Önnur Mósebók
12 Jehóva sagði nú við Móse og Aron í Egyptalandi: 2 „Þessi mánuður verður upphafsmánuður hjá ykkur. Hann verður fyrsti mánuður ársins hjá ykkur.+ 3 Segðu öllum söfnuði Ísraelsmanna: ‚Á tíunda degi þessa mánaðar á hver og einn að taka frá lamb+ handa fjölskyldu sinni, eitt lamb fyrir hvert heimili. 4 En ef fjölskyldan er of lítil fyrir heilt lamb skal hún* og næsta nágrannafjölskylda skipta með sér lambi eftir fjölda og borða það saman. Takið mið af því hve mikið af lambinu hvor fjölskylda borðar. 5 Lambið skal vera heilbrigður+ veturgamall hrútur. Í staðinn fyrir lamb má einnig velja kiðling. 6 Þið skuluð annast skepnuna fram að 14. degi þessa mánaðar+ og hver fjölskylda meðal Ísraelsmanna skal slátra henni í ljósaskiptunum.*+ 7 Ísraelsmenn skulu taka dálítið af blóðinu og sletta því á báða dyrastafina og þverbitann yfir dyrum hússins þar sem þeir borða hana.+
8 Þeir eiga að borða kjötið þessa sömu nótt.+ Þeir skulu steikja það yfir eldi og borða það með ósýrðu brauði+ og beiskum jurtum.+ 9 Borðið ekkert af því hrátt eða soðið í vatni heldur steikið skepnuna yfir eldi með haus, skönkum og innyflum. 10 Þið megið ekki geyma neitt af kjötinu til morguns en ef eitthvað er afgangs næsta morgun skuluð þið brenna það í eldi.+ 11 Þið skuluð vera með belti* um lendar, sandala á fótum og staf í hendi þegar þið borðið það. Og borðið það í flýti. Þetta eru páskar Jehóva. 12 Ég fer um Egyptaland þessa nótt og bana öllum frumburðum í landinu, bæði mönnum og skepnum,+ og ég fullnægi dómi yfir öllum guðum Egyptalands.+ Ég er Jehóva. 13 Blóðið verður merki á húsunum þar sem þið eruð. Ég mun sjá blóðið og fara fram hjá ykkur, og plágan nær ekki til ykkar til að tortíma ykkur þegar ég slæ Egyptaland.+
14 Þessi dagur verður minningardagur hjá ykkur og þið skuluð halda hann hátíðlegan til heiðurs Jehóva kynslóð eftir kynslóð. Þetta er varanlegt ákvæði sem ykkur ber að halda. 15 Þið skuluð borða ósýrt brauð í sjö daga.+ Fyrsta daginn eigið þið að fjarlægja súrdeig úr húsum ykkar því að ef einhver borðar eitthvað sýrt frá fyrsta degi til hins sjöunda skal útrýma honum úr Ísrael. 16 Fyrsta daginn skuluð þið halda heilaga samkomu og sjöunda daginn sömuleiðis. Þessa daga má ekki vinna nein verk.+ Aðeins má elda það sem hver og einn þarf til að borða.
17 Þið skuluð halda hátíð ósýrðu brauðanna+ því að einmitt á þessum degi leiði ég ykkur öll* út úr Egyptalandi. Það er varanlegt ákvæði að þið haldið þennan dag hátíðlegan kynslóð eftir kynslóð. 18 Þið skuluð borða ósýrt brauð frá kvöldi 14. dags fyrsta mánaðarins til 21. dags mánaðarins að kvöldi.+ 19 Ekkert súrdeig má fyrirfinnast í húsum ykkar í sjö daga því að ef einhver borðar eitthvað sýrt, hvort heldur útlendingur eða heimamaður í landinu,+ skal útrýma honum úr söfnuði Ísraels.+ 20 Þið megið ekki borða neitt sem er sýrt. Þið eigið að borða ósýrt brauð á öllum heimilum ykkar.‘“
21 Móse kallaði tafarlaust saman alla öldunga Ísraels+ og sagði við þá: „Farið hver og einn og veljið unga skepnu* handa fjölskyldu ykkar og slátrið páskafórninni. 22 Dýfið síðan ísópsvendi í blóðið sem þið hafið safnað í skál og slettið því á þverbitann yfir dyrunum og á báða dyrastafina. Enginn ykkar má fara út um dyrnar á húsi sínu fyrr en að morgni. 23 Þegar Jehóva síðan fer um og slær Egypta með plágu og sér blóðið á þverbitanum og báðum dyrastöfunum fer Jehóva fram hjá dyrunum og lætur ekki hina banvænu plágu* koma inn í hús ykkar.+
24 Þið eigið að halda upp á þennan atburð. Þetta er regla sem ykkur og börnum ykkar ber að fylgja til frambúðar.+ 25 Þið skuluð halda þessa hátíð þegar þið komið inn í landið sem Jehóva gefur ykkur eins og hann hefur lofað.+ 26 Og þegar börn ykkar spyrja: ‚Hvað merkir þessi hátíð?‘+ 27 skuluð þið svara: ‚Þetta er páskafórn handa Jehóva sem fór fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi þegar hann sló Egypta með plágu en hlífði heimilum okkar.‘“
Þá kraup fólkið og féll á grúfu. 28 Ísraelsmenn fóru og fylgdu fyrirmælum Jehóva sem hann hafði gefið Móse og Aroni.+ Þeir gerðu það í einu og öllu.
