‚Þeir skulu viðurkenna að ég er Jehóva.‘
„Ég vil . . . ekki framar láta vanhelga mitt heilaga nafn, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ — ESEKÍEL 39:7.
1, 2. Hvernig vitum við að Jehóva mun ekki endalaust þola að hið heilaga nafn hans sé vanhelgað?
ÍSRAELSMENN til forna vanhelguðu nafn Jehóva. Það er auðsætt af Esekíelsbók. En íbúar kristna heimsins vanhelga líka nafn þess Guðs sem þeir játa sig tilbiðja.
2 Mun drottinvaldur alheimsins umbera það endalaust að nafn hans sé vanhelgað? Nei, því að hann hefur lýst yfir: „Ég vil . . . ekki framar láta vanhelga mitt heilaga nafn, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ (Esekíel 39:7; sjá einnig Esekíel 38:23.) Hvað mun það hafa í för með sér? Og hvaða lærdóm getum við dregið af síðasta hluta Esekíelsbókar?
Spádómar gegn öðrum
3. (a) Hvernig brugðust aðrar þjóðir við þjáningum Júda? (b) Fyrir hvaða hugarfar var „konunginum“ í Týrus steypt af stóli og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?
3 Eftir eyðingu Jerúsalem var Ammon fordæmdur fyrir að kætast yfir þjáningum Júda, og Móab fyrir að fyrirlíta Júda. Edómítar voru sekir um illvilja og hefnigirni Filista myndi kalla yfir þá ‚grimmilega hirtingu.‘ (Esekíel 25:1-17; Orðskviðirnir 24:17, 18) Borgin Týrus myndi falla í hendur Nebúkadnesari eða Nebúkadresari (nær babýlonskri stafsetningu). (Esekíel 26:1-21) Hún var eins og skip sem var að því komið að sökkva. (Esekíel 27:1-36) ‚Konungurinn‘ í Týrus (hér er greinilega átt við konungaættina) var sviptur embætti fyrir þá sök að vera rembilátur líkt og Satan. (Esekíel 28:1-26) Við ættum því sannarlega að forðast syndsamlegan hroka sem gæti komið okkur til að vanvirða nafn Jehóva. — Sálmur 138:6; Orðskviðirnir 21:4.
4. Hvað átti Faraó í Egyptalandi í vændum?
4 Esekíel sagði fyrir 40 ára auðnarástand Egyptalands. Auður landsins skyldi verða endurgjald til Nebúkadnesars fyrir herþjónustuna sem hann veitti þegar hann fullnægði dómi Jehóva yfir Týrus. (Esekíel 29:1-21) Þegar Guð sá til þess að Egyptum væri tvístrað urðu þeir að ‚viðurkenna að hann er Jehóva.‘ (Esekíel 30:1-26) Hinum stolta Faraó, fulltrúa Egyptalands, var líkt við hávaxið sedrustré er yrði höggvið. (Esekíel 31:1-18) Að lokum flutti Esekíel angurljóð yfir Faraó og för Egypta niður til heljar. — Esekíel 32:1-32.
Skylda varðmannsins
5. (a) Undir hvaða kringumstæðum einum hefur Guð velþóknun á andlegum varðmanni? (b) Hvað merkir það að ‚breyta eftir þeim boðorðum er liggja til lífsins‘?
5 Esekíel var minntur á skyldu sína sem varðmaður. (Esekíel 33:1-7) Að sjálfsögðu hefur Guð velþóknun á andlegum varðmanni aðeins ef hann gerir skyldu sína og varar hina óguðlegu við. (Lestu Esekíel 33:8, 9.) Líkt og Esekíel boðar hinn smurði ‚varðmaður‘ því djarflega aðvaranir Guðs. Þar eð Guð hefur ekki velþóknun á dauða hins óguðlega mun hann ekki láta hann gjalda sinna fyrri synda ef hann hlýðir aðvörunum og „breytir eftir þeim boðorðum, er leiða til lífsins.“ Á dögum Esekíels fólst það að ganga eftir þessum boðorðum í því að halda lögmálið, en núna merkir það að viðurkenna lausnarfórn Krists og vera fylgjandi hans. (1. Pétursbréf 2:21) Það er enginn ójöfnuður í því hvernig Guð refsar eða umbunar fólki og vernd í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ er undir því komin að fylgja boðorðum hans. — Esekíel 33:10-20; Matteus 24:21.
