Postulasagan
7 En æðstipresturinn spurði: „Er þetta rétt?“ 2 Stefán svaraði: „Menn, bræður og feður, hlustið á mig. Guð dýrðarinnar birtist Abraham forföður okkar meðan hann var í Mesópótamíu, áður en hann settist að í Haran,+ 3 og sagði við hann: ‚Yfirgefðu land þitt og ættingja og farðu til landsins sem ég vísa þér á.‘+ 4 Hann yfirgaf þá land Kaldea og settist að í Haran. Eftir að faðir hans dó+ lét Guð hann flytjast þaðan til þessa lands þar sem þið búið núna.+ 5 Samt gaf hann honum ekkert erfðaland hér, ekki einu sinni skika til að stíga fæti á. Hann lofaði hins vegar að gefa honum landið til eignar og afkomendum hans+ eftir hann þó að hann væri enn barnlaus. 6 Guð sagði honum enn fremur að afkomendur hans myndu búa sem útlendingar í landi sem þeir ættu ekki og að þjóðin myndi þrælka þá og þjaka* í 400 ár.+ 7 ‚Ég mun dæma þjóðina sem þrælkar þá,‘+ sagði Guð, ‚og eftir það munu þeir fara þaðan og veita mér heilaga þjónustu á þessum stað.‘+
8 Hann gerði einnig umskurðarsáttmála við Abraham.+ Síðan eignaðist Abraham Ísak+ og umskar hann á áttunda degi,+ Ísak eignaðist* Jakob og Jakob ættfeðurna 12. 9 Ættfeðurnir öfunduðu Jósef+ og seldu hann til Egyptalands.+ En Guð var með honum,+ 10 bjargaði honum úr öllum þrengingum hans og veitti honum visku og hylli faraós konungs Egyptalands. Faraó fól honum vald yfir Egyptalandi og öllu húsi sínu.+ 11 En hungursneyð varð í öllu Egyptalandi og Kanaan, já, miklar þrengingar, og forfeður okkar höfðu ekkert að borða.+ 12 Jakob frétti þá að mat* væri að fá í Egyptalandi og sendi forfeður okkar þangað í fyrra skiptið.+ 13 Í síðara skiptið sagði Jósef bræðrum sínum hver hann væri og faraó frétti af fjölskyldu hans.+ 14 Jósef gerði boð eftir Jakobi föður sínum og öllum ættingjum sínum,+ alls 75 manns.+ 15 Jakob fór þá suður til Egyptalands.+ Þar dó hann+ og forfeður okkar sömuleiðis.+ 16 Þeir voru fluttir til Síkem og lagðir í gröfina sem Abraham hafði keypt fyrir silfurpeninga af sonum Hemors í Síkem.+
17 Nú nálgaðist tíminn að loforðið sem Guð hafði gefið Abraham skyldi rætast, og fólkinu hafði fjölgað og það margfaldast í Egyptalandi. 18 Þá komst nýr konungur til valda í Egyptalandi sem þekkti ekki Jósef.+ 19 Hann beitti forfeður okkar slægð og neyddi feður til að bera út ungbörn sín og láta þau deyja.+ 20 Móse fæddist um þetta leyti og var einstaklega fríður.* Foreldrar hans önnuðust hann í þrjá mánuði á heimili sínu.+ 21 En þegar hann var borinn út*+ tók dóttir faraós hann að sér og ól hann upp sem sinn eigin son.+ 22 Móse var síðan fræddur í allri visku Egypta og varð máttugur í orðum sínum og verkum.+
23 Þegar hann var orðinn fertugur ákvað hann að kanna aðstæður* bræðra sinna, Ísraelsmanna.+ 24 Hann varð vitni að því að einum þeirra var misþyrmt og kom honum til varnar. Hann hefndi mannsins sem sætti illri meðferð og drap Egyptann. 25 Hann hélt að bræður sínir myndu skilja að Guð ætlaði að nota hann til að frelsa þá en þeir skildu það ekki. 26 Daginn eftir kom hann þar að sem tveir þeirra slógust. Hann reyndi að stilla til friðar og sagði: ‚Menn, þið eruð bræður. Hvers vegna misþyrmið þið hvor öðrum?‘ 27 En sá sem misþyrmdi náunga sínum ýtti Móse frá sér og sagði: ‚Hver skipaði þig valdhafa og dómara yfir okkur? 28 Þú ætlar þó ekki að drepa mig eins og þú drapst Egyptann í gær?‘ 29 Þegar Móse heyrði þetta flúði hann, settist að sem útlendingur í Midíanslandi og eignaðist þar tvo syni.+
