Jóhannes segir frá
18 Þegar Jesús hafði sagt þetta fór hann út með lærisveinum sínum. Þeir gengu yfir Kedrondal*+ og inn í garð handan við dalinn.+ 2 Júdas, sem sveik hann, vissi líka af þessum stað því að Jesús hafði oft verið þar með lærisveinunum. 3 Júdas kom nú þangað með flokk hermanna ásamt varðmönnum frá yfirprestunum og faríseunum. Þeir héldu á blysum og lömpum og voru vopnaðir.+ 4 Jesús vissi allt sem átti eftir að koma fyrir hann, steig fram og spurði þá: „Að hverjum leitið þið?“ 5 „Jesú frá Nasaret,“+ svöruðu þeir. „Ég er hann,“ sagði Jesús. Júdas, sem sveik hann, stóð einnig hjá þeim.+
6 Þegar Jesús sagði: „Ég er hann,“ hopuðu þeir og féllu til jarðar.+ 7 Þá spurði hann aftur: „Að hverjum leitið þið?“ „Jesú frá Nasaret,“ sögðu þeir. 8 Jesús svaraði: „Ég sagði ykkur að ég væri hann. Fyrst þið leitið að mér leyfið þá þessum mönnum að fara.“ 9 Þetta gerðist til þess að það rættist sem hann hafði sagt: „Ég hef ekki glatað neinum af þeim sem þú gafst mér.“+
10 Símon Pétur var með sverð, dró það úr slíðrum, hjó til þjóns æðstaprestsins og sneið af honum hægra eyrað.+ Þjónninn hét Malkus. 11 En Jesús sagði við Pétur: „Slíðraðu sverðið.+ Á ég ekki að drekka bikarinn sem faðirinn hefur fengið mér?“+
12 Hermennirnir, hersveitarforinginn og varðmenn Gyðinga gripu* nú Jesú og bundu hann. 13 Þeir fóru fyrst með hann til Annasar því að hann var tengdafaðir Kaífasar+ sem var æðstiprestur það árið,+ 14 en Kaífas var sá sem hafði sagt Gyðingum að það væri þeim fyrir bestu að einn maður dæi fyrir fólkið.+
15 Símon Pétur og annar lærisveinn fylgdu Jesú.+ Sá síðarnefndi var kunnugur æðstaprestinum og hann fylgdi Jesú inn í húsagarð æðstaprestsins 16 en Pétur stóð fyrir utan dyrnar.* Hinn lærisveinninn, sem var kunnugur æðstaprestinum, kom aftur út, talaði við þjónustustúlkuna sem gætti dyranna og tók Pétur inn með sér. 17 Þjónustustúlkan sagði þá við Pétur: „Ekki ert þú líka einn af lærisveinum þessa manns?“ „Nei, það er ég ekki,“ svaraði hann.+ 18 Þjónarnir og varðmennirnir höfðu kveikt kolaeld því að það var kalt. Þeir stóðu kringum hann og yljuðu sér. Pétur stóð hjá þeim og yljaði sér líka.
19 Yfirpresturinn spurði nú Jesú um lærisveina hans og boðskap. 20 Jesús svaraði: „Ég hef talað fyrir opnum tjöldum í allra áheyrn. Ég hef alltaf kennt í samkunduhúsi eða musterinu+ þar sem allir Gyðingar safnast saman og hef ekkert sagt í leyni. 21 Hvers vegna spyrðu mig? Spyrðu þá sem hafa heyrt það sem ég sagði. Þeir vita hvað ég hef sagt.“ 22 Einn af varðmönnunum sem stóðu þar sló Jesú utan undir+ þegar hann sagði þetta. „Er það svona sem þú svarar yfirprestinum?“ sagði hann. 23 Jesús svaraði: „Ef ég hef sagt eitthvað rangt skaltu sanna* það. En ef það var rétt sem ég sagði, hvers vegna slærðu mig?“ 24 Þá sendi Annas hann bundinn til Kaífasar æðstaprests.+
25 Símon Pétur stóð þarna og yljaði sér. Menn sögðu þá við hann: „Ekki ert þú líka einn af lærisveinum hans?“ Hann neitaði því og sagði: „Það er ég ekki.“+ 26 Einn af þjónum æðstaprestsins, frændi mannsins sem Pétur hjó eyrað af,+ sagði: „Sá ég þig ekki í garðinum með honum?“ 27 En Pétur neitaði aftur og um leið galaði hani.+
28 Nú var farið með Jesú frá Kaífasi til hallar landstjórans.+ Þetta var snemma morguns. Gyðingarnir fóru þó ekki sjálfir inn í höll landstjórans til að þeir yrðu ekki óhreinir+ heldur gætu neytt páskamáltíðarinnar. 29 Pílatus kom því út til þeirra og spurði: „Fyrir hvað ákærið þið þennan mann?“ 30 Þeir svöruðu: „Ef þetta væri ekki afbrotamaður* hefðum við ekki komið með hann til þín.“ 31 Pílatus sagði þá: „Takið hann og dæmið hann sjálfir samkvæmt lögum ykkar.“+ Gyðingarnir svöruðu: „Við höfum ekki leyfi til að taka neinn af lífi.“+ 32 Þannig rættust orð Jesú þegar hann gaf til kynna með hvaða hætti hann myndi deyja.+
33 Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og spurði: „Ertu konungur Gyðinga?“+ 34 Jesús svaraði: „Er það þín hugmynd að spyrja um þetta eða hafa aðrir sagt þér frá mér?“ 35 Pílatus svaraði: „Ekki er ég Gyðingur! Þín eigin þjóð og yfirprestarnir komu með þig til mín. Hvað hefurðu gert?“ 36 Jesús svaraði:+ „Ríki mitt tilheyrir ekki þessum heimi.+ Ef ríki mitt tilheyrði þessum heimi hefðu þjónar mínir barist svo að ég yrði ekki látinn í hendur Gyðinga.+ En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ 37 „Ertu þá konungur?“ spurði Pílatus. Jesús svaraði: „Þú segir að ég sé konungur.+ Ég fæddist og kom í heiminn til þess að vitna um sannleikann.+ Allir sem eru sannleikans megin hlusta á það sem ég segi.“ 38 „Hvað er sannleikur?“ sagði Pílatus.
Að svo mæltu gekk hann aftur út til Gyðinganna og sagði við þá: „Ég finn enga sök hjá honum.+ 39 Auk þess eruð þið vanir því að ég gefi ykkur mann lausan á páskum.+ Viljið þið að ég láti konung Gyðinga lausan?“ 40 Þá hrópuðu þeir: „Ekki þennan mann heldur Barabbas!“ En Barabbas var ræningi.+