Dómarabókin
9 Þegar fram liðu stundir fór Abímelek+ sonur Jerúbbaals til móðurbræðra sinna í Síkem og sagði við þá og alla ætt afa* síns: 2 „Viljið þið spyrja leiðtogana* í Síkem: ‚Hvort er betra fyrir ykkur að allir 70 synir Jerúbbaals+ ríki yfir ykkur eða að einn maður ríki yfir ykkur? Munið að ég er hold ykkar og blóð.‘“*
3 Móðurbræður hans fluttu þá leiðtogum Síkem erindi hans og þeir töldu þá á* að fylgja Abímelek. „Hann er bróðir okkar,“ sögðu þeir. 4 Þeir gáfu Abímelek síðan 70 silfurpeninga úr musteri* Baals Berits+ og hann notaði þá til að ráða ósvífna iðjuleysingja til fylgdar við sig. 5 Því næst fór hann til húss föður síns í Ofra+ og drap bræður sína,+ syni Jerúbbaals, 70 menn, á einum steini. Sá eini sem komst undan var Jótam, yngsti sonur Jerúbbaals, því að hann faldi sig.
6 Síðan söfnuðust leiðtogarnir í Síkem og allir íbúar Bet Milló saman við stóra tréð hjá súlunni í Síkem og gerðu Abímelek að konungi.+
7 Þegar Jótam var sagt frá því fór hann þegar í stað upp á tind Garísímfjalls+ og kallaði hárri röddu: „Hlustið á mig, þið leiðtogar Síkem, þá mun Guð hlusta á ykkur.
8 Einu sinni vildu nokkur tré smyrja konung til að ríkja yfir sér. Þau sögðu þá við ólívutréð: ‚Ríktu yfir okkur.‘+ 9 En ólívutréð svaraði: ‚Á ég að fórna olíu* minni sem er notuð til að heiðra Guð og menn og fara að blakta yfir hinum trjánum?‘ 10 Þá sögðu trén við fíkjutréð: ‚Komdu og ríktu yfir okkur.‘ 11 En fíkjutréð svaraði: ‚Á ég að fórna sætu minni og góðum ávexti og fara að blakta yfir hinum trjánum?‘ 12 Þá sögðu trén við vínviðinn: ‚Komdu og ríktu yfir okkur.‘ 13 Vínviðurinn svaraði þeim: ‚Á ég að fórna nýja víninu sem gleður Guð og menn og fara að blakta yfir trjánum?‘ 14 Að lokum sögðu öll trén við þyrnirunnann: ‚Komdu og ríktu yfir okkur.‘+ 15 Þá svaraði þyrnirunninn trjánum: ‚Ef ykkur er alvara að smyrja mig til konungs yfir ykkur, komið þá og leitið skjóls í skugga mínum. En ef ekki skal eldur ganga út frá þyrnirunnanum og gleypa sedrustrén í Líbanon.‘
16 Voruð þið einlægir og heiðarlegir þegar þið gerðuð Abímelek að konungi?+ Sýnduð þið Jerúbbaal og heimili hans góðvild og komuð þið fram við hann eins og hann verðskuldar? 17 Þegar faðir minn barðist fyrir ykkur+ lagði hann líf sitt í hættu til að frelsa ykkur úr höndum Midíans.+ 18 En í dag hafið þið risið gegn fjölskyldu föður míns og drepið syni hans, 70 menn, á einum steini.+ Síðan gerðuð þið Abímelek, son ambáttar hans,+ að konungi yfir leiðtogum Síkem bara af því að hann er bróðir ykkar. 19 Já, ef þið hafið verið einlægir og heiðarlegir gagnvart Jerúbbaal og fjölskyldu hans í dag gleðjist þá yfir Abímelek og látið hann líka gleðjast yfir ykkur. 20 Ef ekki skal eldur ganga út frá Abímelek og gleypa leiðtoga Síkem og Bet Milló+ og eldur skal ganga út frá leiðtogum Síkem og Bet Milló og gleypa Abímelek.“+
21 Síðan flúði Jótam+ til Beer og bjó þar því að hann óttaðist Abímelek bróður sinn.
22 Abímelek ríkti* yfir Ísrael í þrjú ár. 23 Þá lét Guð fjandskap* koma upp milli Abímeleks og leiðtoga Síkem og þeir gerðu samsæri gegn honum. 24 Það gerðist til að hefnt yrði fyrir grimmdarverkið gegn 70 sonum Jerúbbaals svo að blóð þeirra kæmi yfir Abímelek bróður þeirra sem drap þá+ og yfir leiðtoga Síkem sem hjálpuðu honum að drepa þá. 25 Leiðtogar Síkem létu nú menn leggjast í launsátur fyrir honum uppi á fjöllum og þeir rændu alla sem áttu leið þar um. Abímelek var að lokum sagt frá því.
