Lúkas segir frá
16 Hann sagði nú við lærisveinana: „Ríkur maður var með ráðsmann* sem var sakaður um að sóa eigum hans. 2 Hann kallaði hann því til sín og sagði: ‚Hvað er þetta sem ég heyri um þig? Gerðu grein fyrir ráðsmennsku þinni því að þú getur ekki verið bústjóri lengur.‘ 3 Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ‚Hvað á ég að gera fyrst húsbóndi minn ætlar að svipta mig ráðsmennskunni? Ég er ekki nógu sterkur til að grafa og mér finnst skammarlegt að betla. 4 Nú veit ég hvað ég geri til að fólk taki við mér á heimili sín þegar ég verð settur af sem ráðsmaður.‘ 5 Hann kallaði til sín skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn, og spurði þann fyrsta: ‚Hve mikið skuldarðu húsbónda mínum?‘ 6 Maðurinn svaraði: ‚Hundrað mæla* ólívuolíu.‘ Hann sagði þá: ‚Taktu skuldabréfið, sestu niður og skrifaðu sem fljótast 50.‘ 7 Því næst sagði hann við annan: ‚En þú, hvað skuldarðu mikið?‘ Maðurinn svaraði: ‚Hundrað stóra mæla* hveitis.‘ Hann sagði þá: ‚Taktu skuldabréfið og skrifaðu 80.‘ 8 Húsbóndinn hrósaði ráðsmanninum, þótt ranglátur væri, fyrir útsjónarsemina.* Já, fólk þessa heims* er snjallara í samskiptum við sína kynslóð en þeir sem eru í ljósinu.*+
9 Ég segi ykkur enn fremur: Notið hin ranglátu auðæfi* til að eignast vini+ svo að þeir taki við ykkur í hina eilífu bústaði þegar þau þrjóta.+ 10 Sá sem er trúr í því smæsta er einnig trúr í miklu og sá sem er ranglátur í því smæsta er einnig ranglátur í miklu. 11 Ef þið hafið ekki farið með hin ranglátu auðæfi af trúmennsku, hver trúir ykkur þá fyrir sönnum verðmætum? 12 Og ef þið hafið ekki farið með eigur annarra af trúmennsku, hver gefur ykkur þá það sem ykkur er ætlað?+ 13 Enginn þjónn getur þjónað tveim herrum því að annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða er trúr öðrum og fyrirlítur hinn. Þið getið ekki verið þjónar Guðs og auðsins.“+
14 Farísearnir, sem voru fégjarnir, heyrðu allt þetta og fóru að hæðast að honum.+ 15 Hann sagði því við þá: „Þið reynið að telja fólki trú um að þið séuð réttlátir+ en Guð þekkir hjörtu ykkar.+ Það sem menn hafa í hávegum er viðurstyggilegt í augum Guðs.+
16 Lögin og spámennirnir ná fram til Jóhannesar. Þaðan í frá er fagnaðarboðskapurinn um ríki Guðs boðaður og alls konar fólk leggur hart að sér til að komast þar inn.+ 17 Já, það er líklegra að himinn og jörð líði undir lok en að einn stafkrókur laganna rætist ekki.+
18 Hver sem skilur við konu sína og giftist annarri fremur hjúskaparbrot og hver sem giftist fráskilinni konu fremur hjúskaparbrot.+
19 Nú var ríkur maður sem klæddist purpura og fínu líni og lifði í munaði og vellystingum alla daga. 20 En betlari, sem hét Lasarus og var þakinn sárum, var að jafnaði færður að hliðinu við hús hans. 21 Hann þráði að seðja sig á því sem féll af borði ríka mannsins. Hundar komu jafnvel og sleiktu sár hans. 22 Nú dó betlarinn og englar báru hann í faðm Abrahams.
Ríki maðurinn dó einnig og var grafinn. 23 Í gröfinni,* þar sem hann kvaldist, leit hann upp og sá Abraham í fjarska og Lasarus við hlið hans.* 24 Þá kallaði hann: ‚Abraham faðir minn, miskunnaðu mér og sendu Lasarus til að dýfa fingurgómi sínum í vatn og kæla tungu mína því að ég kvelst í þessum logandi eldi.‘ 25 En Abraham svaraði: ‚Barnið mitt, mundu að þú naust mikilla gæða meðan þú lifðir en Lasarus bjó hins vegar við bág kjör. Nú fær hann huggun hér en þú ert kvalinn. 26 Auk þess er mikil gjá milli okkar og ykkar þannig að þeir sem vilja fara héðan yfir til ykkar geta það ekki og fólk kemst ekki heldur þaðan sem þið eruð yfir til okkar.‘ 27 Þá sagði hann: ‚Fyrst svo er bið ég þig, faðir, að senda hann í hús föður míns 28 því að ég á fimm bræður. Þá getur hann varað þá við svo að þeir lendi ekki líka á þessum kvalastað.‘ 29 En Abraham svaraði: ‚Þeir hafa Móse og spámennina. Þeir geta hlustað á þá.‘+ 30 Hann sagði þá: ‚Nei, Abraham faðir minn, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dánu myndu þeir iðrast.‘ 31 En Abraham svaraði: ‚Ef þeir hlusta ekki á Móse+ og spámennina láta þeir ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum.‘“