Láttu hina heilnæmu kenningu einkenna líferni þitt
„Guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:8.
1, 2. Í hve miklum mæli sinnir fólk heilsu sinni og með hvaða árangri?
FLESTIR myndu fúslega samþykkja að góð heilsa sé eitt það dýrmætasta sem við getum átt. Þeir verja verulegum tíma og fjármunum til að halda sér í góðri þjálfun og ástandi líkamlega og tryggja að þeir fái rétta læknishjálp þegar þeir þurfa á henni að halda. Í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið, var kostnaðurinn við heilbrigðisþjónustuna yfir eitt nýliðið ár meira en 900 milljarðar dollara. Það jafngildir ríflega 3000 dollurum árlega á hvern karlmann, konu og barn þar í landi, og kostnaðurinn á hvern mann hjá öðrum iðnvæddum þjóðum er af svipaðri stærðargráðu.
2 Hvað hefur öll þessi eyðsla á tíma, kröftum og fjármunum gefið í aðra hönd? Vissulega mun enginn neita því að á heildina litið höfum við miklu fullkomnari heilsugæslu og sjúkrastofnanir en nokkurn tíma fyrr í sögunni. En þó er ekki þar með sagt að fólk lifi heilsusamlegu lífi. Í ræðu, sem forseti Bandaríkjanna flutti til að greina frá aðalatriðum fyrirhugaðrar áætlunar í heilbrigðismálum þar í landi, benti hann á að auk „hins óheyrilega kostnaðar af ofbeldi í þessu landi“ eru „hlutfallslega fleiri alnæmissjúklingar, reykingamenn og ofdrykkjumenn, ófrískar unglingsstúlkur og fæðingar barna undir eðlilegri þyngd“ í Bandaríkjunum en í nokkru öðru iðnvæddu ríki. Hver var niðurstaða hans? „Við verðum að breyta lifnaðarháttum okkar ef við í raun og veru ætlum okkur einhvern tíma að vera heilsuhraust þjóð.“ — Galatabréfið 6:6, 7.
Heilnæmt líferni
3. Hvaða ráðleggingar gaf Páll í ljósi menningarinnar í Grikklandi til forna?
3 Á fyrstu öldinni voru Grikkir þekktir fyrir dálæti sitt á líkams- og vaxtarrækt og íþróttakappleikjum. Það var við þessar aðstæður sem Páll postuli fékk innblástur til að skrifa hinum unga manni Tímóteusi: „Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:8) Páll var þannig að benda á það sem nútímamenn eru farnir að viðurkenna, nefnilega að aðstaða til og ástundun lækninga og líkamsþjálfunar er engin trygging fyrir virkilega heilnæmu líferni. Páll fullvissar okkur þó um að það sé lífsnauðsynlegt að leggja rækt við andlega vellíðan og guðhræðslu.
4. Hvernig er guðhræðsla nytsamleg?
4 Slík stefna er nytsamleg fyrir „þetta líf“ af því að hún veitir vernd gegn öllu því skaðlega sem óguðlegir menn, eða þeir sem hafa aðeins á sér „yfirskin guðhræðslunnar,“ leiða yfir sjálfa sig. (2. Tímóteusarbréf 3:5; Orðskviðirnir 23:29, 30; Lúkas 15:11-16; 1. Korintubréf 6:18; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Þeir sem leyfa guðhræðslunni að móta líf sitt bera heilbrigða virðingu fyrir lögum og kröfum Guðs og það fær þá til að láta hina heilnæmu kenningu Guðs einkenna líferni sitt. Slík lífsstefna færir þeim andlega og líkamlega heilsu, ánægju og hamingju. Og „með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:19.
5. Hvaða leiðbeiningar veitti Páll í öðrum kafla bréfs síns til Títusar?
5 Þar eð líf, sem tekur mið af hinni heilnæmu kenningu Guðs, færir slíka blessun núna og í framtíðinni þurfum við að vita hvernig við getum á raunhæfan hátt látið hina heilnæmu kenningu Guðs einkenna líferni okkar. Páll postuli kemur með svarið í bréfi sínu til Títusar. Við munum gefa öðrum kafla bréfsins sérstakan gaum þar sem hann gefur Títusi þau fyrirmæli að ‚halda áfram að tala það sem sæmir hinni heilnæmu kenningu.‘ Vissulega getum við öll, ung sem gömul, karlar sem konur, haft gagn af slíkri ‚heilnæmri kenningu‘ nú á tímum. — Títusarbréfið 1:4, 5; 2:1.
