Bréfið til Rómverja
15 Við sem erum sterk eigum að bera veikleika þeirra sem eru óstyrkir í trúnni+ og hugsa ekki aðeins um eigin hag.+ 2 Við skulum öll gera það sem er náunganum til góðs og styrkir hann.+ 3 Kristur hugsaði ekki um eigin hag+ heldur fór eins og skrifað stendur: „Smánaryrði þeirra sem smánuðu þig hafa lent á mér.“+ 4 Allt sem var skrifað áður var skrifað til að við gætum lært af því+ og það veitir okkur von+ þar sem Ritningarnar hughreysta og hjálpa okkur að vera þolgóð.+ 5 Megi Guð, sem veitir þolgæði og huggun, hjálpa ykkur öllum að hafa sama hugarfar og Kristur Jesús. 6 Þá getið þið í sameiningu+ lofað Guð og föður Drottins okkar Jesú Krists einum rómi.*
7 Takið því vel á móti hvert öðru+ eins og Kristur tók á móti ykkur,+ Guði til dýrðar. 8 Ég segi ykkur að Kristur varð þjónn hinna umskornu+ til að sýna fram á að Guð er sannorður og staðfesta loforðin sem Guð gaf forfeðrum þeirra,+ 9 og til að þjóðirnar lofuðu Guð fyrir miskunn hans.+ Það er eins og skrifað stendur: „Þess vegna vegsama ég þig meðal þjóðanna og syng nafni þínu lof.“+ 10 Hann segir einnig: „Gleðjist, þið þjóðir, með fólki hans.“+ 11 Annars staðar segir: „Lofið Jehóva,* allar þjóðir, og allir þjóðflokkar vegsami hann.“+ 12 Og Jesaja segir: „Rót Ísaí+ kemur, sá sem rís upp til að stjórna þjóðum.+ Við hann munu þjóðir binda von sína.“+ 13 Megi Guð vonarinnar fylla ykkur gleði og friði þar sem þið treystið honum. Þannig styrkist þið enn meir í voninni með hjálp heilags anda.+
14 Ég er sannfærður um að þið, bræður mínir og systur, séuð full gæsku, búið yfir ríkulegri þekkingu og séuð fær um að leiðbeina* hvert öðru. 15 En í bréfi mínu hef ég verið mjög opinskár við ykkur um sumt til að minna ykkur á það. Ég hef verið það vegna þess að Guð sýndi mér þá einstöku góðvild 16 að gera mig að þjóni Krists Jesú í þágu þjóðanna.+ Ég tek þátt í því heilaga starfi að flytja fagnaðarboðskap Guðs+ til að þessar þjóðir geti verið fórn sem hann hefur velþóknun á, helguð af heilögum anda.
17 Sem fylgjandi Krists Jesú hef ég ástæðu til að fagna yfir þjónustunni sem Guð fól mér. 18 Ég leyfi mér ekki að tala um neitt annað en það sem Kristur hefur látið mig gera til að þjóðirnar hlýði honum. Hann kom því til leiðar með orðum mínum og verkum, 19 með táknum og undrum*+ og með krafti anda Guðs. Þannig hef ég getað boðað fagnaðarboðskapinn um Krist rækilega á svæðinu frá Jerúsalem allt til Illýríu.+ 20 Ég lagði mig fram um að boða ekki fagnaðarboðskapinn þar sem nafn Krists hafði þegar verið kunngert til að byggja ekki á grunni sem annar hafði lagt, 21 en skrifað stendur: „Þeir sem hafa ekki fengið að vita um hann munu sjá og þeir sem hafa ekki heyrt munu skilja.“+
22 Það er líka þess vegna sem ég hef ekki komist til ykkar þótt ég hafi oft ætlað mér það. 23 En nú á ég ekki lengur neitt ósnert svæði á þessum slóðum og ég hef þráð í mörg* ár að koma til ykkar. 24 Ég vonast því til að hitta ykkur þegar ég fer til Spánar og að þið fylgið mér áleiðis eftir að ég hef staldrað við hjá ykkur um tíma. 25 En nú ætla ég að fara til Jerúsalem til að þjóna hinum heilögu.+ 26 Bræður og systur í Makedóníu og Akkeu hafa fúslega gefið framlag í þágu fátækra meðal hinna heilögu í Jerúsalem.+ 27 Þau gerðu það með gleði og fannst þeim reyndar skylt að gera það. Fyrst þjóðirnar fengu hlutdeild í andlegum gæðum Gyðinga ber þeim skylda til að styðja þá með efnislegum eigum sínum.+ 28 Eftir að ég hef lokið þessu og komið framlaginu* örugglega til skila kem ég við hjá ykkur á leiðinni til Spánar. 29 Ég veit líka að þegar ég kem til ykkar mun ég koma með ríkulega blessun frá Kristi.
30 Nú hvet ég ykkur, bræður og systur, vegna trúarinnar á Drottin okkar Jesú Krist og kærleikans sem andinn veitir, til að biðja ákaft til Guðs með mér og fyrir mér.+ 31 Biðjið þess að mér verði bjargað+ frá hinum vantrúuðu í Júdeu og að hinir heilögu í Jerúsalem verði ánægðir með hjálpina sem ég færi þeim.+ 32 Þá get ég, ef Guð vill, komið til ykkar með gleði og endurnærst með ykkur. 33 Megi Guð, sem veitir frið, vera með ykkur öllum.+ Amen.