Síðara bréfið til Korintumanna
8 Nú viljum við, bræður og systur, að þið vitið hvernig Guð hefur sýnt söfnuðunum í Makedóníu+ einstaka góðvild. 2 Þeir hafa orðið fyrir miklum prófraunum og erfiðleikum en hafa sýnt einstaka gleði og örlæti þrátt fyrir sára fátækt. 3 Ég get vottað að þeir hafa gefið eins og þeir hafa tök á,+ meira að segja um efni fram.+ 4 Þeir þrábáðu okkur að eigin frumkvæði um að mega gefa gjöf og taka þátt í að veita hinum heilögu neyðaraðstoð.+ 5 Og þeir gáfu ekki bara eins og við höfðum vonað. Þeir byrjuðu á því að gefa Drottni og okkur sjálfa sig í samræmi við vilja Guðs. 6 Við hvöttum því Títus+ til að ljúka verkinu sem hann hafði komið af stað meðal ykkar og safna saman því sem þið hafið gefið svo fúslega. 7 Þið eruð auðug á allan hátt, í trú og orði, þekkingu og ákafa, og þið sýnið sama kærleika og við berum til ykkar. Verið sömuleiðis örlát þegar þið gefið til þessarar söfnunar.+
8 Ég segi þetta ekki sem skipun heldur til að vekja athygli ykkar á kappsemi annarra og láta reyna á hve einlægur kærleikur ykkar er. 9 Þið þekkið einstaka góðvild Drottins okkar Jesú Krists. Hann var ríkur en gerðist fátækur ykkar vegna+ til að þið yrðuð rík vegna fátæktar hans.
10 Ég er þeirrar skoðunar+ að það sé ykkur til góðs að sinna þessu verki því að þið byrjuðuð á því fyrir ári og sýnduð líka að þið höfðuð áhuga á því. 11 Ljúkið nú söfnuninni sem þið hófust handa við, af sama áhuga og þið höfðuð í byrjun, og gerið það eftir því sem efni leyfa. 12 Ef viljinn er fyrir hendi er Guð ánægður og metur gjöfina eftir því sem hver og einn á+ en ekki eftir því sem hann á ekki. 13 Ekki svo að skilja að ég vilji leggja byrði á ykkur en hlífa öðrum. 14 Ég vil jafna byrðina þannig að það sem þið eigið aflögu þessa stundina bæti úr skorti hinna, og það sem þeir eiga aflögu geti líka bætt úr skorti ykkar. Þá verður jöfnuður 15 eins og skrifað stendur: „Sá sem átti mikið hafði ekki of mikið og sá sem átti lítið leið ekki skort.“+
16 Við þökkum Guði fyrir að vekja í hjarta Títusar sömu umhyggju fyrir ykkur og við höfum.+ 17 Hann hefur tekið hvatninguna til sín og þar sem hann er mjög ákafur kemur hann til ykkar að eigin frumkvæði. 18 En við sendum með honum bróðurinn sem fær hrós í öllum söfnuðunum fyrir að boða fagnaðarboðskapinn. 19 Og ekki nóg með það heldur hafa söfnuðirnir líka útnefnt hann til að vera ferðafélagi okkar þegar við afhendum þessa rausnarlegu gjöf, Drottni til dýrðar og til að sýna að við erum fúsir til að aðstoða. 20 Þá er ekki hægt að finna að því hvernig við förum með þessa rausnarlegu gjöf.+ 21 Við ‚gerum allt á heiðarlegan hátt, ekki aðeins frammi fyrir Jehóva* heldur einnig í augsýn manna‘.+
22 Við sendum líka með þeim annan bróður sem við höfum margoft reynt og hefur sýnt dugnað á mörgum sviðum en nú leggur hann sig enn betur fram vegna þess mikla trausts sem hann ber til ykkar. 23 Ef einhverjar efasemdir vakna um Títus skuluð þið vita að hann er félagi minn og samstarfsmaður í ykkar þágu. Eða ef efasemdir vakna um hina bræðurna skuluð þið vita að þeir eru sendiboðar* safnaðanna, Kristi til dýrðar. 24 Látið því í ljós að þið elskið þá+ og sýnið söfnuðunum hvers vegna við erum svona stoltir af ykkur.