29 Um miðnætti banaði Jehóva öllum frumburðum í Egyptalandi,+ frá frumburði faraós sem sat í hásæti sínu til frumburðar fangans í fangelsinu,* og eins öllum frumburðum skepnanna.+ 30 Faraó fór á fætur um nóttina ásamt öllum þjónum sínum og öllum öðrum Egyptum. Mikið harmakvein varð meðal Egypta því að hvergi var hús þar sem enginn var dáinn.+ 31 Hann lét kalla á Móse og Aron+ strax um nóttina og sagði: „Farið! Farið burt frá þjóð minni, bæði þið og aðrir Ísraelsmenn. Farið og þjónið Jehóva eins og þið hafið talað um.+ 32 Takið með ykkur sauðfé ykkar, geitur og nautgripi eins og þið hafið talað um.+ En þið verðið líka að blessa mig.“
33 Egyptar fóru nú að reka á eftir fólkinu til að koma því fljótt+ út úr landinu. „Ef þið farið ekki deyjum við öll!“+ sögðu þeir. 34 Fólkið tók með sér brauðdeig sitt áður en það sýrðist. Það vafði deigtrogin* í skikkjur sínar og bar þau á öxlinni. 35 Ísraelsmenn gerðu eins og Móse hafði sagt þeim og báðu Egypta um gripi úr silfri og gulli og um fatnað.+ 36 Jehóva lét þá njóta velvildar Egypta svo að þeir gáfu þeim það sem þeir báðu um. Þannig rændu þeir Egypta.+
37 Ísraelsmenn héldu nú frá Ramses+ áleiðis til Súkkót.+ Þeir voru um 600.000 fótgangandi karlmenn* auk barna.*+ 38 Fjölmennur blandaður hópur*+ fór einnig með þeim ásamt miklum hjörðum sauðfjár, geita og nautgripa. 39 Þeir bökuðu kringlóttar ósýrðar flatkökur úr deiginu sem þeir höfðu tekið með sér frá Egyptalandi. Deigið var ósýrt af því að þeir höfðu verið reknir út úr Egyptalandi í slíkum flýti að þeir höfðu ekki náð að taka til vistir.+
40 Þegar Ísraelsmenn yfirgáfu Egyptaland höfðu þeir búið á erlendri grund+ í 430 ár.+ 41 Einmitt á þeim degi þegar 430 árunum lauk yfirgaf fjölmenn þjóð* Jehóva Egyptaland. 42 Þeir munu halda upp á að Jehóva skyldi leiða þá út úr Egyptalandi þessa nótt. Kynslóð eftir kynslóð eiga allir Ísraelsmenn að halda hátíð þessa nótt, Jehóva til heiðurs.+
43 Jehóva sagði nú við Móse og Aron: „Þetta er ákvæðið um páskana: Enginn útlendingur má borða af páskafórninni.+ 44 Ef einhver á þræl sem hann keypti fyrir fé á að umskera hann.+ Þá fyrst má þrællinn borða af henni. 45 Innflytjandi eða lausráðinn maður má ekki borða af henni. 46 Menn eiga að borða hana alla í sama húsi. Ekki má fara með neitt af kjötinu út úr húsinu og ekki má brjóta neitt bein skepnunnar.+ 47 Allur söfnuður Ísraels á að halda páska. 48 Ef útlendingur býr meðal ykkar og vill halda páska, Jehóva til heiðurs, skal umskera alla karla á heimili hans. Þá má hann halda páska og hann verður eins og innfæddur maður. En enginn óumskorinn maður má borða af páskafórninni.+ 49 Sömu lög gilda fyrir innfædda menn og útlendinga sem búa meðal ykkar.“+
50 Allir Ísraelsmenn fylgdu fyrirmælum Jehóva sem hann hafði gefið Móse og Aroni. Þeir gerðu það í einu og öllu. 51 Á þessum degi leiddi Jehóva alla Ísraelsmenn* út úr Egyptalandi.