Matteus segir frá
9 Hann steig um borð í bátinn, hélt yfir vatnið og kom til borgar sinnar.*+ 2 Þá komu menn til hans með lamaðan mann á börum. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lamaða manninn: „Hertu upp hugann, barnið mitt. Syndir þínar eru fyrirgefnar.“+ 3 Nokkrir fræðimenn hugsuðu með sér: „Maðurinn guðlastar.“ 4 Jesús vissi hvað þeir voru að hugsa og sagði: „Hvers vegna hugsið þið illt í hjörtum ykkar?+ 5 Hvort er auðveldara að segja: ‚Syndir þínar eru fyrirgefnar,‘ eða: ‚Stattu upp og gakktu‘?+ 6 En til að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörð til að fyrirgefa syndir …“ og síðan segir hann við lamaða manninn: „Stattu upp, taktu börurnar og farðu heim.“+ 7 Hann stóð þá upp og fór heim til sín. 8 Þegar fólkið sá þetta varð það óttaslegið og lofaði Guð sem hafði gefið mönnum slíkt vald.
9 Á leið sinni þaðan kom Jesús auga á mann sem hét Matteus en hann sat á skattheimtustofunni. Jesús sagði við hann: „Fylgdu mér.“ Hann stóð þá upp og fylgdi honum.+ 10 Síðar, þegar Jesús var að borða* í húsi hans, komu margir skattheimtumenn og syndarar og borðuðu* með honum og lærisveinum hans.+ 11 Þegar farísearnir sáu það sögðu þeir við lærisveinana: „Af hverju borðar kennari ykkar með skattheimtumönnum og syndurum?“+ 12 Jesús heyrði þetta og sagði: „Heilbrigðir þurfa ekki á lækni að halda heldur þeir sem eru veikir.+ 13 Farið og hugleiðið hvað þetta merkir: ‚Ég vil sjá miskunnsemi en ekki fórnir.‘+ Ég kom ekki til að kalla réttláta heldur syndara.“
14 Nú komu lærisveinar Jóhannesar til hans og spurðu: „Hvers vegna föstum við og farísearnir en lærisveinar þínir ekki?“+ 15 Jesús svaraði þeim: „Varla hafa vinir brúðgumans ástæðu til að syrgja meðan brúðguminn+ er hjá þeim. En sá dagur kemur að brúðguminn verður tekinn frá þeim+ og þá fasta þeir. 16 Enginn saumar bót af óþæfðu efni á gamla flík því að nýja bótin hleypur og rifan á flíkinni verður enn stærri.+ 17 Enginn lætur heldur nýtt vín á gamla vínbelgi. Ef það er gert springa þeir, vínið fer til spillis og belgirnir eyðileggjast. Nýtt vín er öllu heldur látið á nýja belgi og þá varðveitist hvort tveggja.“
18 Meðan Jesús var að segja þeim þetta kom forstöðumaður nokkur, kraup fyrir honum* og sagði: „Dóttir mín er örugglega dáin núna en komdu og leggðu hönd þína yfir hana, þá lifnar hún aftur.“+
19 Jesús stóð þá upp og fór með honum ásamt lærisveinunum. 20 Kona sem hafði haft stöðugar blæðingar í 12 ár+ kom nú að honum aftan frá og snerti kögrið á yfirhöfn hans+ 21 því að hún hugsaði með sér: „Ef ég bara snerti yfirhöfn hans læknast ég.“ 22 Jesús sneri sér við og þegar hann kom auga á hana sagði hann: „Hertu upp hugann, dóttir. Trú þín hefur læknað þig.“+ Og konan varð samstundis heil heilsu.+
23 Jesús kom nú í hús forstöðumannsins og sá flautuleikarana og fólkið í uppnámi.+ 24 Þá sagði hann: „Farið út. Stúlkan er ekki dáin heldur sofandi.“+ Fólkið hló þá að honum. 25 Um leið og fólkið var farið út gekk hann inn til stúlkunnar og tók um hönd hennar+ og hún reis á fætur.+ 26 Þetta fréttist að sjálfsögðu um allt héraðið.
27 Þegar Jesús fór þaðan eltu hann tveir blindir menn+ og kölluðu: „Miskunnaðu okkur, sonur Davíðs!“ 28 Jesús fór inn í hús og blindu mennirnir komu til hans. Hann spurði þá: „Trúið þið að ég geti læknað ykkur?“+ „Já, Drottinn,“ svöruðu þeir. 29 Þá snerti hann augu þeirra+ og sagði: „Verði ykkur að trú ykkar,“ 30 og þeir fengu sjónina. Jesús gaf þeim síðan þessi ströngu fyrirmæli: „Gætið þess að enginn fái að vita þetta.“+ 31 En þegar þeir voru komnir út sögðu þeir frá honum um allt héraðið.
32 Þegar þeir voru að fara kom fólk til hans með mállausan mann sem var haldinn illum anda.+ 33 Eftir að illi andinn hafði verið rekinn út gat mállausi maðurinn talað.+ Mannfjöldinn var furðu lostinn og sagði: „Aldrei hefur nokkuð þessu líkt sést í Ísrael.“+ 34 En farísearnir sögðu: „Hann rekur út illu andana með hjálp höfðingja illu andanna.“+
35 Jesús fór nú um allar borgirnar og þorpin og kenndi í samkunduhúsum, boðaði fagnaðarboðskapinn um ríkið og læknaði fólk af hvers kyns sjúkdómum og meinum.+ 36 Þegar hann sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um fólkið+ því að það var hrjáð og hrakið eins og sauðir án hirðis.+ 37 Hann sagði þá við lærisveinana: „Uppskeran er mikil en verkamennirnir fáir.+ 38 Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“+