Síðari Samúelsbók
14 Nú varð Jóab Serújusyni+ ljóst að konungur þráði að sjá Absalon.+ 2 Jóab sendi þá eftir viturri konu í Tekóa+ og sagði við hana: „Láttu eins og þú sért að syrgja, klæddu þig í sorgarklæði og berðu ekki á þig olíu.+ Hagaðu þér eins og kona sem hefur syrgt einhvern í langan tíma. 3 Gakktu síðan fyrir konung og segðu við hann …“ Og Jóab lagði henni orð í munn.
4 Konan frá Tekóa gekk fyrir konung, féll á grúfu og sýndi honum lotningu. „Hjálpaðu mér, konungur!“ sagði hún. 5 „Hvað er að?“ spurði konungur. Hún svaraði: „Ég er ekkja. Þegar maðurinn minn dó 6 átti ég, ambátt þín, tvo syni. Dag einn kastaðist í kekki milli þeirra úti á akri en enginn var þar til að stía þeim sundur. Annar þeirra réðst á hinn og drap hann. 7 Nú hefur öll fjölskyldan snúist gegn mér og segir: ‚Framseldu bróðurmorðingjann svo að við getum tekið hann af lífi og látið hann gjalda þess að hafa drepið bróður sinn.+ Þótt við drepum erfingjann þá verður svo að vera.‘ Þau vilja slökkva síðustu glóðina sem ég á eftir* svo að maðurinn minn láti hvorki eftir sig nafn né afkomanda* á jörðinni.“
8 Þá sagði konungur við konuna: „Farðu heim. Ég skal sjá um þetta mál.“ 9 Konan frá Tekóa svaraði: „Herra minn og konungur, sökin hvíli á mér og ætt föður míns. Konungurinn er saklaus og hásæti hans einnig.“ 10 Þá sagði konungur: „Ef einhver segir eitthvað við þig komdu þá með hann til mín. Hann mun aldrei ónáða þig aftur.“ 11 En hún sagði: „Ég bið þig, konungur, að muna eftir Jehóva Guði þínum svo að blóðhefnandinn+ valdi ekki enn meiri skaða og drepi son minn.“ Hann svaraði: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir+ mun ekki eitt einasta hár á höfði sonar þíns falla til jarðar.“ 12 Þá spurði konan: „Herra minn og konungur, má ambátt þín segja eitt í viðbót?“ „Talaðu,“ svaraði hann.
13 Konan hélt áfram: „Hvernig gastu gert þjóð Guðs þennan óleik?+ Þú sakfellir sjálfan þig með því sem þú segir, konungur, því að þú gerir ekkert í því að fá þinn eigin son aftur úr útlegð.+ 14 Við deyjum öll og verðum eins og vatn sem hellt er á jörðina og enginn getur náð upp aftur. En Guð tekur ekki líf* neins heldur leitar að ástæðu fyrir því að útlaginn þurfi ekki lengur að vera útskúfaður frá honum. 15 Ég kom til þín, herra minn og konungur, til að segja þér þetta af því að ég varð hrædd við fólkið. Ég hugsaði með mér: ‚Ég ætla að tala við konunginn. Kannski hann verði við beiðni ambáttar sinnar. 16 Ég vona að konungur hlusti og bjargi ambátt sinni úr greipum mannsins sem vill tortíma mér og einkasyni mínum og svipta okkur arfinum sem Guð gaf okkur.‘+ 17 Síðan sagði ég við sjálfa mig: ‚Orð herra míns, konungsins, munu hughreysta mig,‘ enda ert þú, herra minn og konungur, eins og engill hins sanna Guðs og getur greint gott frá illu. Jehóva Guð þinn sé með þér.“
18 Konungur sagði við konuna: „Svaraðu nú spurningu minni og leyndu mig engu.“ „Hvað viltu vita, herra minn og konungur?“ svaraði konan. 19 Þá spurði konungur: „Var það Jóab sem sendi þig hingað til að segja allt þetta?“+ Konan svaraði: „Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn og konungur, hefurðu rétt fyrir þér.* Það var Jóab þjónn þinn sem gaf mér þessi fyrirmæli og lagði ambátt þinni öll þessi orð í munn. 20 Jóab þjónn þinn gerði þetta til að þú sæir málið í öðru ljósi. En herra minn er eins vitur og engill hins sanna Guðs og veit allt sem gerist í landinu.“
21 Þá sagði konungur við Jóab: „Gott og vel, ég skal gera eins og þú vilt.+ Farðu og sæktu drenginn Absalon.“+ 22 Jóab féll þá á grúfu og laut konungi. Hann lofaði hann og sagði: „Nú veit ég, herra minn og konungur, að þú hefur velþóknun á mér því að konungur hefur orðið við beiðni þjóns síns.“ 23 Síðan lagði Jóab af stað og fór til Gesúr+ og sneri aftur til Jerúsalem með Absalon. 24 En konungur sagði: „Hann á að fara heim til sín. Hann má ekki hitta mig.“ Absalon fór því heim til sín og fékk ekki að hitta konung.
25 Í öllum Ísrael var enginn maður eins dáður fyrir útlit sitt og Absalon. Hann var lýtalaus frá hvirfli til ilja. 26 Þegar hann lét skera hár sitt – en það þurfti hann að gera á hverju ári því að það var svo þungt – vó það 200 sikla* miðað við hið konunglega steinlóð.* 27 Absalon eignaðist þrjá syni+ og eina dóttur sem hét Tamar. Hún varð mjög falleg kona.
28 Absalon bjó í Jerúsalem í heil tvö ár án þess að hitta konung.+ 29 Þá boðaði Absalon Jóab á sinn fund því að hann vildi biðja hann að fara til konungs, en Jóab neitaði að koma. Hann sendi þá aftur boð eftir honum en hann neitaði sem fyrr. 30 Að lokum sagði Absalon við þjóna sína: „Akur Jóabs er við hliðina á mínum og þar ræktar hann bygg. Farið og kveikið í honum.“ Og þjónar Absalons kveiktu í akrinum. 31 Þá fór Jóab heim til Absalons og spurði: „Hvers vegna kveiktu þjónar þínir í akrinum mínum?“ 32 Absalon svaraði: „Ég sendi eftir þér. Ég vildi að þú færir til konungs og spyrðir hann: ‚Til hvers kom ég frá Gesúr?+ Ég hefði verið betur settur þar. Leyfðu mér nú að hitta þig, konungur. Ef ég er sekur þá getur þú drepið mig.‘“
33 Jóab gekk þá fyrir konung og sagði honum þetta. Konungur sendi þá eftir Absalon og hann kom til konungs og féll á grúfu frammi fyrir honum. Og konungur kyssti Absalon.+