Bréfið til Títusar
2 En þú skalt tala um það sem samræmist hinni heilnæmu* kenningu.+ 2 Rosknir menn eiga að vera hófsamir, ábyrgðarfullir, skynsamir og heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu. 3 Rosknar konur eiga sömuleiðis að sýna með hegðun sinni að þær virða Guð, þær ættu ekki að fara með róg og ekki vera drykkfelldar. Þær eiga að kenna það sem er gott 4 og leiðbeina* yngri konum svo að þær elski menn sína og börn, 5 séu skynsamar, hreinlífar, annist heimilið, séu góðar og undirgefnar eiginmönnum sínum.+ Þá verður ekki talað niðrandi um orð Guðs.
6 Hvettu líka ungu mennina til að vera skynsamir+ 7 og vertu á allan hátt til fyrirmyndar með góðum verkum þínum. Kenndu í einlægni það sem er hreint*+ 8 með uppbyggilegum* orðum sem ekki er hægt að gagnrýna,+ svo að andstæðingar okkar skammist sín og hafi ekkert neikvætt* um okkur að segja.+ 9 Þrælar eiga að vera undirgefnir eigendum sínum í öllu,+ reyna að þóknast þeim, ekki svara þeim dónalega 10 og ekki stela frá þeim+ heldur vera algerlega áreiðanlegir svo að þeir verði kenningu Guðs, frelsara okkar, til lofs á allan hátt.+
11 Einstök góðvild Guðs hefur opinberast og hún leiðir til þess að alls konar fólk bjargast.+ 12 Hún kennir okkur að hafna óguðlegri hegðun og veraldlegum girndum+ og vera skynsöm, réttlát og guðrækin í núverandi heimi.*+ 13 Þannig eigum við að lifa meðan við bíðum eftir að okkar dásamlega von rætist+ og að hinn mikli Guð og Jesús Kristur, frelsari okkar, birti dýrð sína. 14 Kristur gaf sjálfan sig fyrir okkur+ til að frelsa okkur*+ frá hvers kyns vondum verkum* og hreinsa okkur svo að við yrðum hans eigin eign og ynnum góð verk af brennandi áhuga.+
15 Haltu áfram að kenna allt þetta, hvetja* og áminna með því umboði sem þú hefur fengið.+ Láttu engan líta niður á þig.