Fimmta Mósebók
26 Þegar þú ert kominn inn í landið sem Jehóva Guð þinn gefur þér að erfðahlut og þú hefur tekið það til eignar og ert sestur þar að 2 skaltu taka nokkuð af frumgróðanum af allri uppskeru* jarðarinnar í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér og láta það í körfu. Farðu síðan á staðinn þar sem Jehóva Guð þinn velur að láta nafn sitt búa.+ 3 Farðu til prestsins sem gegnir embætti á þeim tíma og segðu við hann: ‚Ég staðfesti frammi fyrir Jehóva Guði þínum í dag að ég er kominn inn í landið sem Jehóva sór forfeðrum okkar að gefa okkur.‘+
4 Presturinn skal þá taka við körfunni af þér og setja hana niður fyrir framan altari Jehóva Guðs þíns. 5 Síðan áttu að segja frammi fyrir Jehóva Guði þínum: ‚Faðir minn var Aramei+ sem flakkaði um.* Hann fór til Egyptalands+ og bjó þar sem útlendingur með fámennri fjölskyldu sinni.+ En þar varð hann að mikilli, voldugri og fjölmennri þjóð.+ 6 Egyptar fóru illa með okkur, kúguðu okkur og hnepptu okkur í þunga þrælavinnu.+ 7 Þá hrópuðum við til Jehóva, Guðs forfeðra okkar, og Jehóva heyrði hróp okkar og sá þjáningar okkar, hve kvalin við vorum og kúguð.+ 8 Að lokum leiddi Jehóva okkur út úr Egyptalandi með sterkri hendi og útréttum handlegg+ og með ógnvekjandi verkum, táknum og kraftaverkum.+ 9 Síðan leiddi hann okkur hingað og gaf okkur þetta land, land sem flýtur í mjólk og hunangi.+ 10 Nú er ég kominn með frumgróðann af uppskeru jarðarinnar sem Jehóva hefur gefið mér.‘+
Þú skalt setja körfuna niður frammi fyrir Jehóva Guði þínum og falla fram fyrir Jehóva Guði þínum. 11 Síðan skaltu gleðjast yfir öllu því góða sem Jehóva Guð þinn hefur gefið þér og fjölskyldu þinni, þú, Levítinn og útlendingurinn sem býr á meðal ykkar.+
12 Á þriðja árinu, ári tíundarinnar, þegar þú hefur safnað saman allri tíundinni+ af uppskeru þinni, áttu að gefa hana Levítanum, útlendingnum, föðurlausa barninu* og ekkjunni og þau fá að borða nægju sína í borgum þínum.*+ 13 Síðan skaltu segja frammi fyrir Jehóva Guði þínum: ‚Ég hef farið með þessar heilögu gjafir úr húsi mínu og gefið þær Levítanum, útlendingnum, föðurlausa barninu og ekkjunni+ eins og þú gafst mér fyrirmæli um. Ég hef ekki brotið eða sniðgengið boðorð þín. 14 Ég hef ekki borðað af hinu heilaga meðan ég hef syrgt, ekki snert það meðan ég var óhreinn og ekki gefið neitt af því vegna látinnar manneskju. Ég hef hlýtt þér, Jehóva Guði mínum, og gert allt sem þú gafst mér fyrirmæli um. 15 Líttu nú niður frá heilögum bústað þínum, frá himnum, og blessaðu þjóð þína, Ísrael, og landið sem þú hefur gefið okkur+ eins og þú sórst forfeðrum okkar,+ landið sem flýtur í mjólk og hunangi.‘+
16 Jehóva Guð þinn segir þér í dag að fylgja þessum ákvæðum og lögum. Þú skalt halda þau og fylgja þeim af öllu hjarta+ og allri sál.* 17 Í dag hefur þú fengið loforð Jehóva fyrir því að hann verði Guð þinn ef þú gengur á vegum hans og heldur ákvæði hans,+ boðorð+ og lög,+ og ef þú hlustar á hann. 18 Og í dag hefur Jehóva fengið loforð þitt fyrir því að þú verðir þjóð hans, sérstök* eign hans,+ rétt eins og hann hefur lofað þér, og að þú haldir öll boðorð hans. 19 Eins og hann hefur lofað mun hann upphefja þig hátt yfir allar aðrar þjóðir sem hann hefur myndað+ og veita þér lof, frægð og heiður ef þú reynist heilög þjóð frammi fyrir Jehóva Guði þínum.“+