Síðari Samúelsbók
13 Absalon sonur Davíðs átti mjög fallega systur sem hét Tamar.+ Amnon+ sonur Davíðs varð ástfanginn af henni. 2 Amnon varð sjúkur af þrá til Tamar systur sinnar því að hann sá ekki nokkra leið til að koma fram vilja sínum við hana þar sem hún var hrein mey. 3 Amnon átti vin sem hét Jónadab.+ Hann var sonur Símea+ bróður Davíðs. Jónadab var útsmoginn maður. 4 Hann spurði Amnon: „Hvers vegna ertu alltaf svona niðurdreginn, þú sem ert sonur konungs? Segðu mér hvað er að angra þig.“ Amnon svaraði: „Ég er ástfanginn af Tamar, systur+ Absalons bróður míns.“ 5 Jónadab sagði þá við hann: „Leggstu í rúmið og láttu eins og þú sért veikur. Þegar faðir þinn kemur til að líta eftir þér skaltu segja við hann: ‚Viltu biðja Tamar systur mína að koma og gefa mér að borða. Ef hún býr til matinn* meðan ég horfi á og færir mér hann í rúmið skal ég borða.‘“
6 Amnon lagðist þá fyrir og þóttist vera veikur. Þegar konungur kom til að líta eftir honum sagði Amnon við hann: „Viltu biðja Tamar systur mína að koma og baka handa mér tvær hjartalaga kökur meðan ég horfi á og færa mér þær í rúmið.“ 7 Davíð sendi þá mann heim til Tamar með þessi skilaboð: „Farðu heim til Amnons bróður þíns og búðu til mat* handa honum.“ 8 Tamar fór þá heim til Amnons bróður síns þar sem hann lá í rúminu. Hún tók deig, hnoðaði það og gerði úr því kökur meðan hann horfði á. Þegar hún hafði bakað kökurnar 9 tók hún pönnuna og bar þær fram fyrir hann. En Amnon vildi ekki borða. „Látið alla fara út!“ sagði hann. Og allir fóru út.
10 Amnon sagði síðan við Tamar: „Komdu með matinn* inn í svefnherbergið og færðu mér hann í rúmið.“ Tamar tók þá hjartalaga kökurnar sem hún hafði bakað og fór með þær inn í svefnherbergið til Amnons bróður síns. 11 Þegar hún færði honum þær þreif hann í hana og sagði: „Komdu og leggstu með mér, systir mín.“ 12 En hún svaraði: „Nei, bróðir minn, ekki niðurlægja mig því að svona lagað gerir maður ekki í Ísrael.+ Fremdu ekki slíka svívirðu.+ 13 Hvernig gæti ég borið skömm mína? Og þú yrðir talinn með mestu óþokkum í Ísrael. Talaðu frekar við konunginn, hann mun ekki neita þér um mig.“ 14 En hann hlustaði ekki á hana heldur tók hana með valdi og nauðgaði henni. Þannig niðurlægði hann hana. 15 Eftir á fékk Amnon mikla óbeit á henni og hataði hana meira en hann hafði elskað hana. Amnon sagði við hana: „Stattu upp og farðu!“ 16 „Nei, bróðir minn,“ svaraði hún. „Ef þú sendir mig burt núna væri það verra en það sem þú hefur gert mér!“ En hann hlustaði ekki á hana.
17 Hann kallaði á piltinn sem þjónaði honum og sagði: „Komdu þessari konu burt frá mér og læstu dyrunum á eftir henni.“ 18 (Hún var í fallegum* síðkjól eins og dætur konungs voru vanar að klæðast meðan þær voru hreinar meyjar.) Þjónninn fór með hana út og læsti dyrunum á eftir henni. 19 Tamar jós þá ösku yfir höfuðið+ og reif fallega kjólinn sem hún var í. Hún lagði hendurnar á höfuðið og gekk hágrátandi burt.
