Lærdómur frá Ritningunni: Sakaría 1:1-14:21
Jehóva tendrar anda þjóðar sinnar
SÍÐLA árs 538 eða snemma árs 537 f.o.t. gaf Kýrus Persakonungur út tilskipun þess efnis að Gyðingar skyldu snúa heim frá Babýlon til Jerúsalem til að ‚reisa musteri Jehóva.‘ (Esra 1:3) Árið 520 f.o.t. hafði musterið enn ekki verið endurreist. Jehóva vakti því upp spámanninn Sakaría sem vann ásamt Haggaí að því að tendra anda þjóðarinnar.
Innblásin orð Sakaría veittu trúföstum Gyðingum nýjan kraft með því að sýna þeim að Jehóva styddi þá og myndi blessa starf þeirra. Þessi biblíubók fyllir okkur líka eldmóði vegna þess að í henni er að finna spádóm um Messías, ásamt öðrum spádómum sem rætast á okkar tímum.a Við getum líka dregið dýrmæta lærdóma af henni.
Jehóva blessar þjóð sína
Jehóva lætur sér annt um þjóð sína. Eftir að Gyðingar höfðu viðurkennt að ögun Guðs á þeim væri réttmæt fær Sakaría þrjár vitranir sem sýna að Guð ber áfram umhyggju fyrir þeim. Í þeirri fyrstu sér hann hesta sem englar sitja. Einn englanna gerir sér áhyggjur af því að þjóðirnar, sem ollu ógæfu Gyðinga, eru „í ró og kyrrð.“ Í annarri sýninni ákveður Jehóva að varpa niður ‚fjórum hornum,‘ stjórnaröflum sem tvístruðu þjóð hans. Þriðja sýnin lýsir á lifandi hátt hvernig Jehóva elskar, verndar og annast Jerúsalem. — 1:1-2:17.
Enginn fær stöðvað trúfasta þjóna Guðs. Í fjórðu sýninni fær Satan, höfuðandstæðingur þjóðar Guðs, harðar ávítur. (Samanber Opinberunarbókina 12:10.) Í þeirri fimmtu vitrast Sakaría að þjóð Guðs muni gjöra vilja hans þrátt fyrir fjallháar hindranir. Hvernig? „Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn!“ — segir [Jehóva] allsherjar.“ — 3:1-4:14.
Þjónar Guðs ‚hata hið illa.‘ (Sálmur 97:10, 11) Í sjöttu sýninni lýsir Jehóva bölvun yfir þeim illvirkjum sem fram að því hefur verið óhegnt. Í sjöundu sýninni er tákn vonskunnar flutt til ‚Sínearlands,‘ heimkynna falskra babýlonskra trúarbragða. Þar er það best geymt! Vonska á ekki heima meðal þjóna Jehóva sem hata hana. Þessu næst sér Sakaría fjóra vagna sem dregnir eru af hestum — andlegar englasveitir sem falið er að vernda þjóna Guðs á jörðinni. — 5:1-6:8.
Spádómleg forsýn
Uppfylling spádómsorðs Jehóva er hrífandi og trústyrkjandi. Það eru orð að sönnu varðandi spádómlegar forsýnir Sakaría um okkar tíma! Hann á að búa til mikilfenglega kórónu úr silfri og gulli, sem Gyðingar í útlegðinni hafa gefið, til handa Jósúa æðsta presti. Enn fremur munu „þeir sem búa í fjarlægð [í Babýlon], . . . koma til að byggja musteri [Jehóva],“ líkt og margir yfirgáfu Babýlon hina miklu til að aðstoða við musterisstarfið eftir 1919. Leiðrétting á föstuaðferðum leiddi til lýsingar á hinu gleðiríka ástandi er ríkja myndi í Jerúsalem. Þar var sagt að ‚tíu menn úr öllum þjóðum‘ myndu sameinast andlegum Gyðingum í sannri guðsdýrkun. (Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 7:4-10) „Lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem,“ segir Jehóva. Konungur hennar kemur ríðandi á asna og mun „veita þjóðunum frið með úrskurðum sínum.“ — 6:9-9:11.
Guð og hirðarnir
Umsjónarmenn bera þunga ábyrgð og ættu að þjóna af kostgæfni. Jehóva lýsir yfir reiði sinni í garð ótrúrra hirða eftir að hann hefur lofað að bjarga þjóð sinni. ‚Þrír hirðar‘ spilla hjörðinni í slíkum mæli að Guð rýfur sáttmála sinn við þjóðina. Jerúsalem mun verða að „aflraunasteini.“ Hver sá sem veitist að henni mun „hrufla sig til blóðs.“ En „ætthöfðingjar Júda“ — þeir sem hafa umsjón meðal útvalinna þjóna Guðs — verða að vera eins og „brennandi blys í kerfum,“ brennandi af einstakri kostgæfni. — 9:12-12:14.
