Daníel
6 Daríus ákvað að skipa 120 skattlandsstjóra* yfir allt ríkið.+ 2 Hann setti yfir þá þrjá háttsetta embættismenn og Daníel var einn þeirra.+ Skattlandsstjórarnir+ áttu að gera þeim grein fyrir öllu svo að konungurinn myndi ekki bíða tjón. 3 Daníel skaraði fram úr hinum embættismönnunum og skattlandsstjórunum vegna einstakra hæfileika sinna,*+ og konungurinn hafði hug á að setja hann yfir allt ríkið.
4 Embættismennirnir og skattlandsstjórarnir reyndu þá að finna eitthvert misferli í stjórnsýslu Daníels en þeim tókst ekki að finna neitt vítavert né neina spillingu sem hægt væri að saka hann um því að hann var traustsins verður og enga vanrækslu né spillingu var að finna hjá honum. 5 Mennirnir sögðu þá: „Við eigum ekki eftir að finna neitt til að saka Daníel um nema við finnum eitthvað í lögum Guðs hans til að nota gegn honum.“+
6 Þessir embættismenn og skattlandsstjórar fóru því fylktu liði inn til konungs og sögðu við hann: „Daríus konungur lifi að eilífu. 7 Allir embættismenn konungs, höfðingjar, skattlandsstjórar, ráðgjafar og landstjórar hafa komið sér saman um að gefin skuli út konungleg tilskipun og banni komið á: Hverjum sem biður til nokkurs guðs eða manns annars en þín, konungur, næstu 30 daga skal kastað í ljónagryfjuna.+ 8 Gefðu nú út þessa tilskipun, konungur, og undirritaðu hana+ svo að henni verði ekki breytt því að lög Meda og Persa má ekki fella úr gildi.“+
9 Daríus konungur undirritaði þá tilskipunina og bannið.
10 En um leið og Daníel frétti að tilskipunin hefði verið undirrituð fór hann heim til sín. Í þakherberginu hafði hann opna glugga sem sneru í átt að Jerúsalem.+ Þrisvar á dag kraup hann, bað til Guðs síns og lofaði hann eins og hann hafði verið vanur fram að þessu. 11 Nú ruddust þessir menn inn og fundu Daníel þar sem hann var að biðja og ákalla Guð sinn.
12 Síðan fóru þeir til konungs og minntu hann á konunglega bannið: „Skrifaðir þú ekki undir tilskipun um að hverjum sem biður til nokkurs guðs eða manns annars en þín, konungur, í 30 daga skuli kastað í ljónagryfjuna?“ „Jú,“ svaraði konungurinn, „og ákvörðunin stendur því að lög Meda og Persa verða ekki felld úr gildi.“+ 13 Þeir svöruðu konungi um hæl og sögðu: „Daníel, einn af útlögunum frá Júda,+ virðir þig að vettugi, konungur, og bannið sem þú undirritaðir. Hann biður þrisvar á dag.“+ 14 Þegar konungur heyrði þetta fékk það mjög á hann, og hann velti fyrir sér hvernig hann gæti bjargað Daníel. Allt til sólseturs reyndi hann hvað hann gat að koma honum til bjargar. 15 Loks fóru þessir menn fylktu liði til konungs og sögðu við hann: „Þú veist vel, konungur, að samkvæmt lögum Meda og Persa má ekki breyta neinu banni né tilskipun sem konungurinn hefur gefið út.“+
16 Konungur skipaði þá að Daníel skyldi sóttur og honum kastað í ljónagryfjuna.+ Konungur sagði við Daníel: „Guð þinn, sem þú þjónar statt og stöðugt, mun bjarga þér.“ 17 Síðan var sóttur steinn og hann settur yfir gryfjumunnann. Konungur innsiglaði hann með innsiglishring sínum og innsiglishring tignarmanna sinna svo að ekki væri hægt að breyta neinu í máli Daníels.
18 Konungurinn fór síðan heim í höll sína og fastaði alla nóttina. Hann var ekki í skapi til að láta skemmta sér* og hann gat ekki sofið. 19 Um leið og birta tók af degi fór konungur fram úr og flýtti sér að ljónagryfjunni. 20 Þegar hann nálgaðist gryfjuna hrópaði hann dapurri röddu til Daníels. Konungur spurði: „Daníel, þjónn hins lifandi Guðs, hefur Guð þinn, sem þú þjónar statt og stöðugt, getað bjargað þér frá ljónunum?“ 21 Daníel svaraði konungi samstundis: „Konungurinn lifi að eilífu. 22 Guð minn sendi engil sinn og lokaði gini ljónanna.+ Þau gerðu mér ekkert mein+ því að ég reyndist saklaus frammi fyrir honum. Ég hef heldur ekki gert neitt á hlut þinn, konungur.“
23 Konungurinn var himinlifandi og skipaði að Daníel skyldi dreginn upp úr gryfjunni. Daníel var þá hífður upp úr gryfjunni og var alveg óskaddaður því að hann hafði treyst Guði sínum.+
24 Konungurinn gaf nú skipun um að mennirnir sem höfðu ásakað* Daníel skyldu sóttir og þeim kastað í ljónagryfjuna ásamt sonum sínum og eiginkonum. Áður en þau náðu til botns í gryfjunni réðust ljónin á þau og muldu í þeim hvert bein.+
25 Síðan skrifaði Daríus konungur öllum þjóðum, þjóðflokkum og málhópum um alla jörð:+ „Ég óska ykkur friðar og farsældar! 26 Ég gef út þá tilskipun að alls staðar í ríki mínu skuli fólk óttast og virða Guð Daníels+ því að hann er hinn lifandi Guð og varir að eilífu. Ríki hans verður aldrei eytt og stjórn* hans er eilíf.+ 27 Hann bjargar+ og frelsar og gerir tákn og undur á himni og jörð+ enda bjargaði hann Daníel úr klóm ljónanna.“
28 Daníel þessi naut velgengni í stjórnartíð Daríusar+ og í stjórnartíð Kýrusar hins persneska.+