Ráð til aldraðra manna
6. Hvaða ráð gaf Páll ‚öldruðum mönnum‘ og hvers vegna var það góðmennska hjá honum að gera það?
6 Páll byrjaði með að gefa öldruðum mönnum í söfnuðinum nokkur ráð. Lestu Títusarbréfið 2:2. „Aldraðir menn“ eru sem hópur heiðraðir og litið upp til þeirra sem fyrirmynda um trú og hollustu. (3. Mósebók 19:32; Orðskviðirnir 16:31) Af þeim sökum kunna aðrir að veigra sér við að gefa öldruðum mönnum ráð eða tillögur nema um sé að ræða mjög alvarlegt mál. (Jobsbók 32:6, 7; 1. Tímóteusarbréf 5:1) Þess vegna var það gæskuríkt af Páli að ávarpa öldruðu mennina fyrst og það væri gott fyrir þá að taka orð Páls til sín og gæta þess að þeir, eins og Páll, séu verðugir til eftirbreytni. — 1. Korintubréf 11:1; Filippíbréfið 3:17.
7, 8. (a) Hvað felur það í sér að vera ‚hófsamur í venjum‘? (b) Hvers vegna verður að vega upp á móti ‚alvörunni‘ með því að vera „heilbrigður í hugsun“?
7 Aldraðir, kristnir menn eiga fyrst og fremst að vera „bindindissamir [„hófsamir í venjum,“ NW],“ Þó að gríska orðið, sem hér er notað, geti vísað til drykkjuvenja („algáður“ Kingdom Interlinear) hefur það einnig þá merkingu að vera árvakur, skýr í hugsun, með skilningarvitin í lagi. (2. Tímóteusarbréf 4:5; 1. Pétursbréf 1:13) Hvort sem um er að ræða drykkju eða eitthvað annað verða aldraðir menn því að vera hófsamir, ekki gefnir fyrir óhóf eða öfgar.
8 Þá eiga þeir einnig að vera „heiðvirðir [„alvarlegir,“ NW]“ og „hóglátir [„heilbrigðir í hugsun,“ NW].“ Að vera alvarlegur eða tignarlegur, virðulegur og virðingarverður kemur vanalega með aldrinum. Sumum hættir þó til að vera of alvarlegir og fara að eiga erfitt með að umbera þróttmikið háttalag æskunnar. (Orðskviðirnir 20:29) Þess vegna þurfa þeir líka að vera „heilbrigðir í hugsun“ sem vegur upp á móti ‚alvörunni.‘ Öldruðu mennirnir þurfa að sýna alvöru sem samræmist aldri þeirra en sýna þó ávallt stillingu og hafa fullt vald á tilfinningum sínum og tilhneigingum.
9. Hvers vegna verða aldraðir menn að vera heilbrigðir í trúnni og kærleikanum og sér í lagi í þolgæðinu?
9 Að lokum er öldruðum mönnum ráðlagt að vera „heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu.“ Páll talar margsinnis í ritum sínum um trú og kærleika ásamt von. (1. Korintubréf 13:13; 1. Þessaloníkubréf 1:3; 5:8) Hér setur hann „þolgæði“ í stað „vonar.“ Ef til vill er það vegna þess að þegar aldurinn færist yfir menn getur sú tilfinning auðveldlega laumast að þeim að ekkert þýði um hlutina að fást. (Prédikarinn 12:1) En, eins og Jesús benti á, er það „sá sem staðfastur er allt til enda, [sem] mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Þar að auki eru hinir öldruðu verðugar fyrirmyndir hinna, ekki einungis vegna aldurs og reynslu heldur vegna traustra, andlegra eiginleika sinna — trúar, kærleika og þolgæðis.