6. Hvað er líkt með mörgum nútímamönnum og Gyðingunum í útlegðinni á tímum Esekíels?
6 Undir lok ársins 607 f.o.t. skýrði flóttamaður frá eyðingu Jerúsalem og Esekíel tók á ný að flytja boðskap Jehóva. (Esekíel 33:21-29) Hvernig brugðust útlagarnir við? (Lestu Esekíel 33:30-33.) Margir nútímamenn eru eins og hinir útlægu Gyðingar sem litu þannig á Esekíel að hann væri að syngja ‚ástarljóð.‘ Þegar hinir smurðu og félagar þeirra ganga hús úr húsi hefur margt þessara manna ánægju af því að heyra hljóminn af boðskapnum um Guðsríki, en þeir taka hann ekki til sín. Hann hljómar í eyrum þeirra eins og þægilegt ástarljóð en þeir vígja sig ekki Jehóva og munu ekki lifa af ‚þrenginguna miklu.‘
‚Einkahirðir‘ Jehóva
7. Hvaða verk Jehóva á okkar tímum eru sambærileg við viðskipti hans við sauði sína á dögum Esekíels?
7 Í boðskap til Esekíels eftir fall Jerúsalem fordæmdi Jehóva þá sem vanhelguðu heilagt nafn hans, „Ísraels hirða,“ sem voru þar við stjórnvölinn. Þessi orð eru hæfandi lýsing á valdamönnum kristna heimsins! (Lestu Esekíel 34:1-6.) Ólíkt góða hirðinum, Jesú Kristi, fita stjórnmálalegir forystumenn kristna heimsins sig efnislega á „sauðunum.“ (Jóhannes 10:9-15) En líkt og Guð frelsaði sauði sína með því að svipta hina eigingjörnu hirða völdum þegar Júda var lagt í eyði, eins mun hann á ný frelsa sauði sína með því að svipta valdhafa kristna heimsins völdum sínum í ‚þrengingunni miklu.‘ (Opinberunarbókin 16:14-16; 19:11-21) Jehóva sýndi kærleika sinn til sauðumlíkra þjóna sinna þegar hann frelsaði þá úr Babýlon árið 537 f.o.t., með sama hætti og hann lét þann eiginleika í ljós þegar hann notaði hinn meiri Kýrus, Jesú Krist, til að frelsa leifar andlegu Ísraelsþjóðarinnar úr fjötrum Babýlonar hinnar miklu árið 1919. — Esekíel 34:7-14.
8. Hvað myndi Jehóva gera ef ‚feitur sauður‘ kúgaði hjörðina og hvernig verða kristnir undirhirðar að meðhöndla sauðina?
8 Guð annast sauði sína ástúðlega. (Lestu Esekíel 34:15, 16.) Ef ‚feitur sauður‘ myndi kúga hjörð Guðs nú á dögum myndi Jehóva ‚fóðra‘ hann með brottrekstri núna og gereyðingu í ‚þrengingunni miklu.‘ Árið 1914 setti Jehóva „einkahirði“ sinn, Jesú Krist, yfir hinar smurðu leifar. Frá 1935 hefur hann stýrt samansöfnun ‚mikils múgs‘ ‚annarra sauða‘ sem þjóna núna með hinum smurðu ‚sauðum í haglendi Jehóva.‘ Í líkingu við Guð og Krist verða kristnir undirhirðar að vera mildir og blíðir í samskiptum við alla þessa sauði. — Esekíel 34:17-31; Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16; Sálmur 23:1-4; Postulasagan 20:28-30.
„Edens garður“!
