Horft á heiminn
Andlit reykingamanns
Í niðurstöðum rannsókna, sem lyflæknir að nafni Douglas Model gerði, segir að þess sjáist merki alls staðar í andliti manns hvort hann reykir eða ekki. Hann lýsir andliti reykingamanns svo að það sé hrukkótt, þreytulegt og guggið. Í fréttaskeyti Associated Press segir að „hrukkur við augnakrókana eða út frá vörunum hornrétt á þær eða dökkar rákir á kinnbeinum og neðri kjálka“ séu einkennandi fyrir „andliti reykingamanns,“ ásamt því að andlitið sé magurt ásýndar og húðin minni á leður. „Litarhaft er ögn gráleitt, gulleitt, purpuralitt eða rautt.“ Model álítur þetta stafa af „eituráhrifum“ vegna þess að dregur úr blóðrás til húðarinnar. Af þeim sjálfboðaliðum, sem þátt tóku í könnuninni, töldust 19 af þeim 41, sem þá reykti, vera með „andlit reykingamanns.“ Enginn hinna 38, sem ekki reyktu, hafði það. Niðurstöður hans birtust í læknatímaritinu British Medical Journal.
Kirkjuleg blessun yfir Kúbu
Sendimaður páfa, Eduardo Pironio, og varaforseti Kúbu, Carlos Rafael Rodriguez, tókust í hendur og föðmuðust í sendiráði Páfagarðs í Havana í febrúar síðastliðnum, til tákns um sættir rómversk-kaþólsku kirkjunnar og kúbanskra stjórnvalda. Hin þögla blessun kirkjunnar stjórninni til handa var veitt í stað athafnafrelsis sem kaþólska kirkjan hefur nú hlotið á Kúbu. „Hér með er brotið blað í utanríkisstefnu Páfagarðs gagnvart kommúnistaríkjum,“ segir Enrique Lopez Oliva, prófessor í kirkjusögu við háskólann í Havana, að því er segir í dagblaðinu The Miami Herald.
Bölvun Faraós?
Á þriðja áratug aldarinnar lést á þriðja tug Egyptalandsfræðinga skömmu eftir að þeir höfðu farið inn í gröf Tutankhamens Faraós. Varð einhver bölvun þeim að fjörtjóni eins og oft hefur verið haldið fram? Franskur læknir að nafni Caroline Stenger-Philipp hefur fundið hugsanlega skýringu á þessum dularfullu dauðsföllum, að því er International Herald Tribune segir. Ýmislegt bendir til að lífræn efni, svo sem ávextir og grænmeti, sem skilin voru eftir í gröfinni, hafi verið völd að dauða þeirra. Í aldanna rás hafa þessi efni — upphaflega ætluð til að næra Faraó á ‚ferð hans til eilífðarinnar‘ — rotnað, myglað, og myndað lífrænar rykagnir sem valdið geta sterkum ofnæmisviðbrögðum. Franski læknirinn fullyrðir að vísindamennirnir hafi orðið fórnarlömb ofnæmislosts eftir að hafa andað ögnunum að sér.
Að ættleiða kú
Til að berjast gegn slátrun milljóna kúa á ári eru heittrúaðir Hindúar í Bandaríkjunum nú beðnir að gerast aðilar að samtökum til verndar kúm, að því er segir í blaðinu India Observer. Hare Krishna-búgarður í Pennsylvania hefur verið valinn til þessarar áætlunar meðan hún er á reynslustigi. Með þessum hætti verður „öllum Hindúum fært að sýna fylgi sitt við eina af helstu meginreglum trúarinnar — vernd kúa.“ Boðið er upp á þrenns konar möguleika — 1200 krónur á mánuði, 4000 krónur á mánuði eða eina greiðslu að upphæð 120.000 krónur eða meira til að vernda kúna alla hennar ævi. Þátttakendum er send litmynd af kúnni, sem þeir hafa ættleitt, fréttir af því hvernig henni farnast og ókeypis helgardvöl á búgarðinum til að heimsækja „gó-mata“ eða sína helgu móður. Hindúar dýrka „kúna sem móður mannfélagsins, því að hún sér fyrir einhverri af næringarríkustu fæðu náttúrunnar,“ segir í blaðinu India Observer.
Banvæn blanda
Kona, sem bæði tekur getnaðarvarnarlyf og reykir, að minnsta kosti tífaldar hættuna á hjartaáfalli, segir hjartasérfræðingurinn prófessor Peter Sleight í Oxford á Englandi. Prófessor Sleight segir í dagblaðinu Sun í Sidney í Ástralíu að reykingar færist í vöxt meðal ungra kvenna. Með hvaða afleiðingum? Hjartaáföll í þessum aldurshópi eru nú orðin mjög algeng. Hann álítur orsökina vera reykingar, einkum hjá konum sem taka pilluna.
