Síðari Kroníkubók
6 Þá sagði Salómon: „Jehóva sagðist ætla að búa í svartamyrkrinu.+ 2 Nú hef ég reist þér veglegt hús, aðsetur þar sem þú getur búið að eilífu.“+
3 Síðan sneri konungur sér við og blessaði allan söfnuð Ísraels, en allur söfnuðurinn stóð.+ 4 Hann sagði: „Lofaður sé Jehóva Guð Ísraels. Hann efndi með höndum sínum það sem hann lofaði Davíð föður mínum með munni sínum þegar hann sagði: 5 ‚Frá þeim degi sem ég leiddi þjóð mína út úr Egyptalandi hef ég ekki valið borg meðal nokkurrar af ættkvíslum Ísraels til að reisa þar hús, þar sem nafn mitt gæti búið.+ Ég hef heldur ekki valið neinn mann til að vera leiðtogi yfir þjóð minni, Ísrael. 6 En nú hef ég valið Jerúsalem+ til að nafn mitt búi þar og Davíð til að fara fyrir þjóð minni, Ísrael.‘+ 7 Davíð faðir minn óskaði þess af öllu hjarta að reisa hús til heiðurs nafni Jehóva Guðs Ísraels.+ 8 En Jehóva sagði við Davíð föður minn: ‚Þú óskaðir þess af öllu hjarta að reisa hús nafni mínu til heiðurs og þú átt hrós skilið fyrir það. 9 En þú átt ekki að byggja þetta hús heldur sonur þinn sem þú munt eignast.* Hann er sá sem á að reisa hús nafni mínu til heiðurs.‘+ 10 Jehóva hefur staðið við loforð sitt því að ég hef tekið við af Davíð föður mínum og sit nú í hásæti Ísraels+ eins og Jehóva lofaði.+ Ég hef einnig reist hús til heiðurs nafni Jehóva Guðs Ísraels 11 og þar hef ég komið örkinni fyrir. Í henni er sáttmálinn+ sem Jehóva gerði við Ísraelsmenn.“
12 Salómon tók sér nú stöðu fyrir framan altari Jehóva í viðurvist alls safnaðar Ísraels og lyfti höndum.+ 13 (Salómon hafði reist pall úr kopar og sett hann í miðjan forgarðinn.+ Hann var fimm álnir* á lengd, fimm álnir á breidd og þrjár álnir á hæð. Hann stóð á honum.) Hann lagðist á hnén í viðurvist alls safnaðar Ísraels, lyfti höndum til himins+ 14 og sagði: „Jehóva Guð Ísraels, enginn guð er eins og þú, hvorki á himni né á jörð. Þú heldur sáttmála þinn og sýnir þjónum þínum tryggan kærleika, þeim sem ganga frammi fyrir þér af öllu hjarta.+ 15 Þú hefur staðið við loforðið sem þú gafst þjóni þínum, Davíð föður mínum.+ Það sem þú lofaðir með munni þínum hefur þú í dag efnt með hendi þinni.+ 16 Jehóva Guð Ísraels, efndu nú líka loforðið sem þú gafst þjóni þínum, Davíð föður mínum, þegar þú sagðir: ‚Einn af afkomendum þínum mun alltaf sitja frammi fyrir mér í hásæti Ísraels svo framarlega sem synir þínir gæta að hegðun sinni og lifa eftir lögum mínum+ eins og þú hefur gert.‘+ 17 Jehóva Guð Ísraels, stattu nú við loforðið sem þú gafst Davíð þjóni þínum.
18 En getur Guð búið hjá mönnunum á jörðinni?+ Himinninn og himnanna himnar rúma þig ekki einu sinni,+ hvað þá þetta hús sem ég hef byggt.+ 19 Hlustaðu nú á bæn þjóns þíns og sýndu mér velvild, Jehóva Guð minn. Heyrðu ákall mitt um hjálp og bænina sem þjónn þinn ber fram fyrir þig. 20 Megi augu þín vaka yfir þessu húsi dag og nótt, yfir staðnum sem þú sagðist ætla að velja handa nafni þínu,+ svo að þú heyrir bænina sem þjónn þinn biður meðan hann snýr sér í átt að þessum stað. 21 Og hlustaðu á áköll þjóns þíns um hjálp og áköll þjóðar þinnar, Ísraels, þegar hún snýr í átt að þessum stað.+ Hlustaðu á himnum þar sem þú býrð,+ já, viltu hlusta og fyrirgefa.+
22 Ef einhver er sakaður um að hafa brotið gegn náunga sínum og er látinn sverja eið að sakleysi sínu* og hann gengur fram fyrir altari þitt í þessu húsi meðan hann er eiðbundinn*+ 23 leggðu þá við hlustir á himnum, láttu til þín taka og dæmdu í máli þjóna þinna. Refsaðu hinum brotlega og láttu verk hans koma honum sjálfum í koll+ en sýknaðu hinn réttláta og launaðu honum eftir réttlæti hans.+
24 Ef þjóð þín, Ísrael, bíður ósigur fyrir óvini af því að hún hefur syndgað ítrekað gegn þér+ og snýr síðan aftur, lofar nafn þitt+ og biður+ og sárbænir þig um blessun í þessu húsi+ 25 leggðu þá við hlustir á himnum.+ Fyrirgefðu synd þjóðar þinnar, Ísraels, og leiddu hana aftur til landsins sem þú gafst henni og forfeðrum hennar.+
26 Ef himinninn lokast og ekki rignir+ af því að Ísraelsmenn syndguðu ítrekað gegn þér+ og þeir biðja og snúa sér í átt að þessum stað, lofa nafn þitt og snúa baki við synd sinni af því að þú auðmýktir þá+ 27 leggðu þá við hlustir á himnum og fyrirgefðu synd Ísraels, þjóna þinna og þjóðar. Fræddu þá um hinn góða veg sem þeir eiga að ganga+ og láttu rigna+ á landið sem þú gafst þjóð þinni í arf.
