Réttlæti handa öllum frá skipuðum dómara Guðs
„Faðirinn elskar soninn . . . [og hefur] falið syninum allan dóm.“ — JÓHANNES 5:20, 22.
1. Hvaða spurningum stöndum við frammi fyrir sem einnig vörðuðu fólk á fyrstu öld?
HVE þýðingarmikið er réttlæti í þínum huga? Hve mikið myndir þú leggja á þig til að tryggja að þú fengir notið ósvikins réttlætis eða til að fá að lifa þegar það mun ríkja um allan heim? Þú skuldar sjálfum þér að íhuga þessar spurningar líkt og ýmsir framámenn, karlar og konur, í Aþenu í Grikklandi gerðu.
2, 3. (a) Hvað leiddi til þess að Páll hvatti Aþenubúa til að taka sinnaskiptum? (b) Hvers vegna hefur hugmyndin um sinnaskipti hljómað undarlega í eyrum þeirra?
2 Þau höfðu heyrt hina eftirminnilegu ræðu kristna postulans Páls við hinn kunna Areopagusardóm. Í byrjun leiddi hann rök að því að til sé einn Guð, skaparinn, sem við öll skuldum líf okkar. Það var rökrétt ályktun af því að við þurfum að standa þessum Guði reikningsskap gerða okkar. Þegar hér var komið ræðunni sagði Páll: „Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar [er menn tilbáðu skurðgoð], boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum.“ — Postulasagan 17:30.
3 Sinnaskipti, iðrun, hlýtur að hafa gert áheyrendum hans bilt við. Hvers vegna? Grikkir til forna þekktu vel iðrun og afturhvarf í þeim skilningi að finna til eftirsjár vegna einhvers verknaðar eða orða. En eins og orðabók bendir á skildu þeir orðið „aldrei þannig að það fæli í sér breytingu allra siðferðisviðhorfa, djúptæka breytingu á lífsstefnu manns, afturhvarf sem hefði áhrif á alla breytni hans.“
4. Með hvaða rökum studdi Páll orð sín um sinnaskipti?
4 Þú gerir þér þó vafalaust grein fyrir hvers vegna djúptæk iðrun af þessu tagi er viðeigandi. Fylgstu með röksemdafærslu Páls: Allir menn eiga Guði lífið að þakka og eru því ábyrgir gagnvart honum. Það er því einungis rétt og réttlátt að Guð ætlist til að þeir leiti hans, afli sér þekkingar um hann. Ef þessir Aþenubúar þekktu ekki meginreglur hans og vilja þurftu þeir að kynna sér þær og síðan iðrast til að samstilla líf sitt vilja hans. Það átti ekki að ráðast af því einu hvort það væri þægilegt. Við skiljum ástæðuna af hinum kraftmiklu lokaorðum Páls: „Því að hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.“ — Postulasagan 17:31.
5. Hvernig brugðust áheyrendurnir við ræðu Páls og hvers vegna?
5 Þetta vers er svo merkingarþrungið, svo sannfærandi, að það verðskuldar gaumgæfilega athugun, því að það vekur með okkur von um fullkomið réttlæti á okkar tímum. Taktu eftir orðunum: „sett dag,“ „dæma heimsbyggðina,“ „með réttvísi,“ „mann, sem hann hefur fyrirhugað,“ „sannað öllum mönnum“ og „reisa hann frá dauðum.“ Síðustu orðin, „með því að reisa hann frá dauðum,“ ollu harkalegum viðbrögðum meðal áheyrenda Páls. Eins og vers 32 til 34 lýsa gerðu sumir gys að. Aðrir hreinlega gengu burt. Fáeinir iðruðust þó og tóku trú. En við skulum vera vitrari en meirihluti áheyrenda hans í Aþenu, því að það skiptir okkur öllu máli ef við þráum ósvikið réttlæti. Til að ná fram sem mestri merkingu 31. versins skulum við fyrst líta á orðin „hann mun láta . . . dæma heimsbyggðina með réttvísi.“ Hver er „hann“ og hverjir eru staðlar hans, einkum varðandi réttlæti?
6. Hvað getum við lært um hann sem hefur ákveðið dag er hann mun dæma jörðina?
6 Nú, Postulasagan 17:30 segir okkur hver það er sem Páll á við — sá Guð sem segir öllum mönnum að iðrast, lífgjafi okkar, skaparinn. Að sjálfsögðu getum við orðið margs vísari um Guð af sköpunarverki hans, en um réttlætisstaðla hans lærum við sérstaklega annars staðar. Það er í Biblíunni sem geymir samskiptasögu hans við menn líkt og Móse og lögin sem Guð setti Ísrael.