26 Nú komu Gaal Ebedsson og bræður hans til Síkem+ og leiðtogar Síkem fengu traust á honum. 27 Þeir gengu út í víngarða sína, tíndu vínber og tróðu þau. Síðan héldu þeir hátíð og fóru inn í hús guðs síns.+ Þeir átu og drukku og bölvuðu Abímelek. 28 Gaal Ebedsson sagði nú: „Hver er Abímelek og hver er Síkem* fyrst við eigum að þjóna þeim? Er hann ekki sonur Jerúbbaals+ og er Sebúl ekki foringi hjá honum? Þjónum frekar mönnum Hemors föður Síkems! Hvers vegna ættum við að þjóna Abímelek? 29 Ég vildi að þetta fólk væri undir minni forystu. Þá myndi ég setja Abímelek af.“ Síðan sagði hann við Abímelek: „Fjölgaðu í hernum og komdu og berstu við mig.“
30 Þegar Sebúl höfðingi borgarinnar frétti hvað Gaal Ebedsson hafði sagt varð hann ákaflega reiður. 31 Hann sendi menn með leynd* til Abímeleks og lét segja honum: „Gaal Ebedsson og bræður hans eru í Síkem og þeir eru að æsa borgarmenn upp gegn þér. 32 Leggið af stað í nótt, þú og menn þínir, og leggist í launsátur úti á víðavangi. 33 Um leið og sólin rís í fyrramálið skuluð þið fara á fætur og ráðast á borgina. Þegar hann og menn hans koma út á móti þér skaltu gera allt sem í þínu valdi stendur til að yfirbuga hann.“
34 Abímelek og menn hans lögðu af stað um nóttina og þeir skiptu sér í fjóra flokka og lögðust í launsátur við Síkem. 35 Þegar Gaal Ebedsson kom út og nam staðar við borgarhliðið spruttu Abímelek og menn hans upp úr launsátrinu. 36 Gaal kom auga á mennina og sagði við Sebúl: „Sjáðu! Þarna kemur fólk ofan af fjöllunum.“ En Sebúl svaraði: „Þetta eru bara skuggar í fjöllunum sem þér sýnist vera menn.“
37 En Gaal hélt áfram og sagði: „Sjáðu! Það kemur fólk niður af miðju hálendinu og flokkur eftir veginum hjá stóra trénu við Meónením.“ 38 Sebúl svaraði: „Þú sem varst svo góður með þig og sagðir: ‚Hver er Abímelek fyrst við eigum að þjóna honum?‘+ Eru þetta ekki mennirnir sem þú leist niður á? Farðu nú og berstu við þá.“
39 Gaal fór þá fyrir leiðtogum Síkem og barðist við Abímelek. 40 En Abímelek sótti hart að Gaal og hann flúði fyrir honum. Margir féllu og líkin lágu alla leið að borgarhliðinu.
41 Abímelek bjó áfram í Arúma en Sebúl+ hrakti Gaal og bræður hans burt frá Síkem. 42 Daginn eftir fór fólkið út fyrir borgina og Abímelek var sagt frá því. 43 Hann skipti þá mönnum sínum í þrjá flokka og þeir lögðust í launsátur úti á víðavangi. Þegar hann sá fólkið koma út úr borginni réðst hann á það og felldi það. 44 Abímelek og mennirnir sem voru með honum þustu fram og stilltu sér upp við borgarhliðið. Á meðan réðust tveir flokkar á þá sem voru úti á víðavangi og felldu þá. 45 Abímelek herjaði á borgina allan þann dag og vann hana. Hann drap fólkið sem var í henni, reif hana niður+ og stráði yfir hana salti.
46 Um leið og leiðtogarnir sem bjuggu í Síkemturni fréttu af þessu fóru þeir inn í hvelfinguna* í musteri* El Berits.+ 47 Þegar Abímelek var sagt frá því að leiðtogarnir í Síkemturni hefðu safnast saman 48 fóru hann og allir menn hans upp á Salmónfjall. Abímelek tók öxi, hjó grein af tré og lagði hana á öxlina. Hann sagði við mennina sem voru með honum: „Flýtið ykkur og gerið það sama og þið sáuð mig gera.“ 49 Allir mennirnir hjuggu þá hver sína grein og fylgdu Abímelek. Síðan lögðu þeir greinarnar að hvelfingunni og kveiktu í. Þannig dóu allir sem bjuggu í Síkemturni, um 1.000 karlar og konur.
50 Abímelek fór síðan til Tebes. Hann settist um borgina og tók hana. 51 Í miðri borginni var rammgerður turn og þangað flúðu allir borgarbúar, bæði karlar og konur og leiðtogar borgarinnar. Þau lokuðu sig inni og fóru upp á þakið á turninum. 52 Abímelek komst að turninum og gerði árás á hann. Hann færði sig að innganginum til að kveikja í. 53 Kona nokkur kastaði þá efri kvarnarsteini í höfuð Abímeleks og höfuðkúpubraut hann.+ 54 Hann kallaði strax á skjaldsvein sinn og sagði við hann: „Gríptu sverðið og dreptu mig svo að enginn geti sagt um mig: ‚Kona drap hann.‘“ Skjaldsveinninn rak hann þá í gegn og hann dó.
55 Þegar Ísraelsmenn sáu að Abímelek var fallinn sneru þeir aftur heim. 56 Þannig launaði Guð Abímelek það illa sem hann hafði gert föður sínum með því að drepa bræður sína 70.+ 57 Guð lét líka alla illsku Síkemmanna koma þeim í koll. Þannig kom bölvun Jótams+ Jerúbbaalssonar+ yfir þá.