Harmljóðin
א [alef]
2 Í reiði sinni hefur Jehóva hulið dótturina Síon dimmu skýi.
Fegurð Ísraels hefur hann kastað niður frá himni til jarðar.+
Hann minntist ekki fótskemils síns+ á reiðidegi sínum.
ב [bet]
2 Jehóva hefur vægðarlaust eytt öllum heimkynnum Jakobs.
Í heift sinni reif hann niður virki Júdadóttur.+
Hann steypti höfðingjum hennar og ríkinu til jarðar og vanhelgaði það.+
ג [gimel]
3 Í brennandi reiði sinni svipti hann Ísrael öllum mætti.*
Hann dró að sér hægri höndina þegar óvinurinn nálgaðist+
og í Jakobi brann hann eins og eldur sem gleypir allt í kringum sig.+
ד [dalet]
4 Hann spennti bogann eins og óvinur, lyfti hægri hendi gegn okkur eins og andstæðingur.+
Hann drap alla sem voru augunum yndi+
og úthellti heift sinni eins og eldi+ í tjald dótturinnar Síonar.+
ה [he]
5 Jehóva er orðinn eins og óvinur,+
hann eyddi Ísrael.
Hann reif niður alla turna hennar,
lagði öll virkin í rúst
og Júdadóttur olli hann óheyrilegri sorg og harmi.
ו [vá]
6 Hann fer grimmilega með skála sinn,+ eins og kofa í garði.
Hann hefur bundið enda á hátíðina.+
Jehóva hefur látið hátíðir og hvíldardaga falla í gleymsku í Síon
og í heiftarreiði sinni virðir hann konung og prest einskis.+
ז [zajin]
7 Jehóva hefur hafnað altari sínu,
snúið baki við helgidómi sínum.+
Hann seldi víggirta turna hennar í hendur óvinanna.+
Þeir hrópuðu hátt í húsi Jehóva+ eins og á hátíðardegi.
ח [het]
8 Jehóva var ákveðinn í að rífa niður múr dótturinnar Síonar.+
Hann strekkti mælisnúruna,+
veigraði sér ekki við að valda eyðileggingu.
Hann lætur varnargarð og múr syrgja
og báðir hafa örmagnast.
ט [tet]
9 Hlið hennar eru sokkin í jörðina.+
Hann eyðilagði og braut slagbranda hennar.
Konungur hennar og höfðingjar eru meðal þjóðanna.+
Lögin eru* á bak og burt og spámenn hennar fá engar sýnir frá Jehóva.+
י [jód]
10 Öldungar dótturinnar Síonar sitja hljóðir á jörðinni.+
Þeir kasta mold á höfuðið og klæðast hærusekk.+
Meyjar Jerúsalem láta höfuðið hníga til jarðar.
כ [kaf]
11 Augu mín eru örmagna af gráti.+
Það ólgar innra með mér.*
Lifrinni er úthellt á jörðina vegna þess að dóttirin,* þjóð mín, er fallin,+
vegna þess að börn og ungbörn hníga niður á torgum borgarinnar.+
ל [lamed]
12 Þau þráspyrja mæður sínar: „Hvar er korn og vín?“+
og hníga niður eins og særðir menn á torgum borgarinnar.
Líf þeirra fjarar út í fangi mæðra þeirra.
מ [mem]
13 Hvaða dæmi get ég tekið?
Við hvað get ég líkt þér, dóttirin Jerúsalem?
Við hvað get ég jafnað þér til að hugga þig, meyjan, dóttirin Síon?
Hrun þitt er eins gífurlegt og víðátta hafsins.+ Hver getur læknað þig?+
נ [nún]
14 Sýnir spámanna þinna um þig voru falskar og innantómar+
og þeir afhjúpuðu ekki sekt þína til að afstýra útlegð þinni+
heldur fluttu þér falskar og villandi sýnir.+
ס [samek]
15 Allir sem eiga leið hjá klappa saman höndum til að hæðast að þér.+
Þeir blístra,*+ hrista höfuðið yfir dótturinni Jerúsalem og segja:
„Er þetta borgin sem sagt var um: ‚Hún er fullkomin að fegurð, gleði allrar jarðar‘?“+
פ [pe]
16 Allir óvinir þínir glenna upp ginið gegn þér.
Þeir blístra og gnísta tönnum og segja: „Við höfum gereytt henni!+
Þetta er dagurinn sem við höfum beðið eftir!+ Hann er kominn og við höfum séð hann!“+
ע [ajin]
17 Jehóva hefur framkvæmt það sem hann ákvað,+ hann hefur staðið við orð sín,+
það sem hann fyrirskipaði endur fyrir löngu.+
צ [tsade]
18 Hjörtu fólksins hrópa til Jehóva, þú múr dótturinnar Síonar.
Láttu tárin streyma eins og iðandi læk dag og nótt.
Leyfðu þér ekki að hvílast, auga þitt* finni enga ró.
ק [qóf]
19 Farðu á fætur! Hrópaðu um nætur þegar vökurnar hefjast.
Úthelltu hjarta þínu eins og vatni frammi fyrir Jehóva.
Lyftu höndum til hans og biddu fyrir lífi barna þinna
sem hníga niður af hungri á hverju götuhorni.+
ר [res]
20 Sjáðu, Jehóva, og líttu á fólkið sem þú hefur farið svo illa með.
Eiga konur að borða sín eigin afkvæmi, heilbrigð ungbörn sín?+
Á að drepa presta og spámenn í helgidómi Jehóva?+
ש [shin]
21 Ungir og aldnir liggja dánir á strætunum.+
Meyjar* mínar og ungir menn féllu fyrir sverði.+
Þú drapst þau á reiðidegi þínum, slátraðir vægðarlaust.+
ת [tá]
22 Þú stefndir að mér skelfingum úr öllum áttum eins og til hátíðar.+
Enginn komst undan né lifði af reiðidag Jehóva.+
Óvinur minn útrýmdi börnunum sem ég fæddi og ól upp.+