Hvers konar dómur og réttlæti?
7. Hver er vitnisburður Móse um Jehóva og réttlætið?
7 Þú veist sjálfsagt að um áratuga skeið átti Móse regluleg og náin samskipti við Jehóva Guð, svo náin að Guð sagðist tala við Móse „munni til munns.“ (4. Mósebók 12:8) Móse vissi hvernig Jehóva kom fram við hann, svo og hvernig hann hafði komið fram við aðra menn og heilar þjóðir. Nálægt ævilokum sínum lýsti Móse Guði svo: „Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ — 5. Mósebók 32:4.
8. Hvers vegna ber okkur að gefa gaum því sem Elíhú sagði um réttlæti?
8 Þá má skoða vitnisburð Elíhús, en hann var kunnur fyrir visku sína og skarpskyggni. Við megum vera viss um að hann dró ekki fljótfærnislegar ályktanir. Einhverju sinni sat hann hljóður í meira en viku og hlustaði á langdregna rökfærslu manna sem áttu í deilum. Að hvaða niðurstöðu komst Elíhú um Guð byggða á reynslu sinni og djúptækri athugun á vegum hans? Hann sagði: „Fyrir því, skynsamir menn, heyrið mig! Fjarri fer því, að Guð aðhafist illt og hinn Almáttki fremji ranglæti. Nei, hann geldur manninum verk hans og lætur manninum farnast eftir breytni hans. Já, vissulega fremur Guð ekki ranglæti og hinn Almáttki hallar ekki réttinum.“ — Jobsbók 34:10-12.
9, 10. Hvers vegna ættu kröfur Guðs til mennskra dómara að vera uppörvandi fyrir okkur? (3. Mósebók 19:15)
9 Spyrðu þig: Lýsir þetta ekki fullkomlega því sem við vildum sjá í fari dómara, það er að hann dæmi sérhvern mann eftir verkum hans, hlutdrægnislaust og án þess að halla réttinum? Ef þú yrðir að standa frammi fyrir mennskum dómara, myndi þér þá ekki létta ef hann væri þannig?
10 Biblían kallar Jehóva ‚dómara alls jarðríkis.‘ (1. Mósebók 18:25) Stundum notaði hann þó menn sem dómara. Til hvers ætlaðist hann af ísraelskum dómurum sem voru fulltrúar hans? Í 5. Mósebók 16:19, 20 lesum við fyrirmæli Guðs sem kalla má starfslýsingu dómara: „Þú skalt eigi halla réttinum. Þú skalt eigi gjöra þér mannamun og eigi þiggja mútu, því að mútan blindar augu hinna vitru og umhverfir máli hinna réttlátu. Réttlætinu einu skalt þú fram fylgja, til þess að þú megir lifa.“ Núna er réttlætinu stundum lýst sem konu með bundið fyrir augun til tákns um þá ósk að gætt sé óhlutdrægni í dómi. Eins og þú sérð gekk Guð skrefi lengra. Hann hreinlega krafðist þess að mennskir dómarar, sem áttu að vera fulltrúar hans og framfylgja lögum hans, væru óhlutdrægir.
11. Hvaða ályktun getum við dregið af þessari upprifjun úr Biblíunni um réttlæti?
11 Þessi vitneskja um viðhorf Guðs til réttlætisins er nátengd hámarkinu í ræðu Páls. Í Postulasögunni 17:31 sagði hann að Guð hefði „sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi.“ Það er einmitt þetta sem við megum vænta af Guði — réttlætis, réttvísi og óhlutdrægni. Sumum kann þó að vera það áhyggjuefni að Guð skuli ætla sér að nota „mann“ til að dæma alla menn. Hver er þessi ‚maður‘ og hvaða tryggingu höfum við fyrir því að hann muni fylgja hinum háa réttlætisstaðli Guðs?
12, 13. Hvernig vitum við hvaða „mann“ Guð mun nota til að dæma heiminn?
12 Postulasagan 17:18 segir okkur að Páll hafi ‚flutt fagnaðarerindið um Jesú og upprisuna.‘ Þegar ræðu hans lauk vissu því áheyrendurnir að hann átti við Jesú Krist þegar hann sagði að Guð myndi ‚láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi og reist hann frá dauðum.‘
13 Jesús viðurkenndi að Guð hefði skipað hann dómara er fullnægði kröfum hans. Í Jóhannesi 5:22 sagði hann: „Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm.“ Eftir að hafa getið um hina væntanlegu upprisu þeirra sem eru í minningargröfunum bætti Jesús við: „Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.“ — Jóhannes 5:30; Sálmur 72:2-7.
