Jobsbók
4 Þá sagði Elífas+ Temaníti:
2 „Þolirðu að hlusta ef einhver talar við þig?
Hver fær samt orða bundist?
3 Þú hefur vissulega leiðbeint mörgum
og styrkt máttvana hendur.
4 Orð þín reistu á fætur þá sem hrösuðu
og þú styrktir þá sem voru að kikna í hnjánum.
5 En nú verður þú sjálfur fyrir því og þú bugast,*
það snertir þig og þú missir kjarkinn.
6 Finnurðu ekki traust í guðhræðslunni?
Veitir ekki ráðvendnin+ þér von?
7 Hugsaðu málið: Hefur saklaus maður nokkurn tíma glatast?
Hvenær hefur réttlátum manni verið tortímt?
8 Það er mín reynsla að þeir sem plægja* illsku
og þeir sem sá vandræðum uppskera samkvæmt því.
9 Guð andar á þá og þeir hverfa,
reiði hans blossar og þeir líða undir lok.
10 Ljónið öskrar og ungljón urrar
en jafnvel sterkustu ljón brjóta tennurnar.
11 Ljónið deyr ef engin er bráðin
og ljónshvolparnir tvístrast.
12 Mér barst orð í leyni
og hvíslað var í eyra mér.
13 Uggvænlegar hugsanir sóttu á mig út frá nætursýn
meðan fólk var í fastasvefni.
14 Ég hríðskalf af ótta
og bein mín nötruðu.
15 Andi straukst við andlit mitt,
hárin risu á líkama mínum.
16 Síðan stóð hann kyrr
en ég gat ekki greint útlit hans.
Einhver vera var fyrir augum mér.
Allt var hljótt en síðan heyrði ég rödd:
17 ‚Getur dauðlegur maður verið réttlátari en Guð?
Getur maður verið hreinni en skapari hans?‘
18 Hann treystir ekki þjónum sínum
og finnur jafnvel að englum* sínum,
19 hvað þá þeim sem búa í leirhúsum,
þeim sem eru myndaðir úr mold+
og hægt er að kremja eins og mölflugu!
20 Þeir eru til að morgni en eru kramdir fyrir kvöld.
Þeir hverfa fyrir fullt og allt og enginn saknar þeirra.
21 Eru þeir ekki eins og tjald þegar stögunum er kippt burt?
Þeir deyja í vanvisku sinni.