Bréfið til Hebrea
4 Þar sem loforðið um að ganga inn til hvíldar hans stendur enn skulum við vera á varðbergi* svo að ekkert okkar fari á mis við það.+ 2 Fagnaðarboðskapurinn var boðaður okkur+ eins og forfeðrum okkar en orðið sem þeir heyrðu kom þeim ekki að gagni því að þeir höfðu ekki sömu trú og þeir sem hlýddu. 3 Við sem trúum göngum inn til hvíldarinnar en um hina á við það sem Guð sagði: „Ég sór því í reiði minni: ‚Þeir fá ekki að ganga inn til hvíldar minnar.‘“+ Þó hafði hann lokið verkum sínum og hvílst frá grundvöllun heims.+ 4 Á einum stað sagði hann um sjöunda daginn: „Og Guð hvíldist sjöunda daginn frá öllum verkum sínum,“+ 5 en hér segir hann sem sagt: „Þeir fá ekki að ganga inn til hvíldar minnar.“+
6 Þeir sem fengu fyrst að heyra fagnaðarboðskapinn gengu ekki inn vegna óhlýðni sinnar.+ Fólki stendur þó enn til boða að ganga inn til hvíldarinnar. 7 Þess vegna tiltekur hann aftur ákveðinn dag löngu síðar þegar hann segir í sálmi Davíðs: „Í dag,“ eins og segir fyrr í þessu bréfi: „Ef þið heyrið rödd mína í dag þá forherðið ekki hjörtu ykkar.“+ 8 Ef Jósúa+ hefði leitt þá til hvíldarstaðar hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag. 9 Fólki Guðs stendur því enn til boða að hvílast eins og gert er á hvíldardegi.+ 10 Sá sem hefur gengið inn til hvíldar Guðs hvílist frá verkum sínum eins og Guð hefur hvílst frá verkum sínum.+
11 Þess vegna skulum við gera okkar ýtrasta til að ganga inn til þessarar hvíldar svo að enginn falli og óhlýðnist á sama hátt og þeir.+ 12 Orð Guðs er lifandi og kraftmikið+ og beittara en nokkurt tvíeggjað sverð.+ Það smýgur svo langt inn að það skilur á milli sálar* og anda,* liðamóta og mergjar og getur dæmt hugsanir og áform hjartans. 13 Ekkert skapað er hulið augum hans+ heldur er allt bert og blasir við honum, en honum þurfum við að standa reikningsskap.+
14 Við höfum mikinn æðstaprest sem hefur farið til himna, Jesú, son Guðs.+ Þess vegna skulum við halda áfram að játa opinberlega að við trúum á hann.+ 15 Æðstiprestur okkar er ekki þannig að hann geti ekki haft samúð með okkur í veikleika okkar+ heldur hefur hann verið reyndur á allan hátt eins og við, en þó án syndar.+ 16 Við skulum því ganga fram fyrir hásæti Guðs sem sýnir einstaka góðvild* og tala óhikað+ svo að við getum notið miskunnar hans og góðvildar þegar við erum hjálparþurfi.