Jóhannes segir frá
10 „Ég segi ykkur með sanni að sá sem fer ekki inn í fjárbyrgið um dyrnar heldur klifrar yfir annars staðar er þjófur og ræningi.+ 2 En sá sem fer inn um dyrnar er hirðir sauðanna.+ 3 Dyravörðurinn opnar fyrir honum+ og sauðirnir heyra rödd hans.+ Hann kallar á sauði sína með nafni og leiðir þá út. 4 Þegar hann hefur leitt út alla sauði sína gengur hann á undan þeim og þeir fylgja honum því að þeir þekkja rödd hans. 5 Þeir fylgja ekki ókunnugum heldur flýja frá honum því að þeir þekkja ekki rödd ókunnugra.“ 6 Jesús sagði þeim þessa líkingu en þeir skildu ekki hvað hann átti við.
7 Jesús hélt því áfram: „Ég segi ykkur með sanni: Ég er dyr sauðanna.+ 8 Allir sem hafa komið og þóst vera ég eru þjófar og ræningjar en sauðirnir hafa ekki hlustað á þá. 9 Ég er dyrnar. Sá sem gengur inn um mig mun bjargast og hann fer inn og út og finnur beitiland.+ 10 Þjófurinn kemur ekki nema til að stela, drepa og tortíma.+ Ég er kominn til að þeir fái líf, líf í mikilli gnægð. 11 Ég er góði hirðirinn.+ Góði hirðirinn gefur líf sitt fyrir sauðina.+ 12 Lausráðinn maður, sem er hvorki hirðir né eigandi sauðanna, yfirgefur þá og flýr þegar hann sér úlfinn koma – og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim – 13 enda er maðurinn aðeins lausráðinn og honum er sama um þá. 14 Ég er góði hirðirinn. Ég þekki sauði mína og þeir þekkja mig+ 15 eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn,+ og ég gef líf mitt* fyrir sauðina.+
16 Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu fjárbyrgi.+ Ég þarf einnig að leiða þá og þeir munu heyra rödd mína. Það verður ein hjörð og einn hirðir.+ 17 Faðirinn elskar mig+ af því að ég gef líf mitt+ svo að ég fái það aftur. 18 Enginn tekur það frá mér heldur gef ég það að eigin frumkvæði. Ég hef vald til að gefa það og vald til að fá það aftur.+ Ég fékk fyrirmæli um þetta frá föður mínum.“
19 Nú kom aftur upp misklíð meðal Gyðinga+ vegna þess sem hann sagði. 20 Margir þeirra sögðu: „Hann er haldinn illum anda og er genginn af vitinu. Af hverju hlustið þið á hann?“ 21 Aðrir sögðu: „Andsetinn maður talar ekki svona. Varla getur illur andi gefið blindum sjónina.“
22 Um þessar mundir var vígsluhátíðin haldin í Jerúsalem. Það var vetur 23 og Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons+ í musterinu. 24 Þá söfnuðust Gyðingar í kringum hann og spurðu: „Hve lengi ætlarðu að halda okkur í óvissu? Ef þú ert Kristur segðu okkur það þá beint út.“ 25 Jesús svaraði: „Ég er búinn að segja ykkur það en þið trúið mér ekki. Verkin sem ég vinn í nafni föður míns, þau vitna um mig.+ 26 En þið trúið ekki þar sem þið eruð ekki mínir sauðir.+ 27 Sauðirnir mínir heyra rödd mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér.+ 28 Ég gef þeim eilíft líf+ og þeim verður aldrei tortímt og enginn hrifsar þá úr hendi minni.+ 29 Sauðirnir sem faðir minn hefur gefið mér eru mikilvægari en allt annað og enginn getur hrifsað þá úr hendi föðurins.+ 30 Ég og faðirinn erum eitt.“*+
31 Gyðingar tóku aftur upp steina til að grýta hann. 32 Jesús sagði við þá: „Ég hef sýnt ykkur mörg góð verk eins og faðirinn hefur beðið mig um. Fyrir hvert þeirra ætlið þið að grýta mig?“ 33 Gyðingar svöruðu: „Við grýtum þig ekki fyrir að vinna gott verk heldur fyrir guðlast+ því að þú, sem ert maður, gerir sjálfan þig að guði.“ 34 Jesús svaraði þeim: „Stendur ekki í lögum ykkar: ‚Ég hef sagt: „Þið eruð guðir“‘?*+ 35 Fyrst Guð kallaði þá ‚guði‘+ sem orð hans fordæmir – og Ritningin verður ekki felld úr gildi – 36 hvernig getið þið þá sagt að ég, sem faðirinn helgaði og sendi í heiminn, guðlasti þegar ég segi: ‚Ég er sonur Guðs‘?+ 37 Ef ég vinn ekki verk föður míns skuluð þið ekki trúa mér. 38 En ef ég vinn þau skuluð þið trúa verkunum+ þó að þið trúið mér ekki svo að þið komist að raun um og vitið að faðirinn er sameinaður mér og ég föðurnum.“+ 39 Þeir reyndu nú aftur að handsama hann en hann slapp frá þeim.
40 Hann fór aftur burt og yfir Jórdan, þangað sem Jóhannes hafði skírt í byrjun,+ og var þar um kyrrt. 41 Margir komu til hans og sögðu sín á milli: „Jóhannes vann ekki eitt einasta kraftaverk en allt sem hann sagði um þennan mann er satt.“+ 42 Þarna tóku margir trú á hann.