Lúkas segir frá
18 Síðan sagði hann þeim dæmisögu til að benda á að þeir þyrftu að biðja stöðugt og mættu ekki gefast upp.+ 2 „Í borg einni var dómari sem óttaðist hvorki Guð né virti nokkurn mann. 3 Í borginni bjó einnig ekkja sem kom ítrekað til hans og sagði: ‚Láttu mig ná rétti mínum gagnvart andstæðingi mínum.‘ 4 Lengi vel var hann ófús til þess en að lokum sagði hann við sjálfan sig: ‚Ég óttast hvorki Guð né virði nokkurn mann 5 en þar sem þessi ekkja hættir ekki að ónáða mig skal ég sjá til þess að hún nái rétti sínum. Annars heldur hún áfram að koma og gerir út af við mig með þessu nauði sínu.‘“*+ 6 Síðan sagði Drottinn: „Heyrið hvað dómarinn sagði þótt hann væri ranglátur. 7 Mun Guð þá ekki láta sína útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt, ná rétti sínum?+ Hann gerir það en er þolinmóður við þá.+ 8 Ég segi ykkur að hann lætur þá fljótt ná rétti sínum. En skyldi Mannssonurinn finna slíka trú* á jörð þegar hann kemur?“
9 Hann sagði einnig þessa dæmisögu við nokkra sem treystu að sjálfir væru þeir réttlátir og litu niður á aðra: 10 „Tveir menn fóru upp í musterið til að biðjast fyrir. Annar var farísei og hinn skattheimtumaður. 11 Faríseinn stóð og bað með sjálfum sér: ‚Guð, ég þakka þér fyrir að ég er ekki eins og allir aðrir – okrarar, ranglátir og þeir sem fremja hjúskaparbrot – eða þá eins og þessi skattheimtumaður. 12 Ég fasta tvisvar í viku og gef tíund af öllu sem ég eignast.‘+ 13 En skattheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni horfa til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: ‚Guð, ég er syndugur. Miskunnaðu mér.‘+ 14 Ég segi ykkur að þessi maður fór heim til sín réttlátari en faríseinn+ því að hver sem upphefur sjálfan sig verður niðurlægður en hver sem auðmýkir sjálfan sig verður upphafinn.“+
15 Fólk kom nú til hans með ungbörn sín til að hann snerti þau en þegar lærisveinarnir sáu það fóru þeir að ávíta fólkið.+ 16 Jesús bað hins vegar um að komið væri með ungbörnin til sín og sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín. Reynið ekki að hindra þau því að ríki Guðs tilheyrir þeim sem eru eins og þau.+ 17 Trúið mér, sá sem tekur ekki við ríki Guðs eins og lítið barn kemst alls ekki inn í það.“+
18 Einn af leiðtogum fólksins spurði hann nú: „Góði kennari, hvað þarf ég að gera til að hljóta eilíft líf?“+ 19 Jesús svaraði: „Hvers vegna kallarðu mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.+ 20 Þú þekkir boðorðin: ‚Þú skalt ekki fremja hjúskaparbrot,+ þú skalt ekki myrða,+ þú skalt ekki stela,+ þú skalt ekki bera ljúgvitni,+ sýndu föður þínum og móður virðingu.‘“+ 21 Maðurinn sagði þá: „Allt þetta hef ég haldið frá unga aldri.“ 22 Þegar Jesús heyrði þetta sagði hann: „Enn vantar eitt upp á hjá þér: Seldu allt sem þú átt og skiptu fénu milli fátækra og þá áttu fjársjóð á himnum. Komdu síðan og fylgdu mér.“+ 23 Hann varð sárhryggur þegar hann heyrði þetta því að hann var mjög ríkur.+
24 Jesús leit á hann og sagði: „Mikið verður erfitt fyrir hina ríku að komast inn í ríki Guðs.+ 25 Reyndar er auðveldara fyrir úlfalda að komast gegnum nálarauga en fyrir ríkan mann að ganga inn í ríki Guðs.“+ 26 Þeir sem heyrðu þetta spurðu: „Hver getur þá bjargast?“+ 27 Hann svaraði: „Guð getur það sem mönnum er ógerlegt.“+ 28 En Pétur sagði: „Við höfum yfirgefið það sem við áttum og fylgt þér.“+ 29 Hann sagði við þá: „Trúið mér, enginn hefur yfirgefið heimili, eiginkonu, bræður, foreldra eða börn vegna ríkis Guðs+ 30 án þess að hann fái margfalt aftur á þessum tíma og í hinum komandi heimi* eilíft líf.“+
31 Jesús tók síðan þá tólf afsíðis og sagði við þá: „Nú erum við á leið upp til Jerúsalem og allt sem spámennirnir skrifuðu um Mannssoninn mun rætast.+ 32 Hann verður látinn í hendur manna af þjóðunum+ sem hæðast að honum,+ misþyrma honum og hrækja á hann.+ 33 Þeir munu húðstrýkja hann og taka af lífi+ en á þriðja degi rís hann upp.“+ 34 En þeir áttuðu sig ekki á hvað neitt af þessu merkti því að orðin voru þeim hulin og þeir skildu ekki það sem sagt var.
35 Jesús nálgaðist nú Jeríkó. Blindur maður sat við veginn og betlaði.+ 36 Hann heyrði að fjöldi fólks fór fram hjá og spurði hvað væri um að vera. 37 Honum var sagt: „Jesús frá Nasaret á leið hjá.“ 38 Þá hrópaði hann: „Jesús sonur Davíðs, miskunnaðu mér!“ 39 Þeir sem voru á undan höstuðu á hann og sögðu honum að þegja en hann hrópaði bara enn ákafar: „Sonur Davíðs, miskunnaðu mér!“ 40 Jesús nam þá staðar og bað um að komið yrði með manninn til sín. Þegar hann kom spurði Jesús hann: 41 „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“ Maðurinn svaraði: „Drottinn, gefðu mér sjónina aftur.“ 42 Jesús sagði við hann: „Fáðu sjónina aftur. Trú þín hefur læknað þig.“+ 43 Og hann endurheimti sjónina samstundis, fór að fylgja honum+ og lofa Guð. Þegar allt fólkið sá þetta fór það sömuleiðis að lofa Guð.+