Fjórða Mósebók
6 Jehóva sagði nú við Móse: 2 „Segðu við Ísraelsmenn: ‚Ef karl eða kona vinnur sérstakt heit um að vígjast Jehóva sem nasírei*+ 3 skulu þau forðast vín og aðra áfenga drykki. Nasírei má ekki drekka vínedik eða edik gert úr öðru áfengi.+ Hann má ekki drekka nokkurn þrúgusafa eða borða vínber, hvorki ný né þurrkuð. 4 Allan þann tíma sem hann er nasírei má hann ekki neyta nokkurs sem kemur af vínviði, ekki einu sinni óþroskaðra berja eða hýðisins.
5 Allan þann tíma sem nasíreaheit hans er í gildi má rakhnífur ekki snerta höfuð hans.+ Hann á að vera heilagur og láta hárið vaxa allan þann tíma sem hann er helgaður Jehóva. 6 Hann má ekki koma nálægt látinni manneskju* allan þann tíma sem hann er helgaður Jehóva. 7 Jafnvel þó að faðir hans, móðir, bróðir eða systir deyi má hann ekki óhreinka sig+ því að hann er með tákn þess á höfðinu að hann sé nasírei Guðs síns.
8 Hann er helgaður Jehóva allan tímann sem hann er nasírei. 9 En ef einhver deyr óvænt við hlið hans+ og hann óhreinkar hárið sem táknar að hann sé helgaður Guði* á hann að raka höfuðið+ daginn sem staðfest er að hann sé hreinn. Hann á að raka það á sjöunda degi. 10 Á áttunda degi á hann að færa prestinum tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur við inngang samfundatjaldsins. 11 Presturinn á að hafa til aðra þeirra í syndafórn og hina í brennifórn og friðþægja fyrir hann vegna syndar hans+ í tengslum við látnu manneskjuna.* Hann á að helga höfuð sitt sama dag. 12 Hann þarf síðan að helga sig Jehóva á ný og byrja nasíreatímann upp á nýtt. Hann á að bera fram hrútlamb í sektarfórn, ekki eldra en veturgamalt. Fyrra tímabilið telst ekki með því að hann óhreinkaði sig meðan hann var nasírei.
13 Þetta eru lögin um nasírea: Þegar hann lýkur nasíreatímanum+ á að fara með hann að inngangi samfundatjaldsins. 14 Þar á hann að færa Jehóva fórn sína: eitt gallalaust hrútlamb í brennifórn,+ ekki eldra en veturgamalt, eina gallalausa gimbur í syndafórn,+ ekki eldri en veturgamla, einn gallalausan hrút í samneytisfórn,+ 15 körfu með ósýrðu kringlóttu brauði úr fínu olíublönduðu mjöli og ósýrt flatbrauð smurt olíu ásamt tilheyrandi kornfórn+ og drykkjarfórnum.+ 16 Presturinn á að bera þetta fram fyrir Jehóva og færa syndafórnina og brennifórnina. 17 Hann á að færa hrútinn í samneytisfórn handa Jehóva ásamt körfunni með ósýrða brauðinu og bera fram kornfórnina+ og drykkjarfórnina sem fylgja.
18 Nasíreinn á síðan að raka nasíreatáknið af höfði sér+ við inngang samfundatjaldsins og taka svo hárið sem óx meðan hann var nasírei og leggja það á eldinn undir samneytisfórninni. 19 Presturinn skal taka soðinn+ bóg af hrútnum, eitt ósýrt kringlótt brauð úr körfunni og eitt ósýrt flatbrauð og leggja í hendur nasíreans eftir að hann er búinn að raka af sér nasíreatáknið. 20 Og presturinn á að veifa því fram og aftur sem veififórn frammi fyrir Jehóva.+ Það er heilagt og ætlað prestinum ásamt bringu veififórnarinnar og lærinu sem er gefið í framlag.+ Eftir það má nasíreinn drekka vín.
21 Þetta eru lögin um nasíreann+ sem vinnur heit: Ef hann heitir að gefa Jehóva meira að fórnargjöf en krafist er af nasíreum og hefur efni á því á hann að halda heit sitt af virðingu fyrir nasírealögunum.‘“
22 Síðan sagði Jehóva við Móse: 23 „Segðu við Aron og syni hans: ‚Þannig skuluð þið blessa+ Ísraelsmenn. Segið við þá:
24 „Jehóva blessi þig+ og verndi.
25 Jehóva láti andlit sitt lýsa á þig+ og sýni þér velvild.
26 Jehóva snúi andliti sínu að þér og veiti þér frið.“‘+
27 Og þeir skulu nefna nafn mitt yfir Ísraelsmönnum+ svo að ég blessi þá.“+