Fíkniefnanotkun í heiminum
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að allt að 48 milljónir manna um heim allan neyti fíkniefna. Þar af eru um 1,7 milljónir í ánauð ópíums, 30 milljónir reykja kannabis og 700.000 neyta heróíns. Ætlað er að allmargar milljónir manna hafi ánetjast kókaíni, en það er nú álitið hafa mesta ávanahættu af öllum fíkniefnum. Að sögn embættismanna Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segja þessar tölur þó hvergi nærri allan sannleikann, því að upplýsingar eru takmarkaðar frá fjölmörgum löndum.
Dýr bein
Dagblaðið India Today segir frá því að nýlegt útflutningsbann á beinagrindum manna frá Indlandi hafi valdið verulegum skorti á beinagrindum í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan. Þessi skortur hefur valdið því að beinagrindur eru nú dýrari en áður fyrir læknanema, sem þurfa að greiða á sjötta þúsund krónur fyrir hluta af beinagrind sem áður kostaði innan við 4000 krónur. Indland hefur séð heiminum fyrir mannabeinum í meira en hálfa öld, en bannið var sett þar eð háværar raddir hafa heyrst um „líkstuld“ og aðrar miður fagrar athafnir þeirra sem reyna að hagnast á hinum dauðu.
Ofnæmisprófun treystandi?
Ýmsar náttúrulækningamiðstöðvar í Bandaríkjunum hafa boðist til að greina næmi fólks fyrir 187 mismunandi efnum með blóðprófun gegn 14.000 króna gjaldi. Tímaritið Omni greinir frá því að Frank Golden, sem vinnur við rannsóknir hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu, hafi verið efins um að hægt væri að standa við tilboð af þessu tagi. Hann sendi því blóðsýni úr kú til greiningar. Bæði mistókst fyrirtækinu að greina að blóðið væri ekki úr manni, og auk þess skýrði það rannsóknarmanninnum frá því að sá sem blóðið væri úr hefði ofnæmi fyrir kotasælu, jógúrti og kúamjólk!
Að þekkja á klukku
Sænskir unglingar virðast eiga í vandræðum með að lesa á venjulegar klukkur, að því er virðist vegna þess hversu algengar stafrænar klukkur og úr eru orðin, að sögn The Times í Lundúnum. Samkvæmt nýlegri könnun, er náði til um 2000 sænskra unglinga, skildi einn af hverjum fimm ekki hvað „korter í þrjú“ merkti. Þeir vildu heldur tala um „2:45“ eða „14:45.“ Könnunin leiddi einnig í ljós að einn af hverjum þrem unglingum átti í erfiðleikum með að mæla tímann með stafrænu úri „vegna þess að þar er reiknað með 60 en ekki tíu eða hundrað.“
Börn með AIDS
Í ársbyrjun skýrðu sjúkdómavarnarstöðvar í Bandaríkjunum frá því að 231 barn hefði fæðst með ónæmistæringu, AIDS, þar í landi. Yfir 40 af hundraði þeirra, alls 103, voru fædd í New Yorkborg, og þar með er ónæmistæring orðin „algengasti smitsjúkdómur hjá nýburum“ í sumum borgarhverfum, segir í dagblaðinu Daily News. Einn af embættismönnum borgarinnar lét þess getið að 69% borgarbarna með ónæmistæringu hefðu dáið í samanburði við 52% fullorðinna með sama sjúkdóm. Það bendir til að sjúkdómurinn dragi börn fyrr til dauða en fullorðna. Samkvæmt skýrslum notar meirihluti mæðra þessara barna fíkniefni sem sprautað er í æð, og líklegt er að þær hafi fengið sjúkdóminn með sprautunálum sem notaðar hafa verið af öðrum.
Stjörnuspár gagnslausar
„Alvarleg vísindaleg athugun á nákvæmni stjörnuspáa gefur til kynna að það stjörnumerki, sem maður er fæddur undir, hafi engin áhrif á persónuleika hans,“ segir Pearce Wright í dagblaðinu The Times í Lundúnum, en hann skrifar þar um vísindi. Tilraunin, sem gerð var við University of California, náði til 28 kunnra stjörnuspáfræðinga. Þeir voru látnir gangast undir próf sem fól í sér að velja saman stjörnukort ákveðinna einstaklinga og rétta persónuleikalýsingu þeirra. Persónuleikalýsingin var gerð eftir spurningalista, sem stjörnuspáfræðingarnir bæði þekktu og var gerður eftir þeirra tillögum. Fyrir hvern einstakling voru gefnar þrjár lýsingar, ein rétt og tvær valdar af handahófi. Í greininni segir að „niðurstaða þessa prófs hafi verið neyðarleg fyrir stjörnuspáfræðingana, vegna þess að nákvæmni þeirra var engu meiri en búast mátti við að hrein tilviljun gæfi.“ Stjörnspáfræðingarnir hittu aldrei sjálfboðaliðana. Þegar þeir hitta fólk augliti til auglitis verða þeir áskynja um ýmislegt sem þeir nota til að vekja hrifningu þess, segir vísindamaðurinn Shawn Carlson sem stýrði tilrauninni.