Fyrsta Mósebók
29 Jakob hélt síðan ferð sinni áfram og kom til lands austanmanna. 2 Þar kom hann auga á brunn úti á víðavangi. Þrjár sauðahjarðir lágu við brunninn því að þar voru menn vanir að brynna hjörðunum, en stór steinn lá yfir opi brunnsins. 3 Þegar öllum hjörðunum hafði verið smalað þangað var steininum velt frá opi brunnsins og fénu brynnt. Síðan var steinninn settur aftur á sinn stað yfir opið.
4 Jakob spurði mennina sem voru þar: „Bræður mínir, hvaðan eruð þið?“ „Við erum frá Haran,“+ svöruðu þeir. 5 „Þekkið þið Laban+ sonarson Nahors?“+ spurði hann. „Já, við þekkjum hann,“ svöruðu þeir. 6 „Hvernig hefur hann það?“ spurði hann og þeir svöruðu: „Hann hefur það gott. Sjáðu, þarna kemur Rakel+ dóttir hans með hjörðina.“ 7 Þá sagði Jakob: „Það er ekki langt liðið á daginn og enn er of snemmt að safna saman hjörðunum. Brynnið fénu og rekið það aftur á beit.“ 8 En þeir svöruðu: „Við megum það ekki fyrr en öllum hjörðunum hefur verið safnað saman og steininum velt frá opi brunnsins. Þá brynnum við fénu.“
9 Meðan Jakob var að tala við þá kom Rakel með hjörð föður síns sem hún gætti. 10 Þegar hann sá Rakel, dóttur Labans móðurbróður síns, og hjörð hans gekk hann strax að brunninum, velti steininum frá og brynnti fénu. 11 Hann kyssti síðan Rakel og brast í grát. 12 Hann sagði henni að hann væri frændi* föður hennar og sonur Rebekku. Hún hljóp þá heim og sagði föður sínum þetta.
13 Um leið og Laban+ heyrði að Jakob systursonur hans væri kominn hljóp hann á móti honum, faðmaði hann og kyssti og bauð honum heim til sín. Jakob sagði Laban frá öllu sem hafði gerst 14 og Laban svaraði: „Það er enginn vafi að þú ert hold mitt og blóð.“* Jakob var síðan hjá honum í einn mánuð.
15 Laban sagði nú við Jakob: „Hvers vegna ættirðu að vinna fyrir mig launalaust bara af því að þú ert frændi* minn?+ Segðu mér hvað þú vilt fá í laun.“+ 16 En Laban átti tvær dætur. Sú eldri hét Lea og sú yngri Rakel.+ 17 Lea var daufleg til augnanna en Rakel var bæði vel vaxin og falleg. 18 Jakob var orðinn ástfanginn af Rakel og sagði: „Ég skal vinna fyrir þig í sjö ár til að eignast Rakel, yngri dóttur þína.“+ 19 Laban svaraði: „Það er betra að ég gefi þér hana en einhverjum öðrum manni. Vertu áfram hjá mér.“ 20 Og Jakob vann í sjö ár til að eignast Rakel,+ en honum fannst eins og það væru aðeins fáeinir dagar því að hann elskaði hana.
21 Jakob sagði þá við Laban: „Nú er tíminn liðinn. Gefðu mér konuna mína og leyfðu mér að leggjast með henni.“ 22 Laban hélt þá veislu og bauð öllum nágrönnum sínum. 23 En um kvöldið tók hann Leu dóttur sína og leiddi hana til Jakobs svo að hann legðist með henni. 24 Laban gaf auk þess Leu dóttur sinni Silpu þjónustustúlku sína til að hún skyldi þjóna henni.+ 25 Um morguninn sá Jakob að þetta var Lea og sagði við Laban: „Hvers vegna gerðirðu mér þetta? Hef ég ekki unnið hjá þér fyrir Rakel? Hvers vegna blekktirðu mig?“+ 26 Laban svaraði: „Það er ekki venja hér um slóðir að gifta frá sér yngri dótturina á undan þeirri eldri. 27 Þú skalt verja brúðkaupsvikunni með eldri dóttur minni. Síðan færðu hina líka með því skilyrði að þú vinnir fyrir mig í önnur sjö ár.“+ 28 Jakob samþykkti það og varði brúðkaupsvikunni með Leu. Síðan gaf Laban honum Rakel dóttur sína fyrir konu. 29 Laban gaf Rakel auk þess Bílu+ þjónustustúlku sína til að hún skyldi þjóna henni.+
30 Jakob lagðist nú einnig með Rakel og hann elskaði hana meira en Leu. Hann vann síðan hjá Laban í önnur sjö ár.+ 31 Þegar Jehóva sá að Jakob elskaði Leu minna en Rakel* gerði hann henni kleift að verða barnshafandi*+ en Rakel var ófrjó.+ 32 Lea varð barnshafandi og fæddi son sem hún nefndi Rúben*+ því að hún sagði: „Jehóva hefur séð raunir mínar+ og nú á maðurinn minn eftir að elska mig.“ 33 Hún varð aftur barnshafandi og fæddi son. Hún sagði: „Jehóva hefur heyrt að ég er ekki elskuð. Þess vegna hefur hann líka gefið mér þennan son.“ Og hún nefndi hann Símeon.*+ 34 Hún varð barnshafandi enn einu sinni og fæddi son og sagði: „Nú mun maðurinn minn bindast mér sterkari böndum því að ég hef alið honum þrjá syni.“ Þess vegna var hann nefndur Leví.*+ 35 Og enn á ný varð hún barnshafandi og fæddi son. Hún sagði: „Nú vil ég lofa Jehóva.“ Þess vegna nefndi hún hann Júda.*+ Eftir það hætti hún að eignast börn.