Fyrri Konungabók
14 Um þetta leyti veiktist Abía sonur Jeróbóams. 2 Þá sagði Jeróbóam við konu sína: „Dulbúðu þig svo að enginn viti að þú sért kona Jeróbóams og farðu til Síló. Ahía spámaður er þar, hann sem sagði að ég yrði konungur yfir þessu fólki.+ 3 Taktu með þér tíu brauð, kökur og hunangskrukku og farðu til hans. Hann mun segja þér hvað verður um drenginn.“
4 Kona Jeróbóams gerði eins og hann sagði. Hún lagði af stað til Síló+ og kom heim til Ahía. Ahía var orðinn gamall og hann sá ekki því að augu hans voru stirðnuð.
5 En Jehóva hafði sagt við Ahía: „Kona Jeróbóams er á leiðinni til að leita svara hjá þér um son sinn því að hann er veikur. Ég skal segja þér hverju þú átt að svara henni.* En þegar hún kemur til þín mun hún þykjast vera önnur en hún er.“
6 Þegar Ahía heyrði fótatak hennar við dyrnar sagði hann: „Komdu inn, kona Jeróbóams. Hvers vegna þykistu vera önnur en þú ert? Mér hefur verið falið að flytja þér slæmar fréttir. 7 Farðu og segðu við Jeróbóam: ‚Jehóva Guð Ísraels segir: „Ég valdi þig úr þjóðinni og gerði þig að leiðtoga yfir þjóð minni, Ísrael.+ 8 Ég hrifsaði konungsríkið af ætt Davíðs og gaf þér það.+ En þú hefur ekki verið eins og þjónn minn, Davíð, sem hélt boðorð mín og fylgdi mér af öllu hjarta og gerði það eitt sem var rétt í mínum augum.+ 9 Þú hefur verið verri en allir sem voru á undan þér. Þú gerðir þér annan guð og málmlíkneski* til þess að særa mig.+ Þú hefur snúið baki við mér.+ 10 Þess vegna ætla ég að leiða ógæfu yfir ætt Jeróbóams. Ég mun tortíma öllum karlmönnum* af ætt Jeróbóams, jafnvel hinum vesælu og veikburða í Ísrael. Ég mun sópa burt ætt Jeróbóams+ eins og sora er sópað burt þar til ekkert er eftir. 11 Hundar munu éta hvern þann af ætt Jeróbóams sem deyr í borginni og fuglar himins hvern þann sem deyr úti á víðavangi því að Jehóva hefur sagt það.“‘
12 Farðu nú heim. Þegar þú stígur fæti inn í borgina mun drengurinn deyja. 13 Allur Ísrael mun syrgja hann og jarða. Af allri ætt Jeróbóams verður hann einn lagður í gröf því að hann er sá eini í ætt Jeróbóams sem Jehóva Guð Ísraels hefur fundið eitthvað gott í. 14 Jehóva mun skipa konung yfir Ísrael sem mun afmá ætt Jeróbóams+ þegar dagurinn rennur upp, ef ekki nú þegar. 15 Jehóva mun slá Ísrael svo að hann svigni eins og reyr í vatni. Hann mun uppræta Ísraelsmenn úr þessu góða landi sem hann gaf forfeðrum þeirra+ og dreifa þeim handan við Fljótið*+ af því að þeir misbuðu Jehóva með helgistólpunum*+ sem þeir gerðu. 16 Hann mun yfirgefa Ísrael vegna þeirra synda sem Jeróbóam hefur drýgt og fengið Ísrael til að drýgja.“+
17 Þá stóð kona Jeróbóams upp, lagði af stað og kom til Tirsa. Þegar hún steig yfir þröskuld hússins dó drengurinn. 18 Hann var jarðaður og allur Ísrael syrgði hann eins og Jehóva hafði sagt fyrir milligöngu Ahía spámanns, þjóns síns.
19 Það sem er ósagt af sögu Jeróbóams, hvernig hann háði stríð+ og hvernig hann ríkti, er skráð í bókinni um sögu Ísraelskonunga. 20 Jeróbóam ríkti í 22 ár og var síðan lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum.+ Nadab sonur hans varð konungur eftir hann.+
21 Rehabeam sonur Salómons var konungur í Júda. Rehabeam var 41 árs þegar hann varð konungur og hann ríkti í 17 ár í Jerúsalem, borginni sem Jehóva hafði valið+ úr öllum ættkvíslum Ísraels til að setja nafn sitt á.+ Móðir Rehabeams hét Naama og var frá Ammón.+ 22 Júdamenn gerðu það sem var illt í augum Jehóva+ og þeir vöktu reiði hans enn meir en forfeður þeirra höfðu gert með þeim syndum sem þeir drýgðu.+ 23 Einnig þeir reistu sér fórnarhæðir, helgisúlur og helgistólpa*+ á hverjum háum hól+ og undir hverju laufmiklu tré.+ 24 Auk þess voru menn í landinu sem stunduðu musterisvændi.+ Fólkið líkti eftir viðbjóðslegu háttalagi þjóðanna sem Jehóva hafði hrakið burt undan Ísraelsmönnum.
25 Á fimmta stjórnarári Rehabeams konungs hélt Sísak+ Egyptalandskonungur í herferð gegn Jerúsalem.+ 26 Hann tók dýrgripina úr húsi Jehóva og konungshöllinni.+ Hann tók allt saman, þar á meðal alla gullskildina sem Salómon hafði gert.+ 27 Rehabeam konungur gerði koparskildi í þeirra stað og fól þá foringjum lífvarðanna* til umsjónar en þeir gættu dyra konungshallarinnar. 28 Í hvert skipti sem konungur gekk í hús Jehóva báru verðirnir skildina og skiluðu þeim síðan aftur í lífvarðaherbergið.
29 Það sem er ósagt af sögu Rehabeams og öllu sem hann gerði er skráð í bókinni um sögu Júdakonunga.+ 30 Rehabeam og Jeróbóam áttu stöðugt í stríði hvor við annan.+ 31 Rehabeam var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður hjá þeim í Davíðsborg.+ Móðir hans hét Naama og var frá Ammón.+ Abíam*+ sonur hans varð konungur eftir hann.