30 Að 40 árum liðnum birtist honum engill í logandi þyrnirunna í óbyggðum Sínaífjalls.+ 31 Móse var furðu lostinn að sjá þetta en þegar hann gekk nær til að kanna málið heyrði hann rödd Jehóva:* 32 ‚Ég er Guð forfeðra þinna, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs.‘+ Móse skalf af ótta og þorði ekki að fara nær. 33 Jehóva* sagði við hann: ‚Farðu úr sandölunum því að staðurinn sem þú stendur á er heilög jörð. 34 Ég hef séð hvernig fólk mitt í Egyptalandi er kúgað og heyrt það stynja,+ og ég er stiginn niður til að bjarga því. Ég ætla nú að senda þig til Egyptalands.‘ 35 Þeir höfðu afneitað þessum Móse og sagt: ‚Hver skipaði þig valdhafa og dómara?‘+ En Guð sendi hann+ bæði sem valdhafa og frelsara fyrir milligöngu engilsins sem birtist honum í þyrnirunnanum. 36 Þessi maður leiddi þá út+ og gerði undur og tákn í Egyptalandi,+ við Rauðahafið+ og í óbyggðunum í 40 ár.+
37 Þessi sami Móse sagði við Ísraelsmenn: ‚Guð mun velja handa ykkur spámann eins og mig úr hópi bræðra ykkar.‘+ 38 Það var Móse sem var í söfnuðinum í óbyggðunum ásamt englinum+ sem talaði við hann+ á Sínaífjalli, og með forfeðrum okkar. Hann tók við heilögum lifandi boðskap til að færa okkur.+ 39 Forfeður okkar vildu ekki hlýða honum heldur höfnuðu honum+ og þráðu í hjörtum sínum að snúa aftur til Egyptalands.+ 40 Þeir sögðu við Aron: ‚Gerðu handa okkur guði til að fara fyrir okkur því að við vitum ekki hvað er orðið um þennan Móse sem leiddi okkur út úr Egyptalandi.‘+ 41 Þeir gerðu þá kálf, færðu skurðgoðinu fórnir og héldu veislu til að fagna handaverki sínu.+ 42 Guð sneri því baki við þeim og lét þá tilbiðja her himinsins+ eins og skrifað stendur í bók spámannanna: ‚Ekki var það mér sem þið Ísraelsmenn færðuð sláturdýr og fórnir í 40 ár í óbyggðunum. 43 Þið báruð öllu heldur tjald Móloks+ og stjörnu guðsins Refans, líkneskin sem þið gerðuð og tilbáðuð. Þess vegna flyt ég ykkur nauðuga lengra en til Babýlonar.‘+
44 Forfeður okkar höfðu vitnisburðartjaldbúðina í óbyggðunum. Guð hafði gefið Móse fyrirmæli um að gera hana eftir þeirri fyrirmynd sem hann hafði séð.+ 45 Forfeður okkar tóku við henni og fluttu hana með sér þegar þeir fóru ásamt Jósúa inn í land þjóðanna+ sem Guð rak burt undan þeim.+ Þar var hún allt fram á daga Davíðs. 46 Davíð naut velvildar Guðs og bað um að mega byggja bústað handa Guði Jakobs.+ 47 En það var Salómon sem byggði honum hús.+ 48 Hinn hæsti býr þó ekki í húsum sem menn reisa+ enda segir spámaðurinn: 49 ‚Himinninn er hásæti mitt+ og jörðin fótskemill minn.+ Hvers konar hús ætlið þið að reisa handa mér, segir Jehóva,* eða hvar er hvíldarstaður minn? 50 Skapaði ekki hönd mín allt þetta?‘+
51 Þið þrjósku menn, hjörtu ykkar eru ómóttækileg og eyrun lokuð.* Þið standið alltaf gegn heilögum anda, rétt eins og forfeður ykkar.+ 52 Hvaða spámann ofsóttu þeir ekki?+ Þeir drápu þá sem boðuðu fyrir fram komu hins réttláta+ sem þið hafið nú svikið og myrt,+ 53 þið sem fenguð lögin fyrir milligöngu engla+ en hafið ekki haldið þau.“
54 Þeir trylltust af reiði þegar þeir heyrðu þetta og gnístu tönnum gegn Stefáni. 55 En hann horfði til himins fullur af heilögum anda og sá dýrð Guðs og Jesú standa honum til hægri handar,+ 56 og hann sagði: „Ég sé himnana opna og Mannssoninn+ standa Guði til hægri handar.“+ 57 Þá æptu þeir fullum hálsi, héldu fyrir eyrun og réðust að honum sem einn maður. 58 Þeir drógu hann út fyrir borgina og fóru að grýta hann.+ Vitnin+ lögðu yfirhafnir sínar við fætur ungs manns sem hét Sál.+ 59 Þegar verið var að grýta Stefán kallaði hann: „Drottinn Jesús, taktu við anda* mínum.“ 60 Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: „Jehóva,* láttu þá ekki gjalda þessarar syndar.“+ Þegar hann hafði sagt þetta sofnaði hann dauðasvefni.