9. Hvað gerði Jehóva úr því að hann hafði ákveðið að Júda- og Ísraelsland skyldu hvílast?
9 Beinum aftur athygli okkar að hinu mannlausa og yfirgefna Júda- og Ísraelslandi. Þar eð Guð hafði ákveðið að það skyldi fá hvíld með því að vera óbyggt í 70 ár kom hann í veg fyrir að Edómítar og aðrar þjóðir tækju þetta landsvæði til búsetu. (2. Kroníkubók 36:19-21; Daníel 9:2) Meira að segja var Edóm og fjallahérað þess, Seír, líka lagt í eyði, eins og sagt hafði verið fyrir, þegar Babýloníumenn lögðu það undir sig á árunum 602-601 f.o.t. — Esekíel 35:1-36:5; Jeremía 25:15-26.
10. Fram til hvaða atburða á okkar dögum vísaði heimför leifa Júdamanna árið 537 f.o.t.?
10 Heimför leifa Júdamanna árið 537 f.o.t. var vísbending um hrífandi atburðarás á okkar dögum. Árið 1919 fóru „Ísraels fjöll,“ hin andlega landareign smurðra votta Jehóva, að byggjast andlega endurlífguðum leifum á ný. (Esekíel 36:6-15) Guð hreinsaði þær af trúarlegum óhreinleika og lagði þeim í brjóst „nýjan anda“ sem gerði þeim kleift að frambera ávöxt heilags anda hans. (Galatabréfið 5:22, 23) Og til að veraldlegir menn svívirtu ekki nafn Jehóva vegna ögunarinnar, sem hann hafði veitt fólki sínu, blessaði hann leifarnar ríkulega. — Esekíel 36:16-32.
11. Hvað hefur Guð gert við andlega landareign hinna smurðu leifa í samræmi við Esekíel 36:33-36?
11 Eftir að leifarnar sneru heim til Júda var þessu óbyggða landi breytt í frjósaman ‚Edens garð.‘ (Lestu Esekíel 36:33-36.) Á sama hátt hefur Jehóva, frá 1919, umbreytt landareign hinna smurðu leifa, sem einu sinni lá í eyði, í frjósama andlega paradís sem ‚múgurinn mikli‘ fær einnig að dvelja í núna. Þar eð þessi andlega paradís hefur verið byggð heilögu fólki ber sérhverjum vígðum kristnum manni að vinna að því að halda henni hreinni. — Esekíel 36:37, 38.
Eining endurreist
12. Hvernig var endurlífgun Gyðingaþjóðarinnar til forna lýst í Esekíel 37:1-14 og hvaða nútímahliðstæðu á það sér?
12 Meðan á útlegðinni í Babýlon stóð voru Gyðingar nánast dauðir sem þjóð, líkt og skinin bein á akri. (Esekíel 37:1-4) En hvað sá Esekíel þessu næst? (Lestu Esekíel 37:5-10.) Þessi bein voru á ný klædd sinum, holdi og hörundi og endurvakin með lífsandanum. (Esekíel 37:11-14) Guð reisti Gyðingaþjóðina upp þegar 42.360 manns af öllum ættkvíslum Ísraels og um 7500, sem ekki voru af ísraelskum ættum, gripu tækifærið til að setjast að í Júda, endurbyggja Jerúsalem og musterið og endurreisa sanna guðsdýrkun í heimalandi sínu. (Esra 1:1-4; 2:64, 65) Á líkan hátt urðu hinar ofsóttu leifar andlegu Ísraelsmannanna líkt og skinin bein árið 1918 — drepnar hvað varðaði opinbert vitnisburðarstarf sitt. En árið 1919 endurlífgaði Jehóva þá sem boðbera Guðsríkis. (Opinberunarbókin 11:7-12) Þessi hliðstæða ætti að styrkja það traust okkar að þessir smurðu menn og félagar þeirra myndi saman hið jarðneska skipulag sem Jehóva notar nú á dögum. — Sjá Árbók votta Jehóva 1975 bls. 87-125.
13. Hvernig var endurreisn til skipulagslegrar einingar meðal þjóna Jehóva til forna lýst í Esekíel 37:15-20 og hvaða hliðstæðu á það sér?