Ráð til aldraðra kvenna
10. Hvaða ráð veitir Páll ‚öldruðum konum‘ í söfnuðinum?
10 Páll snýr athygli sinni næst að öldruðu konunum í söfnuðinum. Lestu Títusarbréfið 2:3. „Aldraðar konur“ eru þær eldri meðal kvennanna í söfnuðinum, þar með taldar eiginkonur ‚öldruðu mannanna‘ og mæður og ömmur annarra safnaðarmanna. Sem slíkar geta þær haft veruleg áhrif, til góðs eða ills. Þess vegna hóf Páll mál sitt með „svo“ sem merkir að „aldraðar konur“ hafa líka vissar skyldukvaðir sem þær þurfa að sinna til þess að rækja til hlítar hlutverk sitt í söfnuðinum.
11. Hvað er háttalag eins og heilögum sæmir?
11 Páll segir fyrst að „aldraðar konur [eigi] að vera í háttalagi sínu eins og heilögum sæmir.“ Viðhorf manna og persónuleiki birtist út á við í „háttalagi“ þeirra, endurspeglast bæði af hegðun þeirra og útliti. (Matteus 12:34, 35) Hvert ætti þá að vera viðhorf eða persónuleiki aldraðrar, kristinnar konu? Í stuttu máli „eins og heilögum sæmir.“ Þetta er þýðing á grísku orði sem merkir „það sem hæfir persónum, athöfnum eða hlutum sem helgaðir eru Guði.“ Þetta er sannarlega viðeigandi ráð í ljósi þeirra áhrifa sem aldraðar konur hafa á aðra, sér í lagi yngri konurnar í söfnuðinum. — 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.
12. Hvaða misnotkun tungunnar ættu allir að forðast?
12 Næst er minnst á tvo neikvæða eiginleika: „Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar.“ Það er athyglisvert að þetta tvennt skuli flokkað saman. „Til forna, þegar vín var eini drykkurinn,“ segir prófessor E. F. Scott, „þá var það í litlu vínboðunum sínum sem aldraðar konur svertu mannorð nágranna sinna.“ Konur hafa yfirleitt meiri áhuga á fólki en menn gera, sem er hrósunarvert. En áhuginn getur þó farið út í það að verða slúður og jafnvel rógur, einkum þegar víndrykkja losar um málbeinið. (Orðskviðirnir 23:33) Allir sem leitast við að láta hina heilnæmu kenningu einkenna líferni sitt, bæði karlar og konur, ættu vissulega að vera á varðbergi fyrir þessari tálgryfju.
13. Á hvaða hátt geta aldraðar konur verið kennarar?
13 Aldraðar konur eru hvattar til að nota lausan tíma á uppbyggjandi hátt með því að ‚kenna gott frá sér.‘ Á öðrum stað gaf Páll skýr fyrirmæli um að konur ættu ekki að vera kennarar í söfnuðinum. (1. Korintubréf 14:34; 1. Tímóteusarbréf 2:12) Það hindrar þær hins vegar ekki í að miðla dýrmætri þekkingu á Guði á heimili sínu og meðal almennings. (2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15) Þær geta einnig komið miklu góðu til leiðar með því að vera ungu konunum í söfnuðinum góðar kristnar fyrirmyndir, eins og næstu versin sýna.
Ráð til ungra kvenna
14. Hvernig getu ungar, kristnar konur sýnt jafnvægi þegar þær annnast skyldustörf sín?
14 Þegar Páll er að hvetja aldraðar konur til að ‚kenna gott frá sér‘ nefnir hann sérstaklega ungu konurnar. Lestu Títusarbréfið 2:4, 5. Þó að ráðin snúist að mestu um málefni heimilisins eiga ungar kristnar konur ekki að fara út í öfgar með því að leyfa áhyggjum af efnislegum málum að stjórna lífi sínu. Þær eiga öllu heldur að vera „hóglátar [„heilbrigðar í hugsun,“ NW], skírlífar, . . . góðlátar,“ og fyrst og fremst reiðubúnar til að styðja hið kristna fyrirkomulag um forystu „til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt.“
