Daníel
5 Belsassar+ konungur hélt mikla veislu fyrir þúsund tignarmenn sína og drakk vín frammi fyrir þeim.+ 2 Þegar vínið var farið að segja til sín skipaði Belsassar þjónum sínum að sækja gull- og silfurílátin sem Nebúkadnesar faðir hans hafði flutt með sér úr musterinu í Jerúsalem,+ svo að konungurinn, tignarmenn hans, hjákonur og óæðri eiginkonur gætu drukkið úr þeim. 3 Gullílátin, sem höfðu verið tekin úr helgidóminum í húsi Guðs í Jerúsalem, voru þá sótt og konungurinn, tignarmenn hans, hjákonur og óæðri eiginkonur drukku úr þeim. 4 Þau drukku vín og lofuðu guði sína úr gulli og silfri, kopar, járni, tré og steini.
5 Allt í einu birtust fingur á mannshendi sem fóru að skrifa á kalkið á vegg konungshallarinnar á móti ljósastikunni og konungurinn sá höndina skrifa. 6 Konungurinn varð náfölur* og hugsanir hans skelfdu hann.+ Hann missti máttinn í fótunum og hnén skulfu.
7 Konungur kallaði hárri röddu að særingamennirnir, Kaldearnir* og stjörnuspekingarnir skyldu sóttir.+ Konungurinn sagði við vitringa Babýlonar: „Hver sem getur lesið þessa skrift og sagt mér hvað hún merkir verður færður í purpuraklæði, fær gullfesti um hálsinn+ og verður þriðji valdamesti maðurinn í ríkinu.“+
8 Allir vitringar konungs komu þá inn en gátu hvorki lesið skriftina né sagt konungi hvað hún merkti.+ 9 Belsassar konungur varð mjög hræddur og fölnaði í framan, og tignarmenn hans vissu ekki sitt rjúkandi ráð.+
10 Þegar drottningin heyrði hvað konungi og tignarmönnum hans fór á milli gekk hún inn í veislusalinn. Drottningin sagði: „Konungurinn lifi að eilífu. Af hverju ertu svona fölur í framan? Láttu ekki hugsanir þínar hræða þig. 11 Í ríki þínu er maður nokkur sem andi hinna heilögu guða býr í. Á dögum föður þíns var hann þekktur fyrir innsæi, skilning og visku eins og þá sem guðirnir búa yfir.+ Nebúkadnesar konungur, faðir þinn, skipaði hann yfirmann galdraprestanna, særingamannanna, Kaldeanna* og stjörnuspekinganna.+ Þetta gerði faðir þinn, konungur. 12 Daníel, sem konungurinn hafði gefið nafnið Beltsasar,+ var einstaklega vel gefinn og bjó yfir þekkingu og innsæi sem gerði honum kleift að túlka drauma, ráða gátur og leysa flókin vandamál.*+ Láttu nú sækja Daníel svo að hann geti sagt þér hvað þetta merkir.“
13 Daníel var þá leiddur fyrir konung. Konungurinn spurði Daníel: „Ert þú Daníel, einn af útlögunum+ sem konungurinn, faðir minn, flutti með sér frá Júda?+ 14 Ég hef heyrt að andi guðanna búi í þér+ og að þú sért gæddur innsæi, skilningi og einstakri visku.+ 15 Vitringarnir og særingamennirnir voru leiddir fyrir mig til að lesa þessa skrift og ráða hana fyrir mig en þeir geta ekki sagt mér hvað skilaboðin merkja.+ 16 En ég hef heyrt að þú sért fær um að ráða leyndardóma+ og leysa flókin vandamál.* Ef þú getur lesið skriftina og sagt mér hvað hún merkir verður þú færður í purpuraklæði, þú færð gullfesti um hálsinn og verður þriðji valdamesti maðurinn í ríkinu.“+
17 Daníel svaraði konungi: „Þú mátt halda gjöfunum og gefa einhverjum öðrum verðlaunin. En ég skal lesa skriftina fyrir konunginn og segja honum hvað hún merkir. 18 Herra konungur, hinn hæsti Guð gaf Nebúkadnesari föður þínum ríki, vald, heiður og tign.+ 19 Allar þjóðir, þjóðflokkar og málhópar skulfu af ótta frammi fyrir honum vegna valdsins sem Guð hafði gefið honum.+ Hann tók af lífi hvern sem hann vildi og þyrmdi lífi hvers sem hann vildi, og hann upphóf og auðmýkti hvern sem hann vildi.+ 20 En hjarta hans fylltist sjálfumgleði og hugurinn þrjósku svo að hann fór að sýna af sér hroka.+ Þá var honum steypt af stóli og hann sviptur tign sinni. 21 Hann var hrakinn burt úr samfélagi manna og hjarta hans varð eins og dýrshjarta. Hann bjó meðal villiasna, honum var gefið gras að bíta eins og nautum og dögg himins vætti líkama hans þar til honum varð ljóst að hinn hæsti Guð drottnar yfir ríki mannanna og felur hverjum sem hann vill vald yfir því.+
22 En þú, Belsassar sonur hans, hefur ekki auðmýkt hjarta þitt þó að þú vissir þetta allt 23 heldur hefurðu hreykt þér upp á móti Drottni himnanna+ og látið færa þér ílátin úr húsi hans.+ Síðan drakkstu vín úr þeim ásamt tignarmönnum þínum, hjákonum og óæðri eiginkonum og þið lofuðuð guði úr silfri og gulli, kopar, járni, tré og steini, guði sem sjá ekkert, heyra ekkert og vita ekkert.+ En þú hefur ekki heiðrað þann Guð sem hefur lífsanda þinn í hendi sér+ og vald yfir öllum högum þínum. 24 Þess vegna sendi hann höndina og lét skrifa þessi orð.+ 25 Þetta er það sem var skrifað: MENE, MENE, TEKEL og PARSIN.
26 Orðin merkja þetta: MENE, Guð hefur talið daga ríkis þíns og bundið enda á þá.+
27 TEKEL, þú hefur verið veginn á vogarskálum og reynst léttvægur.
28 PERES, ríki þínu hefur verið skipt og gefið Medum og Persum.“+
29 Belsassar skipaði þá að Daníel skyldi færður í purpuraklæði og gullfesti sett um háls honum. Tilkynnt var að hann skyldi verða þriðji valdamesti maður ríkisins.+
30 Þessa sömu nótt var Belsassar konungur Kaldea drepinn.+ 31 Daríus+ frá Medíu tók við ríkinu. Hann var þá um 62 ára.