Jehóva hatar blekkingar. Hver sá sem heldur áfram að ‚tala lygi‘ í söfnuði Guðs mun ‚lagður í gegn‘ og hafnað sem fráhvarfsmanni. „Tveir hlutir“ landsfólksins verða upprættir en þriðjungur hreinsaður í eldi. Hliðstætt þessu hefur Jehóva hafnað meirihluta þeirra sem segjast vera kristnir — þeim sem tilheyra kristna heiminum. Frá og með 1919 hefur aðeins lítill minnihluti trúfastra, smurðra kristinna manna ákallað nafn Jehóva og gengist undir hreinsun hans. — 13:1-9.
Þjónar Jehóva geta treyst á vernd hans. Þegar fjendur reyna að tortíma sönnum guðsdýrkendum mun Guð vernda þjóna sína og þurrka flokk Satans út. Táknrænn dalur myndast við það að Olíufjallið klofnar í tvennt, en þar munu hinir smurðu njóta verndar alheimsríkis Jehóva og messíasarstjórnar sonar hans. Ljós mun skína hjá trúföstum þjónum Guðs en myrkur ríkja hjá þjóðunum. Mannkynið verður að velja annaðhvort að dýrka Jehóva með þjóð hans eða hljóta eilífa eyðingu. — 14:1-21.
[Neðanmáls]
a Í bókinni Paradise Restored to Mankind — By Theocracy! gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., er fjallað um spádóm Sakaría vers fyrir vers.
[Rammi á blaðsíðu 19]
RITNINGARGREINAR SKOÐAÐAR
○ 1:3 — Þótt Gyðingar sneru frá Babýlon árið 537 f.o.t. voru þeir jafnframt hvattir til að snúa sér til Guðs í fullkominni hlýðni og heilshugar guðsdýrkun. Þeir áttu að sýna þetta afturhvarf í verki með því að helga sig endurbyggingu musterisins uns henni væri lokið.
○ 2:5-9 — Trúlega var ungi maðurinn að mæla Jerúsalem með það fyrir augum að reisa varnarmúr kringum hana. En engill Guðs benti á að veggur ætti ekki að hamla vexti borgarinnar. Enginn mannlegur máttur gat komið í veg fyrir að Jerúsalem héldi áfram að vaxa. Jehóva yrði vernd hennar á sama hátt og hann verndar nú á dögum hinar smurðu leifar er verða hluti af hinni himnesku nýju Jerúsalem. — Opinberunarbókin 21:2.
○ 6:11-15 — Krýning æðsta prestsins Jósúa gerði hann ekki að prestkonungi, því að hann var ekki af konungsætt Davíðs. Með henni var Jósúa gerður að spádómlegri fyrirmynd um Messías, en á honum rætist fullkomlega spádómurinn um „Kvist.“ (Sakaría 3:8; Jeremía 23:5) Jósúa hjálpaði til við að fullna endurbyggingu musterisins í Jerúsalem. Hinn himneski prestkonungur Jesús Kristur fullkomnar byggingu andlega musterisins.
○ 11:4-11 — Sauðumlíkir menn voru ‚skurðarsauðir‘ að því leyti að stjórnarhirðarnir rúðu þá inn að skinni. Sakaría hafði staf kallaðan „Hylli“ og annan kallaðan „Sameining“ og fór að líkt og hirðir sem notar hirðingjastaf til að leiða hjörðina með og annan staf til að reka burt óargadýr. (Sálmur 23:4) Hann fyrirmyndaði Jesú sem var sendur til að vera andlegur hirðir en Gyðingar höfnuðu. Þegar Sakaría braut stafinn „Hylli“ hætti Guð að veita Gyðingum hylli sína og rauf sáttmála sinn við þá. Þegar Sakaría braut staf sinn ‚Sameiningu‘ sleit Guð lagasáttmálanum við Ísrael og Gyðingar stóðu uppi án guðræðislegra einingarbanda. Trúarlegt ósamlyndi þeirra hafði hörmulegar afleiðingar og lyktaði með því að Rómverjar eyddu Jerúsalem árið 70.
○ 12:11 — „Hadad-Rimmon-harmakveinið“ getur átt við sorgina vegna dauða Jósía Júdakonungs. Hadad-Rimmon var bersýnilega staður í Megiddódalnum þar sem hann féll í orustu við Nekó faraó. Dauði Jósía var harmaður mjög, Jeremía söng um hann og söngvarar nefndu konunginn í harmljóðum. — 2. Kroníkubók 35:20-25.
[Mynd á blaðsíðu 19]
Menn af öllum þjóðum sameinast nú andlegum Ísrael eins og Sakaría sagði fyrir.