15. Hvers vegna eiga margar yngri konurnar í söfnuðunum hrós skilið?
15 Nú á tímum er fjölskyldulífið verulega breytt frá því sem var á dögum Páls. Margar fjölskyldur eru sundraðar hvað trúarbrögðum viðvíkur og einstæðir foreldrar eru fjölmargir. Jafnvel í svonefndum hefðbundnum fjölskyldum verður æ óalgengara að eiginkonan eða móðirin hafi heimilisstörfin sem fullt starf. Allt leggur þetta óhemju þrýsting og ábyrgð á ungar kristnar konur en það leysir þær ekki undan biblíulegum skyldum sínum. Það er þess vegna afskaplega ánægjulegt að sjá margar trúfastar ungar konur leggja hart að sér til að koma jafnvægi á hin fjölmörgu skyldustörf sín og takast samt að láta hagsmuni Guðsríkis sitja í fyrirrúmi. Sumar eru jafnvel aðstoðarbrautryðjendur eða reglulegir brautryðjendur. (Matteus 6:33) Þær eiga sannarlega hrós skilið!
Ráð til ungra manna
16. Hvaða ráðleggingar hafði Páll fyrir yngri mennina og hvers vegna eru þær tímabærar?
16 Páll kemur þá að yngri mönnunum og er Títus þar með talinn. Lestu Títusarbréfið 2:6-8. Í ljósi óábyrgs og mannskemmandi lífernis margra ungmenna nú á tímum — sem reykja, nota fíkniefni og misnota áfengi, ástunda lauslæti og hafa ánægju af ýmsu öðru sem heiminum þykir ágætt, eins og fífldjörfum íþróttum og auvirðandi tónlist og afþreyingu — eru þetta svo sannarlega tímabærar ráðleggingar til kristinna ungmenna sem vilja ástunda heilnæmt og ánægjulegt líferni.
17. Hvernig getur ungur maður náð því að vera „heilbrigður í hugsun“ og „fyrirmynd í góðum verkum“?
17 Andstætt ungmennum heimsins ætti ungur, kristinn maður að vera ‚hóglátur [„heilbrigður í hugsun,‘ NW]‘ og „fyrirmynd í góðum verkum.“ Páll útskýrir að heilbrigða og þroskaða hugsun öðlist menn ekki einfaldlega með námi heldur með því að ‚temja skilningarvitin jafnt og þétt til að greina gott frá illu.‘ (Hebreabréfið 5:14) Það er dásamlegt að sjá ungt fólk bjóða fram tíma sinn og krafta til að eiga fulla hlutdeild í hinum mörgu skyldum kristna safnaðarins, í stað þess að sóa æskuþrótti sínum í eigingjarna iðju. Með slíkri breytni getur það, eins og Títus, orðið til fyrirmyndar í „góðum verkum“ í kristna söfnuðinum. — 1. Tímóteusarbréf 4:12.
18. Hvað þýðir það að vera grandvar í fræðslu, alvarlegur, og heilnæmur í tali?
18 Yngri mennirnir eru minntir á að þeir eigi að ‚vera grandvarir í fræðslu sinni og heilhuga [‚alvarlegir‘ NW], svo að hún verði heilnæm og óaðfinnanleg.“ Fræðsla, sem er ‚grandvör,‘ verður að vera tryggilega grundvölluð á orði Guðs; yngri mennirnir verða þar af leiðandi að vera kappsamir nemendur í orði Guðs. Eins og öldruðu mennirnir verða yngri mennirnir líka að vera alvarlegir. Þeir verða að gera sér ljóst að það er alvarleg ábyrgð að færa öðrum orð Guðs og þess vegna verða þeir að ‚hegða sér eins og samboðið er fagnaðarerindinu.‘ (Filippíbréfið 1:27) Orð þeirra verða á sama hátt að vera „heilnæm“ og „óaðfinnanleg“ til þess að þeir gefi þeim sem á móti mæla enga ástæðu til að kvarta. — 2. Korintubréf 6:3; 1. Pétursbréf 2:12, 15.
Ráð til þræla og þjóna
19, 20. Hvernig geta þeir sem eru í þjónustu annarra ‚prýtt kenningu Guðs frelsara vors‘?
