Daníel
8 Á þriðja stjórnarári Belsassars+ konungs birtist mér, Daníel, sýn, eftir þá sem hafði birst mér áður.+ 2 Ég sá sýnina og var þá staddur í virkisborginni* Súsa+ sem er í skattlandinu Elam.+ Þegar ég virti fyrir mér sýnina var ég staddur við Úlaífljót.* 3 Ég leit upp og sá þá hrút+ standa hjá fljótinu og hann var með tvö horn.+ Bæði hornin voru há en annað var hærra en hitt, og hærra hornið spratt upp síðar.+ 4 Ég sá hrútinn stanga í vestur, norður og suður. Ekkert villidýr gat staðist gegn honum og enginn gat frelsað nokkurn undan valdi* hans.+ Hann gerði eins og honum sýndist og var mikill með sig.
5 Ég hélt áfram að horfa og sá að geithafur+ kom úr vestri* og fór yfir alla jörðina án þess að snerta hana. Hann var með áberandi horn milli augnanna.+ 6 Hann stefndi á tvíhyrnda hrútinn sem ég hafði séð standa við fljótið. Hann hljóp að honum í heiftaræði.
7 Ég sá hann nálgast hrútinn af miklum ofsa. Hann réðst á hrútinn og braut bæði horn hans. Hrúturinn hafði engan mátt til að standa gegn honum. Geithafurinn fleygði honum til jarðar og tróð á honum og enginn gat frelsað hrútinn undan valdi* hans.
8 Geithafurinn var mjög mikill með sig en um leið og hann varð voldugur brotnaði stóra hornið. Í stað þess spruttu upp fjögur áberandi horn á móti höfuðáttunum* fjórum.+
9 Af einu þeirra spratt annað horn. Það var lítið en varð mjög stórt og óx í átt til suðurs, austurs* og landsins dýrlega.*+ 10 Það varð svo stórt að það náði alla leið til hers himinsins og olli því að hluti hersins og nokkrar af stjörnunum féllu til jarðar, og það tróð á þeim. 11 Það miklaðist jafnvel gegn höfðingja hersins. Hann var sviptur hinni daglegu fórn og helgidómurinn sem hann grundvallaði var rifinn niður.+ 12 Og her var framseldur ásamt hinni daglegu fórn vegna misgerðarinnar. Hornið fleygði sannleikanum til jarðar. Það lét til sín taka og náði árangri.
13 Nú heyrði ég heilaga veru tala og önnur heilög vera sagði við hana: „Hve lengi mun það vara sem birtist í sýninni um hina daglegu fórn og misgerðina sem veldur eyðingu+ svo að troðið er á helgidóminum og hernum?“ 14 Veran sagði við mig: „Í 2.300 kvöld og morgna. Síðan verður helgidómurinn færður í samt lag.“
15 Meðan ég, Daníel, virti fyrir mér sýnina og reyndi að skilja hana sá ég allt í einu einhvern standa fyrir framan mig sem líktist manni. 16 Síðan heyrði ég mannsrödd úr miðju Úlaífljóti*+ sem hrópaði: „Gabríel,+ útskýrðu sýnina fyrir þessum manni.“+ 17 Hann gekk þá til mín þar sem ég stóð en þegar hann kom varð ég svo hræddur að ég féll á grúfu. Hann sagði við mig: „Gerðu þér ljóst, mannssonur, að sýnin á við tíma endalokanna.“+ 18 En meðan hann var að tala við mig steinsofnaði ég þar sem ég lá á grúfu á jörðinni. Þá snerti hann mig og reisti mig aftur á fætur þar sem ég hafði staðið.+ 19 Síðan sagði hann: „Nú segi ég þér hvað gerist við lok reiðitímans því að sýnin á við tilsettan tíma endalokanna.+
20 Tvíhyrndi hrúturinn sem þú sást táknar konunga Medíu og Persíu.+ 21 Loðni geithafurinn táknar konung Grikklands+ og stóra hornið sem var milli augna hans táknar fyrsta konunginn.+ 22 Það að hornið skyldi brotna og fjögur önnur spretta í stað þess+ merkir að fjögur ríki munu rísa af þjóð hans en verða þó ekki jafn máttug og hann.
23 Undir lok ríkis þeirra, þegar hinir brotlegu hafa fyllt mælinn, kemur fram grimmdarlegur konungur sem kann skil á tvíræðu máli.* 24 Hann verður mjög voldugur en þó ekki af eigin mætti. Hann mun valda hrikalegri eyðileggingu og takast vel til í öllu sem hann gerir. Hann mun tortíma stórmennum og einnig hinum heilögu.+ 25 Lævís beitir hann blekkingum til að ná sínu fram. Hann hrokast upp í hjarta sínu og þegar allt er með kyrrum kjörum* tortímir hann mörgum. Hann rís jafnvel gegn höfðingja höfðingjanna en verður gersigraður án íhlutunar manna.
26 Það sem var sagt í sýninni um kvöldin og morgnana er satt. En þú skalt halda sýninni leyndri því að hún varðar fjarlæga framtíð.“*+
27 Ég, Daníel, var uppgefinn og veikur í marga daga.+ Síðan komst ég á fætur og sinnti verkefnum mínum fyrir konung.+ En ég var undrandi yfir því sem ég hafði séð og enginn skildi sýnina.+