Síðari Kroníkubók
33 Manasse+ var 12 ára þegar hann varð konungur og hann ríkti í 55 ár í Jerúsalem.+
2 Hann gerði það sem var illt í augum Jehóva og fylgdi viðbjóðslegum siðum þjóðanna sem Jehóva hafði hrakið burt undan Ísraelsmönnum.+ 3 Hann endurreisti fórnarhæðirnar sem Hiskía faðir hans hafði rifið niður,+ reisti ölturu handa Baölunum, gerði helgistólpa* og féll fram fyrir öllum her himinsins og tilbað hann.+ 4 Hann reisti líka ölturu í húsi Jehóva+ þó að Jehóva hefði sagt: „Nafn mitt verður að eilífu í Jerúsalem.“+ 5 Hann reisti ölturu handa öllum her himinsins í báðum forgörðum húss Jehóva.+ 6 Hann fórnaði sonum sínum í eldi*+ í Hinnomssonardal,+ stundaði galdra,+ spákukl og töfra og réð andamiðla og spásagnarmenn.+ Hann gerði margt sem var illt í augum Jehóva og misbauð honum.
7 Úthöggna líkneskinu sem hann hafði gert kom hann fyrir í musteri hins sanna Guðs+ þó að Guð hefði sagt við Davíð og Salómon son hans: „Ég vil að nafn mitt sé alltaf í þessu húsi og í Jerúsalem sem ég hef valið úr öllum ættkvíslum Ísraels.+ 8 Ég mun aldrei aftur hrekja Ísraelsmenn burt úr landinu sem ég gaf forfeðrum þeirra, svo framarlega sem þeir fylgja vandlega öllum boðorðum mínum og öllum lögunum, þeim ákvæðum og fyrirmælum sem Móse miðlaði þeim.“ 9 Manasse leiddi íbúa Júda og Jerúsalem á villigötur svo að þeir hegðuðu sér verr en þjóðirnar sem Jehóva hafði tortímt þegar Ísraelsmenn lögðu landið undir sig.+
10 Jehóva talaði ítrekað við Manasse og þjóð hans en þeir hlustuðu ekki.+ 11 Þá sendi Jehóva hershöfðingja Assýríukonungs gegn þeim og þeir tóku Manasse til fanga með krókum,* bundu hann tvennum koparfjötrum og fluttu hann til Babýlonar. 12 Í neyð sinni sárbændi hann Jehóva Guð sinn um miskunn* og auðmýkti sig mjög frammi fyrir Guði forfeðra sinna. 13 Hann bað ítrekað til hans og Guð var djúpt snortinn af bæn hans. Hann heyrði innilega bæn hans um miskunn og lét hann snúa aftur til Jerúsalem og endurheimta konungdóm sinn.+ Þá skildi Manasse að Jehóva er hinn sanni Guð.+
14 Eftir þetta reisti hann ytri múr við Davíðsborg+ fyrir vestan Gíhon+ í dalnum. Múrinn var mjög hár og lá meðfram Ófel+ og alla leið að Fiskhliðinu.+ Hann skipaði einnig hershöfðingja í öllum víggirtum borgum Júda. 15 Síðan fjarlægði hann útlendu guðina og líkneskið úr húsi Jehóva+ og sömuleiðis öll ölturun sem hann hafði reist á fjallinu þar sem hús Jehóva stóð+ og í Jerúsalem og lét fleygja þeim út fyrir borgina. 16 Hann lagfærði einnig altari Jehóva+ og færði samneytisfórnir+ og þakkarfórnir+ á því. Hann sagði Júdamönnum að þeir ættu að þjóna Jehóva Guði Ísraels. 17 Samt sem áður hélt fólkið áfram að færa fórnir á fórnarhæðunum, en þó aðeins Jehóva Guði sínum.
18 Það sem er ósagt af sögu Manasse, bæn hans til Guðs síns og því sem sjáendurnir sögðu við hann í nafni Jehóva Guðs Ísraels, er skráð í sögu Ísraelskonunga. 19 Sjáendur hans skráðu bæn hans+ og hvernig hann var bænheyrður, allar syndir hans og ótrúmennsku+ og hvar hann reisti fórnarhæðir, helgistólpa*+ og skurðgoð áður en hann auðmýkti sig. 20 Manasse var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður hjá húsi sínu. Amón sonur hans varð konungur eftir hann.+
21 Amón+ var 22 ára þegar hann varð konungur og hann ríkti í tvö ár í Jerúsalem.+ 22 Hann gerði það sem var illt í augum Jehóva, alveg eins og Manasse faðir hans.+ Amón færði fórnir öllum skurðgoðunum sem Manasse faðir hans hafði gert+ og tilbað þau. 23 En ólíkt Manasse+ föður sínum auðmýkti hann sig ekki frammi fyrir Jehóva+ heldur jók hann sekt sína. 24 Dag einn gerðu þjónar hans samsæri gegn honum+ og drápu hann í höll hans. 25 En fólkið í landinu drap alla þá sem höfðu gert samsæri gegn Amón konungi+ og gerði Jósía+ son hans að konungi í hans stað.