Önnur Mósebók
25 Jehóva sagði við Móse: 2 „Segðu Ísraelsmönnum að færa mér framlög. Safnaðu framlögum frá öllum sem langar til að leggja eitthvað fram.*+ 3 Þú átt að þiggja af þeim eftirfarandi framlög: gull,+ silfur,+ kopar,+ 4 blátt garn, purpuralita* ull, skarlatsrautt garn, fínt lín, geitarhár, 5 rauðlituð hrútskinn, selskinn, akasíuvið,+ 6 lampaolíu,+ balsam í smurningarolíu+ og í ilmreykelsi,+ 7 auk ónyxsteina og annarra steina til að festa á hökulinn+ og brjóstskjöldinn.+ 8 Þeir eiga að gera helgidóm handa mér og ég mun búa* meðal þeirra.+ 9 Þið skuluð gera tjaldbúðina og allan búnað hennar nákvæmlega eftir þeirri fyrirmynd sem ég sýni þér.+
10 Þeir eiga að gera örk* úr akasíuviði. Hún á að vera tvær og hálf alin* á lengd, ein og hálf alin á breidd og ein og hálf alin á hæð.+ 11 Leggðu hana síðan hreinu gulli+ bæði að utan og innan og gerðu kant* úr gulli hringinn í kring.+ 12 Steyptu fjóra hringi úr gulli og festu þá fyrir ofan fætur hennar fjóra, tvo á aðra hliðina og tvo á hina. 13 Og gerðu stangir úr akasíuviði og leggðu þær gulli.+ 14 Renndu stöngunum gegnum hringina báðum megin á örkinni svo að hægt sé að bera hana. 15 Stangirnar eiga að vera í hringjunum á örkinni. Það má ekki fjarlægja þær.+ 16 Þú skalt láta steintöflurnar með vitnisburðinum sem ég gef þér í örkina.+
17 Gerðu lok úr hreinu gulli, tvær og hálfa alin á lengd og eina og hálfa alin á breidd.+ 18 Gerðu tvo kerúba úr gulli. Mótaðu þá með hamri og settu þá á enda loksins.+ 19 Festu kerúbana á báða endana, hvorn á sinn enda. 20 Kerúbarnir eiga að breiða út vængina upp á við svo að þeir skyggi á lokið með vængjunum+ og þeir eiga að snúa hvor að öðrum. Andlit kerúbanna eiga að snúa að lokinu. 21 Leggðu lokið+ ofan á örkina og settu steintöflurnar með vitnisburðinum sem ég gef þér í örkina. 22 Ég mun birtast þér fyrir ofan lokið,+ milli kerúbanna tveggja sem eru á örk vitnisburðarins, og tala við þig þaðan. Þar greini ég þér frá öllum þeim fyrirmælum sem þú átt að flytja Ísraelsmönnum.
23 Þú skalt einnig gera borð+ úr akasíuviði, tvær álnir á lengd, eina alin á breidd og eina og hálfa alin á hæð.+ 24 Leggðu það hreinu gulli og gerðu kant* úr gulli hringinn í kring. 25 Settu þverhandarbreiðan* lista hringinn í kring og gullkant* á listann. 26 Gerðu fjóra hringi úr gulli og festu þá á fjögur horn borðsins þar sem fæturnir eru. 27 Hringirnir eiga að vera þétt við listann og halda stöngunum sem á að bera borðið með. 28 Gerðu stangirnar úr akasíuviði og leggðu þær gulli. Með þeim á að bera borðið.
29 Gerðu einnig föt, bikara og könnur sem tilheyra borðinu og skálar fyrir drykkjarfórnirnar. Gerðu þetta úr hreinu gulli.+ 30 Og sjáðu til þess að alltaf séu skoðunarbrauð á borðinu frammi fyrir mér.+
31 Þú skalt gera ljósastiku+ úr hreinu gulli. Mótaðu hana með hamri. Gerðu stallinn, fótinn, armana, blómbikarana, blómhnappana og blómin úr heilu stykki.+ 32 Sex armar eiga að ganga út frá hliðum ljósastikunnar, þrír öðrum megin og þrír hinum megin. 33 Á hverjum armi eiga að vera þrír bikarar í lögun eins og möndlublóm, og milli þeirra hnappar og blóm. Armarnir eiga að vera eins báðum megin. Þannig eiga allir sex armarnir sem ganga út frá fæti ljósastikunnar að vera. 34 Á fæti ljósastikunnar eiga að vera fjórir bikarar í lögun eins og möndlublóm, og milli þeirra hnappar og blóm. 35 Undir fyrstu tveim örmunum sem ganga út frá fætinum skal vera blómhnappur, undir næstu tveim örmum á að vera blómhnappur og sömuleiðis blómhnappur undir síðustu tveim örmunum. Undir öllum sex örmunum sem ganga út frá fætinum á að vera blómhnappur. 36 Mótaðu hnappana, armana og alla ljósastikuna með hamri úr heilu stykki af hreinu gulli.+ 37 Gerðu sjö lampa fyrir ljósastikuna og þegar kveikt er á lömpunum eiga þeir að lýsa upp svæðið fyrir framan hana.+ 38 Ljósaskærin* og eldpönnurnar sem fylgja henni eiga að vera úr hreinu gulli.+ 39 Ljósastikuna og þessi áhöld skal gera úr talentu* af hreinu gulli. 40 Gættu þess að gera þetta eftir þeirri fyrirmynd sem þér var sýnd á fjallinu.+