14. Hvers konar meðferð megum við búast við frá Jesú?
14 Þetta kemur vissulega vel heim og saman við Postulasöguna 17:31. Þar fullvissaði Páll áheyrendur sína um að sonurinn myndi „dæma heimsbyggðina með réttvísi.“ Þessi orð lýsa sannarlega ekki stífri, ósveigjanlegri og tilfinningasnauðri réttvísi. Réttlátur dómur felur í sér að réttvísin sé tempruð miskunn og skilningi. Við skulum ekki láta okkur yfirsjást að enda þótt Jesús sé núna á himnum var hann einu sinni maður. Hann getur því sett sig í spor okkar. Í Hebreabréfinu 4:15, 16 kemur Páll inn á þetta er hann lýsir Jesú sem æðsta presti.
15. Í hverju er Jesús ólíkur mennskum dómurum?
15 Þegar þú lest Hebreabréfið 4:15, 16 skaltu hugleiða hvílíkur léttir það ætti að vera fyrir okkur að eiga Jesús sem dómara: „Ekki höfum vér þann æðsta prest [og dómara], er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar. Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.“ Í dómssölum nútímans er það oft ógnvekjandi tilhugsun að vera kallaður fram fyrir dómarasætið. En með Krist sem dómara getum við ‚gengið fram með djörfung, og hlotið miskunn, náð og hjálp á hagkvæmum tíma.‘ Varðandi tímann er þó eðlilegt að spyrja hvenær Jesús muni dæma mannkynið með réttvísi.
Hvenær kemur dómsdagur?
16, 17. Hvernig vitum við að núna er frá himnum verið að dæma menn?
16 Mundu að Páll sagði að Guð hefði „sett dag“ til að láta skipaðan dómara sinn dæma heiminn. Með þennan dómsdag í vændum er Jesús núna, já, á þessari stundu, að vinna mikilvægt dómsstarf. Hvernig getum við sagt það? Skömmu áður en Jesús var handtekinn, ranglega ákærður og dæmdur til dauða á fölskum forsendum bar hann fram sögufrægan spádóm sem varðar okkar daga. Við finnum hann í Matteusi 24. kafla. Jesús lýsti heimsviðburðum er myndu einkenna það tímabil sem nefnt er ‚endalok veraldar.‘ Styrjaldir, matvælaskortur, jarðskjálftar og aðrar hörmungar, sem hafa orðið um víða veröld frá því að fyrri heimsstyrjöldin braust út, færa okkur heim sanninn um að spádómur Jesú er núna að uppfyllast og að innan tíðar mun „endirinn koma.“ (Matteus 24:3-14) Vottar Jehóva hafa um áratuga skeið vakið athygli fólks á því með hjálp Biblíunnar. Ef þig langar til að heyra fleiri rök fyrir því hvernig við vitum að núna standa yfir síðustu dagar þessa rangláta kerfis, geta vottar Jehóva látið þær í té.
17 En nú skulum við beina athyglinni að síðari helmingi 25. kafla hjá Matteusi sem er hluti af spádómi Jesú um hina síðustu daga. Matteus 25:31, 32 á við á okkar tímum: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu [á himnum]. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ Síðan skulum við grípa niður í lokaorðin þar sem Jesús segir frá því hvaða lyktir þessi sundurgreining hans eða dómsstarf muni hafa. Vers 46 segir: „Og þeir [menn sem hann dæmir vera hafra] munu fara til eilífrar refsingar [afnáms], en hinir réttlátu [sauðirnir] til eilífs lífs.“
18. Til hvers mun sá dómur leiða?
18 Við lifum núna þennan mikilvæga dómstíma. Þeir sem eru að ‚leita Guðs og finna hann‘ nú á dögum verða dæmdir „sauðir“ og eiga í vændum að lifa af endalok núverandi heimskerfis og fá að ganga inn í nýjan heim Guðs sem fylgir. Þá mun verða að veruleika það sem 2. Pétursbréf 3:13 segir: „En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ Það verður sá „dagur“ er orð Páls í Postulasögunni 17:31 rætast fullkomlega, sá tími er heimsbyggðin verður dæmd með réttvísi.
19, 20. Hverja mun hinn komandi dómsdagur varða?