28 Ef hungursneyð verður í landinu,+ drepsótt brýst út,+ gróður sviðnar eða mjölsveppur+ og gráðugar engisprettur+ herja á landið, ef óvinir setjast um einhverja af borgum landsins+ eða önnur plága eða sjúkdómur ríður yfir+ 29 og ef einhver lyftir höndum í átt að þessu húsi,+ ákallar þig+ og biður um velvild,+ hvort sem það er einstaklingur eða öll þjóð þín, Ísrael, (því að hver og einn þekkir kvöl sína og þjáningu)+ 30 leggðu þá við hlustir á himnum þar sem þú býrð+ og fyrirgefðu þeim.+ Launaðu hverjum og einum eftir verkum hans því að þú þekkir hjartalag hans. (Þú einn gerþekkir hjörtu manna.)+ 31 Þá munu þeir óttast þig og ganga á vegum þínum eins lengi og þeir lifa í landinu sem þú gafst forfeðrum okkar.
32 Og þegar útlendingur sem er ekki af þjóð þinni, Ísrael, kemur frá fjarlægu landi vegna þíns mikla nafns,*+ máttugrar handar og útrétts arms, þegar hann kemur, snýr sér í átt að þessu húsi og biður,+ 33 leggðu þá við hlustir á himnum þar sem þú býrð og gerðu allt sem útlendingurinn biður þig um. Þá munu allar þjóðir jarðar þekkja nafn þitt+ og óttast þig eins og þjóð þín, Ísrael. Þær munu þá vita að þetta hús sem ég hef byggt er kennt við nafn þitt.
34 Ef þjóð þín heldur í stríð gegn óvinum sínum og fer þangað sem þú sendir hana+ og hún biður+ til þín og snýr sér í átt að þessari borg sem þú hefur valið og í átt að húsinu sem ég hef reist nafni þínu til heiðurs+ 35 heyrðu þá á himnum ákall hennar og bæn um velvild og komdu henni til hjálpar.+
36 Ef þjóð þín syndgar gegn þér (því að enginn maður er til sem syndgar ekki)+ og þú reiðist henni og gefur hana á vald óvinum hennar sem taka hana til fanga og flytja til einhvers lands, fjær eða nær,+ 37 og hún sér að sér í landinu sem hún var flutt til, snýr sér til þín og grátbiður um miskunn þar sem henni er haldið fanginni og segir: ‚Við höfum syndgað og brotið af okkur, við höfum gert það sem er illt,‘+ 38 og hún snýr sér til þín af öllu hjarta+ og allri sál* í útlegðarlandinu+ þar sem henni er haldið nauðugri, og hún biður og snýr sér í átt að landinu sem þú gafst forfeðrum hennar og borginni sem þú valdir+ og húsinu sem ég reisti nafni þínu til heiðurs, 39 leggðu þá við hlustir á himnum þar sem þú býrð, heyrðu ákall hennar og bæn um velvild og komdu henni til hjálpar.+ Fyrirgefðu þjóð þinni sem hefur syndgað gegn þér.
40 Guð minn, augu þín veri opin og eyru þín hlusti með athygli á bænina sem borin er fram á* þessum stað.+ 41 Jehóva Guð, farðu nú á dvalarstað þinn,+ þú og örk máttar þíns. Prestar þínir, Jehóva Guð, klæðist hjálpræði og þínir trúföstu gleðjist yfir góðvild þinni.+ 42 Jehóva Guð, vísaðu ekki þínum smurða á bug.+ Mundu eftir þeim trygga kærleika sem þú sýndir Davíð þjóni þínum.“+