13 Hvernig var endurreisn skipulagslegrar einingar meðal þjóna Jehóva til forna lýst? (Lestu Esekíel 37:15-20.) Samruni stafanna tveggja (sem annar var merktur tveggjaættkvíslaríkinu Júda og hinn tíuættkvíslaríkinu Ísrael) á sér nútímahliðstæðu. Meðan fyrri heimsstyrjöldin geisaði reyndu metnaðargjarnir menn að sundra einingu þjóna Guðs. En árið 1919 voru trúfastir, smurðir þjónar hans sameinaðir undir Kristi, sínum ‚eina konungi‘ og ‚einkahirði.‘ Enn fremur eru þeir sem mynda ‚múginn mikla‘ núna sameinaðir leifunum, líkt og hinir liðlega 7500 útlendingar sem sneru með Ísraelsmönnum heim til Júda. Það er mikið gleðiefni að mega búa í andlegri paradís og þjóna Jehóva sem einn maður undir stjórn okkar ‚eina konungs‘! — Esekíel 37:21-28.
Góg gerir árás!
14. Hver er Góg í Magóglandi og hvað mun hann gera? (Esekíel 38:1-17)
14 Þessu næst birtast okkur stórbrotnir atburðir. Í von um að vanhelga nafn Guðs og útrýma þjónum hans gerir Góg frá Magóg árás á leifar hins andlega Ísraels sem eru fulltrúar ‚konu‘ Jehóva, hins himneska skipulags. (Opinberunarbókin 12:1-17) Góg er ‚höfðingi þessa heims,‘ Satan djöfullinn. Hann hlaut nafnið Góg eftir að honum var úthýst af himnum að lokinni fæðingu Guðsríkis árið 1914. (Jóhannes 12:31) ‚Magógland‘ er sá staður þar sem Góg og illir andar hans eru innilokaðir í nágrenni jarðarinnar. Eftir að andtrúarlegir herir gereyða kristna heiminum og Babýlon hinni miklu allri mun Jehóva leiða Góg fram til árásar á leifar hins andlega Ísraels og vígða félaga þeirra sem virðast varnarlausir. — Esekíel 38:1-17; Opinberunarbókin 17:12-14.
15. Hvað gerist þegar Góg gerir árás á votta Jehóva?
15 Hvað gerist þegar Góg gerir árás á votta Jehóva? (Lestu Esekíel 38:18-23.) Jehóva mun bjarga þjónum sínum! Vopn hans verða dynjandi steypiregn, stórir haglsteinar, blossandi eldur og geisandi drepsótt. Alger upplausn verður í hersveitum Gógs og eins sverð verður á móti öðrum. En áður en Guð afmáir þær ‚skulu menn fá að vita að hann er Jehóva.‘
16. (a) Hvað verður um „Magógland“? (b) Hvaða áhrif ætti vitneskjan um atburðina tengda Góg að hafa á okkur?
16 Þegar Satan og illir andar hans eru fjötraðir í undirdjúpi verður ‚Magógland,‘ niðurlægingarstaður þeirra í grennd við jörðina, horfið að eilífu. (Opinberunarbókin 20:1-3) Hertól Gógs verða svo mikil að vöxtum að það mun taka nokkurn tíma að losna við þau. Fuglar og dýr munu belgja sig út af hræjum þess múgs sem fylgir Góg að málum. Hvaða áhrif ætti vitneskjan um allt þetta að hafa á okkur? Sú vitneskja að árás Gógs sé yfirvofandi og að Jehóva muni bjarga fólki sínu ætti að styrkja trú okkar og fá okkur til að fagna því að slíkir atburðir skuli hafa í för með sér að nafn Guðs, sem svo lengi hefur verið lastað, skuli helgað! — Esekíel 39:1-29.
Helgidómur Jehóva blasir við!
17. (a) Hvaða sýn var Esekíel veitt árið 593 f.o.t.? (b) Fyrir hverju er tilvera musterisins í sýninni sönnun?