19 Þessi dómsdagur mun þó ná til miklum mun fleiri en aðeins ‚sauðanna‘ sem lifa af, þeirra sem þegar hafa verið dæmdir þess verðir að ganga inn í nýja heiminn. Eftir að Jesús hafði sagt að faðir hans hefði falið honum allan dóm talaði hann um væntanlega upprisu. Í Postulasögunni 10:42 sagði Pétur postuli einnig að Jesús Kristur sé „sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað.“
20 ‚Dagurinn,‘ sem nefndur er í Postulasögunni 17:31 þegar Guð ‚dæmir heimsbyggðina með réttvísi‘ fyrir milligöngu Jesú Krists, verður þar af leiðandi sá tími er dauðir fá upprisu. Það verður mikil gleði að sjá mátt Guðs yfirvinna dauðann sem oft hefur verið stærsta ranglætið er menn hafa mátt þola. Sumir, líkt og Jesús sjálfur, hafa verið líflátnir með ranglátum hætti eða fallið fyrir innrásarher. Aðrir hafa látið lífið vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, svo sem fellibylja, jarðskjálfta, eldsvoða og slysa eða hamfara af öðru tagi. — Prédikarinn 9:11.
Ráðin bót á ranglæti fortíðar
21. Hvernig verður ráðin bót á ranglæti fortíðarinnar í nýja heiminum?
21 Ímyndaðu þér að geta séð látna ástvini þína lífgaða á ný! Margir munu þannig fá sitt fyrsta tækifæri til að ‚leita Guðs og finna hann‘ og síðan eiga fyrir sér hið ‚eilífa líf‘ sem Jesús sagði verða hlutskipti ‚sauðanna.‘ Sumir hinna upprisnu, svo og ýmsir er lifa af endalok þessa rangláta kerfis, hafa verið fórnarlömb ranglætis af öðru tagi, svo sem fæðingargalla, langvinnra sjúkdóma, blindu, heyrnarleysis eða málhelti. Mun slík fötlun eiga heima á ‚nýrri jörð þar sem réttlæti mun búa‘? Jehóva notaði Jesaja til að koma á framfæri ýmsum spádómum sem fá munu bókstaflega uppfyllingu á hinum komandi dómsdegi. Veittu athygli því sem við megum vænta: „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ — Jesaja 35:5, 6.
22. Hvers vegna er 65. kafli Jesajabókar hvetjandi fyrir okkur í sambandi við réttlæti?
22 Hvað um annað ranglæti sem núna veldur svo mikilli eymd? Jesaja 65. kafli inniheldur mjög uppörvandi boðskap. Samanburður á Jesaja 65:17 og 2. Pétursbréfi 3:13 gefur til kynna að þessi kafli lýsi einnig ‚nýjum himni og nýrri jörð,‘ réttlátri nýrri heimsskipan. En hvað mun koma í veg fyrir að fáeinir óguðlegir menn spilli friði og réttlæti annarra? Ögn aftar í Jesajabók 65. kafla fáum við svar við því.
23. Hvað mun dómsdagur hafa í för með sér fyrir suma?
23 Meðan á dómsdaginn líður mun Jesús halda áfram því verki að dæma um hvort hver einstakur maður sé verðugur eilífs lífs. Sumir verða það ekki. Eftir að hafa fengið nægan tíma til að leita Guðs, kannski hundrað ár, munu sumir sýna að þeir vilja ekki iðka réttlæti. Eins og réttlátt er munu þeir þá missa lífið í þeim nýja heimi eins og lesa má í Jesajabók 65:20: „Bölvun verður kölluð yfir syndarann þótt hann sé hundrað ára.“ (NW) Þeir sem dæmdir verða óverðugir þess að lifa verða í minnihluta. Við höfum fulla ástæðu til að ætla að við — og flestir aðrir — muni fagna því að læra og ástunda réttlæti. — Jesaja 26:9.
24. Hvað mun verða um efnahagslegt ranglæti?
24 Ber að skilja þetta svo að ekki verði neins konar varanlegt ranglæti, ekki einu sinni fjárhagslegt? Einmitt! Jesaja 65:21-23 segir það: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er [Jehóva] hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.“ Þetta er mikil breyting frá því sem nú er. Þetta er stórfengleg blessun!
25. Hver er von þín og ásetningur í sambandi við réttlæti frá útnefndum dómara Guðs?
25 Allir þeir sem þrá varanlegt réttlæti geta því verið hugrakkir. Það mun koma — mjög bráðlega. Við lifum núna á dómstíma en hann er brátt liðinn. Við hvetjum þig til að sameinast vottum Jehóva í því að leita Guðs og finna hann. Það mun verða þér til eilífrar blessunar.
Upprifjun
◻ Hvaða vitnisburð höfum við um réttlætisstaðla Guðs?
◻ Hvaða hlutverki mun Jesús gegna á dómsdegi?
◻ Hvers vegna lifum við örlagaríka tíma að því er varðar dóm Guðs?
◻ Hvernig verður ráðin bót á ranglæti fortíðar í nýjum heimi?
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 15]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.