakel+ við hlið mér í Kanaanslandi þegar enn var drjúgur spölur eftir til Efrata.+ Þess vegna jarðaði ég hana þar við veginn til Efrata, það er Betlehem.“+
8 Þegar Ísrael sá syni Jósefs spurði hann: „Hverjir eru þetta?“ 9 „Þetta eru synir mínir sem Guð hefur gefið mér hérna,“+ svaraði Jósef föður sínum. Þá sagði hann: „Komdu með þá til mín svo að ég geti blessað þá.“+ 10 En Ísrael var orðinn sjóndapur af elli og gat ekki séð. Jósef leiddi þá synina til hans og hann kyssti þá og faðmaði. 11 Ísrael sagði við Jósef: „Ég sem hélt ég myndi aldrei sjá þig framar+ og nú hefur Guð jafnvel leyft mér að sjá börnin þín.“ 12 Jósef færði synina frá hnjám Ísraels og laut til jarðar.
13 Síðan leiddi Jósef þá aftur til hans. Hann tók Efraím+ sér við hægri hönd og Manasse+ sér við vinstri hönd þannig að Efraím var vinstra megin við Ísrael en Manasse hægra megin. 14 En Ísrael rétti út hægri höndina og lagði á höfuð Efraíms, þótt hann væri yngri, og vinstri höndina lagði hann á höfuð Manasse. Hann lagði hendurnar viljandi þannig enda þótt Manasse væri frumburðurinn.+ 15 Síðan blessaði hann Jósef og sagði:+
„Hinn sanni Guð sem feður mínir, Abraham og Ísak, þjónuðu,*+
hinn sanni Guð sem hefur gætt mín eins og hirðir alla mína ævi fram á þennan dag,+
16 hann sem lét engil sinn frelsa mig úr öllum nauðum mínum,+ hann blessi drengina.+
Þeir skulu bera nafn mitt og nafn feðra minna, Abrahams og Ísaks.
Megi þeir verða fjölmennir á jörðinni.“+
17 Jósef sá að faðir hans lagði hægri höndina á höfuð Efraíms. Hann var mjög óhress með það og greip í hönd föður síns og reyndi að færa hana af höfði Efraíms yfir á höfuð Manasse. 18 „Ekki svona, faðir minn,“ sagði hann. „Þessi hérna er frumburðurinn.+ Leggðu hægri höndina á höfuð hans.“ 19 En faðir hans lét ekki segjast. „Ég veit, sonur minn, ég veit,“ sagði hann. „Hann mun líka verða að þjóð og hann verður líka mikill. En yngri bróðir hans verður honum meiri+ og afkomendur hans svo margir að þeir gætu myndað heilu þjóðirnar.“+ 20 Hann blessaði þá á þeim degi+ og sagði:
„Ísraelsmenn munu nefna nafn þitt þegar þeir blessa og segja:
‚Guð geri þig eins og Efraím og Manasse.‘“
Þannig tók hann Efraím fram yfir Manasse.
21 Síðan sagði Ísrael við Jósef: „Nú styttist í að ég deyi+ en Guð verður með ykkur og leiðir ykkur aftur til lands forfeðra ykkar.+ 22 En þér gef ég eitt landsvæði* fram yfir bræður þína, það sem ég vann af Amorítum með sverði mínu og boga.“