Fyrra bréfið til Korintumanna
16 Hvað snertir fjársöfnunina handa hinum heilögu+ skuluð þið fylgja þeim fyrirmælum sem ég gaf söfnuðunum í Galatíu. 2 Fyrsta dag hverrar viku ættu allir að leggja eitthvað fyrir eftir því sem þeir hafa efni á svo að ekki verði fyrst farið að safna fé þegar ég kem. 3 En þegar ég kem ætla ég að senda þá menn sem þið samþykkið í bréfum ykkar+ til að fara með rausnarlega gjöf ykkar til Jerúsalem. 4 Ef talið er ráðlegt að ég fari þangað líka geta þeir verið mér samferða.
5 Ég kem til ykkar þegar ég hef farið um Makedóníu því að ég ætla að fara þar um+ 6 og kannski verð ég hjá ykkur um tíma, jafnvel allan veturinn. Síðan getið þið fylgt mér áleiðis hvert sem ég kann að fara. 7 Ég vil ekki bara sjá ykkur rétt í svip heldur vonast ég til að geta staldrað við hjá ykkur um tíma+ ef Jehóva* leyfir. 8 Ég verð þó um kyrrt í Efesus+ til hvítasunnu 9 því að mér hafa opnast víðar dyr að miklu verki+ en andstæðingarnir eru margir.
10 Ef Tímóteus+ kemur sjáið þá til þess að hann þurfi ekki að vera óöruggur hjá ykkur því að hann vinnur verk Jehóva*+ alveg eins og ég. 11 Enginn ætti því að líta niður á hann. Sendið hann af stað í friði svo að hann geti komið til mín því að ég bíð eftir honum ásamt bræðrunum.
12 Hvað varðar Apollós+ bróður okkar, þá hvatti ég hann eindregið til að heimsækja ykkur með bræðrunum. Hann ætlaði sér ekki að koma núna en hann kemur þegar hann hefur tækifæri til.
13 Haldið vöku ykkar,+ standið stöðug í trúnni,+ verið hugrökk*+ og eflist.+ 14 Sýnið kærleika í öllu sem þið gerið.+
15 Þið vitið, bræður og systur, að Stefanas og heimilisfólk hans voru fyrstu lærisveinarnir í Akkeu og helguðu sig því að þjóna hinum heilögu. Ég hvet ykkur því 16 til að vera undirgefin slíku fólki og öllum öðrum sem taka þátt í verkinu og leggja hart að sér.+ 17 En ég gleðst yfir því að Stefanas,+ Fortúnatus og Akkaíkus skulu vera hér því að þeir hafa bætt mér upp fjarveru ykkar. 18 Þeir hafa verið mér og ykkur til uppörvunar. Sýnið því að þið hafið mætur á slíkum mönnum.
19 Söfnuðirnir í Asíu biðja að heilsa. Akvílas og Priska ásamt söfnuðinum í húsi þeirra+ senda ykkur innilegar kveðjur í Drottni. 20 Bræður og systur biðja öll að heilsa ykkur. Heilsið hvert öðru með heilögum kossi.
21 Ég, Páll, skrifa þessa kveðju með eigin hendi.
22 Ef einhver elskar ekki Drottin sé hann bölvaður. Drottinn okkar, komdu! 23 Megi einstök góðvild Drottins Jesú vera með ykkur. 24 Ástarkveðjur til ykkar allra sem eruð sameinuð Kristi Jesú.