17 Árið 593 f.ot., á 14. ári eftir að musterið í Jerúsalem var jafnað við jörðu, fékk Esekíel að sjá í sýn nýjan helgidóm tilbeiðslunnar á Jehóva. Engillinn, sem sýndi spámanninum musterið, mældi það, og var það risastórt. (Esekíel 40:1-48:35) Þetta musteri táknaði ‚tjaldbúðina, hina sönnu sem Jehóva reisti,‘ og var ‚eftirmynd þeirra hluta sem á himnum eru.‘ Jesús Kristur gekk inn í hið allra helgasta, „sjálfan himininn,“ árið 33 til að bera fram fyrir Guð verðgildi lausnarfórnar sinnar. (Hebreabréfið 8:2; 9:23, 24) Þetta musteri í sýninni gefur okkur vissu fyrir því að sönn guðsdýrkun muni lifa af árás Gógs. Það er mikil hughreysting þeim sem unna nafni Jehóva!
18. Lýstu musterinu í sýninni í stórum dráttum.
18 Musterið var margbrotin bygging. Til dæmis voru sex hlið í ytri og innri múrveggjum þess. (Esekíel 40:6-35) Þrjátíu herbergi (líklega ætluð fólki til að eta í samfélagsfórnirnar) voru í ytri forgarðinum. (40:17) Brennifórnaraltarið var í innri forgarðinum. (43:13-17) Í fremra herbergi musterisins var altari af tré, að því er virðist ætlað til að brenna á reykelsi. (41:21, 22) Hið allra helgasta var 20 álnir á kant og múrinn umhverfis musterið var 500 mælistikur (1555 metrar) á kant. Þetta var mikilfenglegt hús sem Guð fyllti dýrð sinni! — Esekíel 41:4; 42:16-20; 43:1-7.
19. Hvaða áhrif ættu hin ýmsu smáatriði um musterið og sú staðreynd að þeir sem þjóna þar urðu að fullnægja stöðlum Guðs að hafa á okkur?
19 Hin mörgu smáatriði musterisins, fórnanna og hátíðanna ættu að minna okkur á nauðsyn þess að fylgja nákvæmlega fyrirmælum frá skipulagi Guðs og hafa hugfast að einskis ætti að láta ófreistað til að upphefja Jehóva og tilbeiðsluna á honum. (Esekíel 45:13-25; 46:12-20) Þeir sem þjónuðu í musterinu urðu að fullnægja hinum háu stöðlum Guðs, og þeir áttu að kenna fólkinu að ‚gera greinarmun á heilögu og óheilögu.‘ (Esekíel 44:15, 16, 23) Þetta ætti að koma okkur til að halda okkur heilögum sem þjónum Jehóva. — Efesusbréfið 1:3, 4.
20. (a) Hvað táknaði vatnið sem streymdi frá musterinu? (b) Hvaða áhrif hefur þetta táknræna vatn?
20 Út frá musterinu rann fljót sem læknaði eða gerði sætt salt vatnið í Dauðahafinu þannig að fiskurinn í því varð mjög mikill. (Esekíel 47:1-11) Þetta vatn táknar ráðstafanir Guðs til eilífs lífs, þeirra á meðal fórn Jesú, sem meira en nægir handa þeim sem lifa af árás Gógs og öðrum, meðal annars þeim sem rísa upp. (Jóhannes 5:28, 29; 1. Jóhannesarbréf 2:2; Opinberunarbókin 22:1, 2) Dauðahafið táknar þá eðlisþætti og það umhverfi sem mannkynið hefur lifað í — fordæmingu erfðasyndar og dauða og yfirráð Satans. Líkt og mjög mikill fiskur í Dauðahafinu, sem orðið var sætt, mun hið endurleysta mannkyn blómgast við hin endurbættu skilyrði messíasarstjórnarinnar.