20 Þá sagði Absalon+ bróðir hennar við hana: „Var Amnon bróðir þinn með þér? Segðu engum frá þessu, systir mín. Hann er bróðir þinn.+ Taktu þetta ekki nærri þér.“* Upp frá því bjó Tamar í húsi Absalons bróður síns, einangruð frá öðrum. 21 Þegar Davíð konungur frétti allt þetta varð hann mjög reiður,+ en hann vildi ekki særa tilfinningar Amnons sonar síns því að hann var frumburður hans og hann elskaði hann. 22 Absalon sagði ekki orð við Amnon, hvorki gott né illt, því að hann hataði+ Amnon fyrir að hafa niðurlægt Tamar systur sína.+
23 Tveim árum síðar lét Absalon rýja sauðfé sitt í Baal Hasór skammt frá Efraím+ og bauð öllum sonum konungs til veislu.+ 24 Absalon gekk fyrir konung og sagði: „Ég, þjónn þinn, læt nú rýja sauðfé mitt. Hvernig litist konungi á að koma með ásamt þjónum sínum?“ 25 En konungur svaraði: „Nei, sonur minn. Það verður bara íþyngjandi fyrir þig ef við komum allir.“ Þótt Absalon legði fast að honum vildi hann ekki fara með en óskaði honum samt góðs gengis.* 26 Þá sagði Absalon: „Leyfðu þá Amnon bróður mínum að fara með okkur fyrst þú kemur ekki.“+ „Af hverju ætti hann að fara með þér?“ spurði konungur. 27 En Absalon lagði fast að honum þar til konungur leyfði loks að Amnon færi með honum ásamt öllum hinum sonum konungs.
28 Absalon gaf þjónum sínum þessi fyrirmæli: „Fylgist vel með þegar Amnon verður hinn kátasti af víndrykkju. Þegar ég segi við ykkur: ‚Drepið Amnon!‘ þá skuluð þið drepa hann. Verið óhræddir því að það er ég sem skipa ykkur að gera þetta. Verið hugrakkir og sterkir.“ 29 Þjónar Absalons fóru með Amnon eins og Absalon hafði fyrirskipað. Þá spruttu allir hinir synir konungs á fætur, stigu á bak múldýrum sínum og lögðu á flótta. 30 En meðan þeir voru á leiðinni bárust Davíð þessar fréttir: „Absalon hefur drepið alla syni konungs. Enginn þeirra komst lífs af.“ 31 Þá stóð konungur upp, reif föt sín og lagðist á gólfið. Og allir þjónar hans stóðu hjá honum í rifnum fötum.
32 En Jónadab,+ sonur Símea+ bróður Davíðs, sagði: „Herra minn, ekki halda að þeir hafi drepið alla þessa ungu konungssyni. Amnon er sá eini sem er dáinn.+ Absalon stendur á bak við það. Hann hefur lagt á ráðin um þetta+ allt frá því að Amnon niðurlægði Tamar systur hans.+ 33 Herra minn og konungur, taktu ekki mark á fréttunum um að allir synir konungs séu dánir. Aðeins Amnon er dáinn.“
34 Meðan þessu fór fram hafði Absalon flúið.+ Nú leit varðmaðurinn um öxl og sá mikinn mannfjölda koma eftir veginum sem lá meðfram fjallinu. 35 Þá sagði Jónadab+ við konung: „Sjáðu, herra, þarna koma synir konungs. Ég sagði þér það.“ 36 Hann hafði varla sleppt orðinu þegar synir konungs komu inn hágrátandi. Konungur og þjónar hans grétu þá líka beisklega. 37 En Absalon flúði til Talmaí+ Ammíhúdssonar, konungs í Gesúr. Davíð syrgði son sinn lengi. 38 Absalon hafði flúið til Gesúr+ og var þar um kyrrt í þrjú ár.
39 Með tímanum sætti Davíð sig við* dauða Amnons og þráði að fara til Absalons.