Postulasagan
9 Sál hélt áfram að ógna lærisveinum Drottins af mikilli heift og hóta þeim lífláti.+ Hann fór til æðstaprestsins 2 og bað hann um bréf til samkundnanna í Damaskus þannig að hann gæti flutt í böndum til Jerúsalem alla sem hann fyndi og tilheyrðu Veginum,*+ bæði karla og konur.
3 Hann var kominn langleiðina til Damaskus þegar ljós leiftraði skyndilega á hann af himni.+ 4 Hann féll til jarðar og heyrði rödd sem sagði við hann: „Sál, Sál, hvers vegna ofsækirðu mig?“ 5 „Hver ertu, Drottinn?“ spurði hann. Röddin svaraði: „Ég er Jesús+ sem þú ofsækir.+ 6 Stattu upp og farðu inn í borgina. Þar verður þér sagt hvað þú átt að gera.“ 7 Samferðamenn hans stóðu orðlausir. Þeir heyrðu að vísu óminn af röddinni en sáu engan.+ 8 Sál reis þá á fætur en sá ekkert þó að hann væri með opin augun. Þeir leiddu hann því til Damaskus. 9 Í þrjá daga sá hann ekki neitt+ og borðaði hvorki né drakk.
10 Í Damaskus var lærisveinn sem hét Ananías.+ Drottinn birtist honum í sýn og sagði við hann: „Ananías.“ Hann svaraði: „Hér er ég, Drottinn.“ 11 Drottinn sagði við hann: „Stattu upp, farðu í strætið sem er kallað Hið beina og finndu mann sem heitir Sál og er frá Tarsus.+ Hann er í húsi Júdasar og er að biðjast fyrir. 12 Í sýn hefur hann séð mann sem heitir Ananías koma inn og leggja hendur yfir sig til að hann fái sjónina aftur.“+ 13 En Ananías svaraði: „Drottinn, ég hef heyrt marga tala um þennan mann og um allt það illa sem hann hefur gert þínum heilögu í Jerúsalem. 14 Hann er kominn hingað með umboð frá yfirprestunum til að handtaka* alla sem ákalla nafn þitt.“+ 15 En Drottinn sagði við hann: „Farðu til hans því að ég hef valið þennan mann sem verkfæri+ til að bera nafn mitt til þjóðanna,+ til konunga+ og til Ísraelsmanna. 16 Ég ætla að sýna honum hve mikið hann þarf að þjást vegna nafns míns.“+
17 Ananías fór þá og gekk inn í húsið, lagði hendur yfir hann og sagði: „Sál, bróðir minn. Drottinn Jesús, sem birtist þér á veginum á leiðinni hingað, sendi mig til að þú fáir sjónina aftur og fyllist heilögum anda.“+ 18 Samstundis féll af augum hans eitthvað sem líktist hreistri og hann fékk sjónina aftur. Hann stóð þá upp og lét skírast. 19 Síðan borðaði hann og hresstist.
Hann staldraði við í nokkra daga hjá lærisveinunum í Damaskus+ 20 og byrjaði strax að boða í samkunduhúsunum að Jesús væri sonur Guðs. 21 En allir sem heyrðu til hans voru agndofa og sögðu: „Er þetta ekki maðurinn sem reyndi að útrýma þeim sem ákalla þetta nafn í Jerúsalem?+ Kom hann ekki hingað til að handtaka þá og leiða þá* fyrir yfirprestana?“+ 22 En Sál varð sífellt öflugri og gerði Gyðingana sem bjuggu í Damaskus rökþrota þegar hann sýndi fram á að Jesús væri Kristur.+
23 Nú liðu allmargir dagar og Gyðingar lögðu þá á ráðin um að ryðja Sál úr vegi+ 24 en hann frétti af ráðagerð þeirra. Þeir fylgdust líka vandlega með borgarhliðunum dag og nótt til að geta ráðið hann af dögum. 25 En lærisveinar hans komu honum til hjálpar að nóttu til og létu hann síga niður í körfu út um op í borgarmúrnum.+
26 Við komuna til Jerúsalem+ reyndi hann að eiga samneyti við lærisveinana þar en þeir voru allir hræddir við hann og trúðu ekki að hann væri orðinn lærisveinn. 27 Barnabas+ kom honum þá til hjálpar og fór með hann til postulanna. Hann lýsti í smáatriðum fyrir þeim hvernig Sál hefði séð Drottin+ á veginum, að Drottinn hefði talað til hans og hvernig hann hefði talað óttalaust í nafni Jesú í Damaskus.+ 28 Sál dvaldist síðan hjá þeim, fór allra sinna ferða um* Jerúsalem og talaði óttalaust í nafni Drottins. 29 Hann talaði og rökræddi við grískumælandi Gyðinga en þeir leituðu færis að ryðja honum úr vegi.+ 30 Þegar bræðurnir komust að því fóru þeir með hann niður til Sesareu og sendu hann áfram til Tarsus.+
31 Söfnuðurinn bjó nú við frið um tíma um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu+ og byggðist upp. Hann lifði í lotningu fyrir Jehóva* og sótti styrk til heilags anda,+ og lærisveinunum fjölgaði stöðugt.
32 Pétur ferðaðist um allt svæðið og kom meðal annars niður til hinna heilögu sem bjuggu í Lýddu.+ 33 Þar hitti hann mann sem hét Eneas. Hann var lamaður og hafði verið rúmfastur í átta ár. 34 Pétur sagði við hann: „Eneas, Jesús Kristur læknar þig.+ Stattu upp og búðu um rúmið.“+ Og hann stóð samstundis á fætur. 35 Þegar allir sem bjuggu í Lýddu og á Saronssléttu sáu hann sneru þeir sér til Drottins.
36 Í Joppe var kona sem hét Tabíþa en það merkir ‚Dorkas‘.* Hún var lærisveinn og góðgerðarsöm og örlát við fátæka. 37 Hún veiktist og dó meðan Pétur var í Lýddu. Hún var böðuð og lögð í herbergi á efri hæð. 38 Nú er Lýdda í grennd við Joppe og þegar lærisveinarnir fréttu að Pétur væri þar sendu þeir tvo menn til hans og báðu hann: „Flýttu þér og komdu til okkar.“ 39 Pétur fór þá með þeim. Þegar hann kom þangað fóru þeir með hann inn í herbergið á efri hæðinni. Allar ekkjurnar komu grátandi til hans og sýndu honum fjölda kyrtla og yfirhafna sem Dorkas hafði gert meðan hún var hjá þeim. 40 Pétur lét alla fara út,+ kraup á kné og fór með bæn. Síðan sneri hann sér að líkinu og sagði: „Tabíþa, rístu upp.“ Hún opnaði augun, sá Pétur og settist upp.+ 41 Hann tók í hönd hennar, reisti hana á fætur, kallaði á hina heilögu og ekkjurnar og sýndi þeim að hún væri lifandi.+ 42 Þetta fréttist út um alla Joppe og margir tóku trú á Drottin.+ 43 Pétur dvaldist allmarga daga í Joppe hjá sútara sem hét Símon.+