Önnur Mósebók
33 Jehóva sagði við Móse: „Haltu nú héðan með fólkið sem þú leiddir út úr Egyptalandi. Farðu til landsins sem ég sór Abraham, Ísak og Jakobi að gefa afkomendum þeirra.+ 2 Ég sendi engil á undan þér+ og rek burt Kanverja, Amoríta, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.+ 3 Farðu til lands sem flýtur í mjólk og hunangi.+ En ég fer ekki með ykkur því að þið eruð þrjóskt* fólk+ og svo gæti farið að ég útrýmdi ykkur á leiðinni.“+
4 Þegar fólkið heyrði þessi hörðu orð varð það sorgmætt og enginn setti á sig skartgripi. 5 Jehóva sagði við Móse: „Segðu við Ísraelsmenn: ‚Þið eruð þrjóskt* fólk.+ Ég gæti farið um búðir ykkar á augabragði og tortímt ykkur.+ Berið enga skartgripi meðan ég hugleiði hvað ég á að gera við ykkur.‘“ 6 Ísraelsmenn báru því ekki skartgripi þaðan í frá, eftir að þeir tóku þá af sér við Hórebfjall.
7 Móse tók nú tjald sitt og setti það upp fyrir utan búðirnar, í nokkurri fjarlægð frá þeim, og hann kallaði það samfundatjald. Allir sem leituðu svara hjá Jehóva+ fóru út til samfundatjaldsins fyrir utan búðirnar. 8 Þegar Móse gekk út til tjaldsins risu allir á fætur, stóðu við tjalddyr sínar og horfðu á eftir honum þar til hann var kominn inn í tjaldið. 9 Um leið og Móse fór inn í tjaldið seig skýstólpinn+ niður og nam staðar við tjalddyrnar á meðan Guð talaði við Móse.+ 10 Þegar fólkið sá skýstólpann standa við tjalddyrnar hneigði það sig, hver við sínar tjalddyr. 11 Jehóva talaði við Móse augliti til auglitis+ eins og maður talar við mann. Þegar Móse sneri aftur til búðanna var Jósúa+ Núnsson, þjónn hans og aðstoðarmaður,+ eftir í tjaldinu.
12 Móse sagði nú við Jehóva: „Þú hefur sagt mér að leiða þetta fólk en þú hefur ekki sagt mér hvern þú ætlar að senda með mér. Þú hefur líka sagt: ‚Ég þekki þig með nafni* og hef velþóknun á þér.‘ 13 Ef þú hefur velþóknun á mér viltu þá leyfa mér að kynnast vegum þínum+ svo að ég megi þekkja þig og njóta velþóknunar þinnar áfram. Mundu líka að þessi þjóð er fólk þitt.“+ 14 Hann sagði þá: „Ég skal sjálfur fara með þér+ og ég skal veita þér hvíld.“+ 15 Þá sagði Móse við hann: „Ef þú ferð ekki með okkur láttu okkur þá ekki fara héðan. 16 Hvernig eiga aðrir að vita að þú hefur velþóknun á mér og fólki þínu ef þú ferð ekki með okkur?+ Hvernig eiga þeir að sjá að við erum aðgreind frá öllum öðrum þjóðum á jörðinni?“+
17 Jehóva svaraði Móse: „Ég skal líka gera þetta sem þú biður um því að ég hef velþóknun á þér og þekki þig með nafni.“ 18 Þá sagði Móse: „Viltu sýna mér dýrð þína?“ 19 Hann svaraði: „Ég skal leyfa þér að sjá alla gæsku mína og ég skal kunngera þér nafn mitt, Jehóva.+ Ég sýni þeim góðvild sem ég sýni góðvild og miskunna þeim sem ég miskunna.“+ 20 En hann bætti við: „Þú getur ekki séð andlit mitt því að enginn maður getur séð mig og haldið lífi.“
21 Síðan sagði Jehóva: „Hér er staður nálægt mér. Stattu þarna á klettinum. 22 Þegar dýrð mín fer fram hjá læt ég þig standa í klettaskoru og skýli þér með hendi minni þar til ég er farinn fram hjá. 23 Síðan tek ég höndina frá og þú færð að sjá aftan á mig. En andlit mitt fær enginn að sjá.“+