Esekíel
37 Hönd Jehóva var yfir mér og Jehóva flutti mig burt með anda sínum og lét mig nema staðar í miðjum dalnum.+ Hann var fullur af beinum. 2 Hann lét mig ganga um meðal þeirra og ég sá að þar í dalnum var aragrúi af beinum og þau voru uppþornuð.+ 3 Hann spurði mig: „Mannssonur, geta þessi bein lifnað við?“ Ég svaraði: „Alvaldur Drottinn Jehóva, þú einn veist það.“+ 4 Þá sagði hann: „Spáðu um þessi bein og segðu við þau: ‚Þið uppþornuðu bein, heyrið orð Jehóva:
5 Alvaldur Drottinn Jehóva segir við þessi bein: „Ég gef ykkur lífsanda og þið lifnið við.+ 6 Ég festi á ykkur sinar og hold, þek ykkur með húð og gef ykkur lífsanda þannig að þið lifnið við. Þá munuð þið skilja að ég er Jehóva.“‘“
7 Ég spáði eins og mér hafði verið sagt. Meðan ég spáði heyrðist skruðningur og beinin tóku að færast saman, bein fyrir bein. 8 Síðan sá ég sinar og hold myndast á þeim og húð þekja þau. Enn var þó enginn lífsandi í þeim.
9 Þá sagði hann við mig: „Flyttu vindinum spádóm. Spáðu, mannssonur, og segðu við vindinn: ‚Alvaldur Drottinn Jehóva segir: „Komdu, vindur,* úr vindáttunum fjórum og blástu á þetta fólk sem var drepið, svo að það lifni við.“‘“
10 Ég spáði þá eins og hann sagði mér og lífsandi* kom í fólkið svo að það lifnaði við og stóð á fætur.+ Þetta var gríðarlegur her.
11 Síðan sagði hann við mig: „Mannssonur, þessi bein eru allir Ísraelsmenn.+ Þeir segja: ‚Bein okkar eru uppþornuð og von okkar er brostin.+ Það er úti um okkur.‘ 12 Spáðu því og segðu við þá: ‚Þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva: „Ég opna grafir ykkar,+ reisi ykkur, fólk mitt, upp úr þeim og flyt ykkur til Ísraelslands.+ 13 Þið munuð skilja að ég er Jehóva þegar ég opna grafir ykkar og reisi ykkur, fólk mitt, upp úr þeim.“‘+ 14 ‚Ég læt anda minn koma í ykkur svo að þið lifnið við+ og ég læt ykkur setjast að í landi ykkar. Þið munuð skilja að ég, Jehóva, hef talað og komið því til leiðar,‘ segir Jehóva.“
15 Orð Jehóva kom aftur til mín: 16 „Mannssonur, taktu staf og skrifaðu á hann: ‚Handa Júda og þeim Ísraelsmönnum sem eru með honum.‘*+ Taktu síðan annan staf og skrifaðu á hann: ‚Handa Jósef og öllum Ísraelsmönnum sem eru með honum,* stafur Efraíms.‘+ 17 Tengdu þá síðan saman svo að þeir verði að einum staf í hendi þinni.+ 18 Þegar samlandar þínir spyrja þig: ‚Ætlarðu ekki að segja okkur hvað þetta merkir?‘ 19 skaltu svara: ‚Alvaldur Drottinn Jehóva segir: „Ég tek staf Jósefs og ættkvísla Ísraels sem eru með honum, stafinn sem er í hendi Efraíms, og sameina hann staf Júda. Ég geri þá að einum staf+ og þeir sameinast í hendi minni.“‘ 20 Haltu á stöfunum sem þú skrifar á svo að þeir sjái þá.
21 Segðu síðan við þá: ‚Alvaldur Drottinn Jehóva segir: „Ég sæki Ísraelsmenn til þjóðanna sem þeir dreifðust til, safna þeim saman úr öllum áttum og flyt þá heim í land þeirra.+ 22 Ég geri þá að einni þjóð í landinu,+ á fjöllum Ísraels, og einn konungur ríkir yfir þeim öllum.+ Þeir verða ekki lengur tvær þjóðir og skiptast ekki framar í tvö ríki.+ 23 Þeir óhreinka sig ekki framar á viðbjóðslegum skurðgoðum* sínum, andstyggilegum verkum og misgerðum.+ Ég frelsa þá frá öllum syndum sem þeir drýgðu í ótrúmennsku sinni og hreinsa þá. Þeir verða fólk mitt og ég verð Guð þeirra.+
24 Davíð þjónn minn verður konungur þeirra+ og þeir munu allir hafa einn hirði.+ Þeir fylgja lögum mínum og fara vandlega eftir ákvæðum mínum.+ 25 Þeir munu búa í landinu sem ég gaf Jakobi þjóni mínum og forfeður ykkar bjuggu í.+ Þeir munu búa þar að eilífu,+ þeir, börn þeirra og barnabörn,+ og Davíð þjónn minn verður höfðingi þeirra að eilífu.+
26 Ég geri friðarsáttmála við þá,+ eilífan sáttmála. Ég bý þeim stað og fjölga þeim+ og helgidómur minn verður hjá þeim að eilífu. 27 Tjald mitt* verður hjá* þeim. Ég verð Guð þeirra og þeir verða fólk mitt.+ 28 Þjóðirnar komast að raun um að ég, Jehóva, helga Ísrael þar sem helgidómur minn verður hjá þeim að eilífu.“‘“+