21. Hvers mun hlýðið mannkyn njóta í nýja heiminum samkvæmt Esekíel 27:12?
21 Tré, sem vaxa meðfram fljótinu í sýninni, eru einnig nefnd í sambandi við lækningu. (Lestu Esekíel 47:12.) Í nýja heiminum mun hlýðið mannkyn njóta fullkominnar heilsu, bæði líkamlegrar og andlegrar. Og hví ekki? Laufblöð ávaxtatrjánna í sýninni búa yfir lækningamætti og þau fölna ekki. Það er mikil blessun fyrir þá sem þekkja Jehóva og þjóna!
Þá munu menn viðurkenna . . . !
22. Hvað gefur til kynna að Guð muni úthluta mönnum stað þar sem hann vill í paradís?
22 Með því að vinna náið með skipulagi Jehóva núna getum við þroskað með okkur eiginleika sem gera okkur samstarfsfús þegar Guð úthlutar hverjum manni stað í jarðneskri paradís. Að mönnum verði úthlutaður ákveðinn staður má ráða af því að ættkvíslunum var raðað niður í landið til norðurs og suðurs af svæði þar sem höfðingjasetrið var í sýn Esekíels. Í þessari þrískiptu „fórnargjöf“ landsins var hluti ætlaður þeim Levítum, sem ekki voru prestar, og hluti handa prestunum þar sem musterið í sýninni stóð. Í miðjum suðurhluta landsins var borg byggð vinnuliði úr öllum ættkvíslum undir umsjón samsetts ‚landhöfðingja,‘ hinna höfðinglegu fulltrúa Messíasar á ‚nýju jörðinni.‘ — Esekíel 47:13-48:34; 2. Pétursbréf 3:13; Sálmur 45:17.
23. Hvað verðum við að gera núna til að vera hluti af endurleystu mannkyni sem býr í paradís?
23 Frá hásæti sínu í hinum himneska helgidómi mun Guð blessa borgina táknrænu sem Esekíel sá. (Lestu Esekíel 48:35.) Þetta jarðneska stjórnarsetur verður nefnt Jehóva-shamma eða „[Jehóva] er hér.“ Haltu áfram að sýna ókvikulan kærleika til Guðs; þá getur þú verið hluti af hinu endurleysta mannkyni sem býr í paradís þegar enginn jarðarbúi mun fálma í andlegu myrkri heldur munu allir vita að Jehóva er hinn eini lifandi og sanni Guð. (Habakkuk 2:14) Forðastu að verða neyddur til að viðurkenna nafn Guðs gegn vilja þínum þegar hinum óguðlegu verður útrýmt. Sýndu trú, sýndu að þú vonist til að vera meðal þeirra sem lifa af þegar hann uppfyllir orðin: „Til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ — Esekíel 36:23.
Hverju svarar þú?
◻ Undir hvaða kringustæðum einum hefur Jehóva velþóknun á andlegum varðmanni?
◻ Hvernig meðhöndlar Jehóva sauði sína og hvernig ættu kristnir hirðar að koma fram við þá?
◻ Hvernig var endurlífgun Gyðingaþjóðarinnar lýst? (Esekíel 37:1-14) Hvaða nútímahliðstæðu á það sér?
◻ Hver er Góg í Magóglandi og hvað mun gerast þegar hann gerir árás á votta Jehóva?
◻ Hvað er táknað með vatninu sem streymir frá musterinu í sýninni?
[Kort/Mynd á blaðsíðu 30]
(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
Hin heilaga fórnargjöf og niðurröðun ættkvíslanna.
HAFIÐ MIKLA
LEIÐIN TIL HAMAT
DAN
ASSER
NAFTALÍ
MANASSE
EFRAÍM
RÚBEN
JÚDA
HÖFÐINGINN
Hin heilaga fórnargjöf
En Egalím
BENJAMÍN
SÍMEON
En Gedí
ÍSSAKAR
SEBÚLON
Tamar
GAÐ
Meríbó Kades
Saltahaf
Jórdan
Galíleuvatn
[Mynd]
Jehóva gætir sauða sinna með mikilli umhyggju eins og fjárhirðar til forna. Kristnir hirðar ættu að sýna hjörð Guðs sams konar umhyggju.