19 Að síðustu snýr Páll sér að þeim sem eru í þjónustu annarra. Lestu Títusarbréfið 2:9, 10. Nú á dögum eru ekki mörg okkar þrælar eða þjónar en margir eru launþegar og starfsmenn í þjónustustörfum. Frumreglurnar, sem Páll telur upp, eiga því ekki síður við nú á tímum.
20 Að vera „undirgefnir húsbændum sínum“ þýðir að kristnir launþegar verða að sýna vinnuveitendum sínum og yfirmönnum ósvikna virðingu. (Kólossubréfið 3:22) Þeir verða einnig að vera þekktir fyrir að vera heiðarlegir vinnumenn með því að skila fullu dagsverki eins og vinnuveitandi þeirra á kröfu til. Og framkoma þeirra á vinnustað verður sífellt að samræmast hinum háa mælikvarða kristninnar, hvernig svo sem aðrir þar hegða sér. Allt er þetta „til þess að þeir prýði kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum.“ Hversu oft heyrum við ekki þær ánægjulegu fréttir að einlægt fólk hafi tekið við sannleikanum vegna góðrar hegðunar vinnufélaga eða vinnuveitenda sem eru vottar. Þetta er sú umbun sem Jehóva veitir þeim sem fylgja hinni heilnæmu kenningu hans, líka á vinnustað sínum. — Efesusbréfið 6:7, 8.
Hreinsað fólk
21. Hvers vegna hefur Jehóva látið hina heilnæmu kenningu í té og hver ættu að vera viðbrögð okkar?
21 Sú heilnæma kenning, sem Páll útlistaði, er ekki aðeins eitthvert safn siðareglna eða siðferðislegra hugmynda sem við getum leitað til eftir eigin geðþótta. Páll útskýrði þvínæst hver tilgangurinn með henni væri. Lestu Títusarbréfið 2:11, 12. Jehóva Guð hefur vegna kærleika síns og óverðskuldaðrar góðvildar gagnvart okkur látið hina heilmæmu kenningu í té svo að okkur megi lærast að lifa tilgangsríku og ánægjulegu lífi á þessum örðugu og hættulegu tímum. Ert þú fús til að taka við hinni heilnæmu kenningu og láta hana einkenna líferni þitt? Það mun verða þér til hjálpræðis.
22, 23. Hvaða blessun uppskerum við með því að láta hina heilnæmu kenningu einkenna líferni okkar?
22 En það er ekki allt og sumt. Ef við látum hina heilnæmu kenningu einkenna líferni okkar færir það okkur einstök sérréttindi núna og ánægjulega framtíðarvon. Lestu Títusarbréfið 2:13, 14. Þegar við látum hina heilnæmu kenningu einkenna líferni okkar verðum við hreinsað fólk og því aðskilin frá hinum spillta og dauðvona heimi. Orð Páls eru hliðstæð áminningu Móse til Ísraelssona við Sínaí: „Og [Jehóva] . . . [mun hefja] þig yfir allar þjóðir, er hann hefir skapað, til lofs, frægðar og heiðurs, [þá er þú reynist Jehóva] Guði þínum helgaður lýður, eins og hann hefir sagt.“ — 5. Mósebók 26:18, 19.
23 Megum við alltaf meta mikils þau sérréttindi að vera hreinsað fólk Jehóva með því að láta hina heilmæmu kenningu einkenna líferni okkar. Vertu alltaf vakandi fyrir því að vísa á bug hvers konar óguðleika og veraldlegum girndum og halda þannig áfram að vera hreinsaður og hæfur til að Jehóva geti notað þig í því mikla verkefni sem hann er að láta framkvæma nú á dögum. — Kólossubréfið 1:10.
Manst þú?
◻ Hvers vegna er guðhræðslan til allra hluta nytsamleg?
◻ Hvernig geta aldraðir kristnir menn og konur látið heilnæma kenningu einkenna líferni sitt?
◻ Hvaða heilnæma kenningu hafði Páll fyrir yngri menn og konur í söfnuðinum?
◻ Hvaða sérréttindi og blessun getum við öðlast ef við látum hina heilnæmu kenningu einkenna líferni okkar?
[Myndir á blaðsíðu 25]
Margir nú á dögum fara eftir ráðleggingunum í Títusarbréfinu 2:2-4