Fyrsta Mósebók
8 En Guð hafði ekki gleymt* Nóa og öllum villtu dýrunum og búfénu sem var með honum í örkinni.+ Hann lét vind blása yfir jörðina og vatnið fór þá að sjatna. 2 Uppsprettur djúpsins og flóðgáttir himins lokuðust svo að það hætti að rigna.*+ 3 Vatnið á jörðinni sjatnaði smám saman og að 150 dögum liðnum hafði vatnsyfirborðið lækkað töluvert. 4 Á 17. degi sjöunda mánaðarins staðnæmdist örkin á Araratsfjöllum. 5 Vatnið hélt áfram að sjatna jafnt og þétt allt til tíunda mánaðar. Á fyrsta degi þess mánaðar komu fjallatindarnir í ljós.+
6 Eftir 40 daga opnaði Nói gluggann+ sem hann hafði gert á örkina 7 og sendi út hrafn. Hann flaug um en sneri alltaf aftur þar til vatnið hafði þornað á jörðinni.
8 Seinna sendi Nói frá sér dúfu til að kanna hvort vatnið á jörðinni hefði sjatnað. 9 En dúfan fann hvergi stað til að tylla sér* því að vatn huldi enn allt yfirborð jarðar.+ Hún kom því aftur til Nóa. Hann rétti út höndina og tók hana inn í örkina. 10 Hann beið í sjö daga og sendi þá dúfuna úr örkinni í annað sinn. 11 Dúfan kom aftur til hans undir kvöld og var þá með grænt ólívuviðarblað í gogginum. Þá vissi Nói að vatnið hafði sjatnað á jörðinni.+ 12 Hann beið í sjö daga í viðbót og sendi þá dúfuna út enn einu sinni en í þetta skipti kom hún ekki aftur til hans.
13 Á 601. aldursári Nóa,+ á fyrsta degi fyrsta mánaðarins, var vatnið horfið af jörðinni. Nói opnaði þá þak arkarinnar og sá að yfirborð jarðar var að þorna. 14 Á 27. degi annars mánaðarins var jörðin orðin þurr.
15 Þá sagði Guð við Nóa: 16 „Gakktu út úr örkinni, þú og eiginkona þín, synir þínir og tengdadætur.+ 17 Taktu með þér öll dýrin:+ fleygu dýrin, búféð, villtu dýrin og öll dýrin sem skríða á jörðinni. Þau skulu margfaldast, vera frjósöm og fjölga sér á jörðinni.“+
18 Nói gekk þá út ásamt sonum sínum,+ eiginkonu og tengdadætrum. 19 Öll dýrin, þau sem skríða og þau sem fljúga og öll önnur dýr sem lifa og hrærast á jörðinni, fóru út úr örkinni, einn hópur af öðrum.+ 20 Síðan reisti Nói altari+ handa Jehóva. Hann tók af öllum hreinum dýrum og af öllum hreinum fuglum+ og færði að brennifórn á altarinu.+ 21 Og Jehóva fann ljúfan* ilm. Þá sagði Jehóva í hjarta sínu: „Aldrei aftur mun ég leiða bölvun yfir jörðina+ vegna mannsins því að tilhneigingar hjarta hans eru illar allt frá æskuárum,+ og aldrei aftur mun ég eyða öllu sem lifir eins og ég hef nú gert.+ 22 Héðan í frá verður alltaf sáning og uppskera á jörðinni, kuldi og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt.“+