Sakaría
12 Yfirlýsing:
„Orð Jehóva um Ísrael,“ segir Jehóva,
hann sem þandi út himininn,+
hann sem lagði grundvöll jarðar+
og gaf manninum lífsandann.*
2 „Ég geri Jerúsalem að bikar* sem fær allar þjóðirnar í kring til að skjögra. Bæði Júda og Jerúsalem verða umsetin.+ 3 Þann dag geri ég Jerúsalem að þungum steini fyrir allar þjóðir. Allir sem reyna að lyfta honum meiðast illa,+ og allar þjóðir jarðar safnast saman gegn borginni.+ 4 Þann dag,“ segir Jehóva, „fæli ég alla hesta og slæ riddarana vitfirringu. Ég hef vakandi auga með Júdamönnum en slæ alla hesta þjóðanna blindu. 5 Og furstarnir* í Júda hugsa með sér: ‚Íbúar Jerúsalem eru mér styrkur því að Jehóva hersveitanna er Guð þeirra.‘+ 6 Þann dag geri ég furstana í Júda að glóðarkeri á viði og að logandi blysi innan um kornbindi.+ Þeir munu eyða öllum þjóðunum í kring, til hægri og vinstri,+ og íbúar Jerúsalem fá að búa aftur í borg sinni,* í Jerúsalem.+
7 Jehóva byrjar á því að bjarga tjöldum Júda til að ætt Davíðs og íbúar Jerúsalem skyggi ekki á fegurð* Júda. 8 Þann dag mun Jehóva halda hlífiskildi yfir íbúum Jerúsalem.+ Þann dag verður sá sem hrasar* meðal þeirra sterkur eins og Davíð og ætt Davíðs verður voldug eins og Guð, eins og engill Jehóva sem fer á undan þeim.+ 9 Og þann dag ætla ég að útrýma öllum þjóðum sem halda gegn Jerúsalem.+
10 Ég úthelli anda velvildar og bæna yfir ætt Davíðs og íbúa Jerúsalem. Þeir horfa til hans sem þeir stungu+ og syrgja hann eins og menn syrgja einkason. Þeir gráta hann sárlega eins og menn gráta frumgetinn son. 11 Þann dag verður mikil sorg í Jerúsalem, eins og menn syrgðu í Hadad Rimmon á Megiddósléttu.+ 12 Landið mun syrgja, hver ætt fyrir sig: ætt Davíðs fyrir sig og konur hennar fyrir sig, ætt Natans+ fyrir sig og konur hennar fyrir sig, 13 ætt Leví+ fyrir sig og konur hennar fyrir sig, ætt Símeíta+ fyrir sig og konur hennar fyrir sig 14 og allar hinar ættirnar, hver ætt fyrir sig og konur þeirra fyrir sig.“