Hvers vegna er EYÐNI svona hættuleg?
EF VIÐ ætlum okkur að skilja hvernig við getum verndað okkur fyrir eyðni þurfum við að skilja hvers vegna sjúkdómurinn er lífshættulegur. Hvers vegna er eyðniveiran verri viðureignar en aðrar veirur?
Veirur eru smærstu lífverur sem valda sjúkdómum, langtum smærri en gerlar eða bakteríur. Mismunandi veirur valda sjúkdómum svo sem inflúensu, lömunarveiki og venjulegu kvefi. Veira getur komist inn í frumu, drepið hana eða legið þar í dvala um tíma. Eyðniveiran getur legið í dvala í fimm ár eða lengur áður en sjúkdómseinkenni koma í ljós.
Hvers vegna lífshættuleg
Eyðniveiran er lífshættuleg fyrir þá sök að hún ræðst á og gerir óvirkar mikilvægar líkamsfrumur, meðal annars hvít blóðkorn (nefnd T-4 eitilfrumur) sem eru helsta vörn líkamans gegn sjúkdómum.
Þegar eyðniveiran hefur gert þessi hvítu blóðkorn óvirk geta þau ekki gegnt hlutverki sínu. Með því er ónæmiskerfi líkamans lagt í rúst. Sýking, sem líkaminn ræður að öllu jöfnu auðveldlega við, er nú orðin lífshættuleg. Þessi sýking getur verið af völdum annarra veira, sníkjudýra, gerla, sveppa eða krabbameins af ýmsum gerðum.
Af því að líkaminn getur ekki lengur barist gegn þessum sýkingum sækja þær á þar til fórnarlambið er látið. Kalla mætti þessar sýkingar tækifærissinnaðar að því leyti að þær notfæra sér það að ónæmiskerfi líkamans starfar ekki sem skyldi. Nokkrar mismunandi sýkingar geta ráðist á eyðnisjúkling samtímis.
Af fyrstu einkennum eyðni má nefna: langvarandi og óútskýrða þreytu, bólgna eitla svo mánuðum skiptir, langvarandi hita eða svitaköst að nóttu, þrálátan niðurgang, þráláta bletti á hörundi og slímhimnu, langvarandi hósta sem ekki finnst skýring á, og þykka, hvítleita skán á tungu eða í hálsi. Auk þessa má nefna að sjúklingur léttist gjarnan, fær auðveldlega marbletti eða blæðir án þess að viðunandi skýring finnist. Þessi fyrstu einkenni eru oft nefnd „forstigseinkenni.“
Þegar eyðnin kemst á lokastig taka banvænir sjúkdómar að herja á sjúklinginn. Af þeim algengari má nefna lungnasýkingu af völdum sníkilgerla (Pneumocystis carinii) og sjaldgæfan húðkrabba (Kaposis sarkmein) sem ræðst einnig á innri líffæri. Auk þess getur eyðniveiran haft áhrif á heilann og valdið lömun, blindu, andlegri hrörnun og að lokum dauða. Dr. Richard T. Johnson, prófessor í taugasjúkdómafræði við John Hopkins-háskóla, segir: „HIV [eyðniveiran] er komin í heilann á að minnsta kosti einni milljón manna í Bandaríkjunum.“
Þegar eyðni kemst á lokastig fylgja henni kvalir og sjúklingurinn léttist svo ekki verður við neitt ráðið. Hann verður sífellt máttfarnari uns dauðinn nær yfirhöndinni. Breska læknatímaritið The Lancet segir að í Afríku „hafi eyðni verið sett í samband við ‚megrunarveiki‘ sem lýsir hinu mikla þyngdartapi sem fylgir niðurgangi.“ Sjúklingur getur dáið innan árs frá því að eyðnisýkingar verður vart eða þraukað í nokkur ár.
Lífseig veira
Eyðniveiran er einnig lífshættulegri en aðrar veirur fyrir þá sök að hún hefur innbyggðan björgunarbúnað sem ekki er algengt að veirur hafi.
Inflúensuveiran lifir til dæmis aðeins í fáeina daga eða vikur í manni. Þá hefur hún örvað líkamann til að mynda mótefni sem vernda hann gegn frekara smiti af þessari ákveðnu veiru. Þegar farsóttin hefur runnið sitt skeið hverfur hún. „Spánska veikin,“ inflúensufaraldurinn árið 1918, stóð aðeins í eitt ár. Gulusóttarveiran berst út með moskitóflugum en fjöldi þeirra er breytilegur eftir árstímum. Bólusótt getur geisað um skamman tíma meðal þeirra sem móttækilegir eru fyrir henni og síðan horfið.
Eyðniveiran er hins vegar talin lífseig. Eftir að hún hefur einu sinni tekið sér bólfestu í manni hverfur hún ekki af sjálfri sér heldur fylgir honum líklega til æviloka. Líkaminn getur ekki unnið sigur á eyðni og læknast og tekst þar með ekki að byggja upp ónæmi gegn sjúkdómnum.
Þar við bætist að eyðniveiran hefur sýnt töluvert breytilega genasamsetningu, en það eykur verulega vandkvæðin á að þróa bóluefni gegn henni. Og veirur stökkbreytast venjulega, það er að segja breyta eðli sínu. Til dæmis eru margar mismunandi tegundir af inflúensu- og kvefveirum. Nú þegar er búið að finna nýja tegund eyðniveiru í Afríku og víðar. Vera kann að mismunandi bóluefni þurfi gegn hverri tegund.
En hvers vegna er eyðni orðin svona útbreidd? Hvaða atferli manna hefur hjálpað eyðniveirunni að smeygja sér svo lævíslega inn í raðir þeirra?
[Rammi á blaðsíðu 7]
ÞÆTTIR SEM STUÐLA AÐ ÚTBREIÐSLU EYÐNI
Að sögn breska læknatímaritsins The Lancet smitast árlega yfir 300 milljónir manna í heiminum af samræðissjúkdómum svo sem lekanda, sárasótt (sýfilis), herpes og klamydíu. Þessir sjúkdómar geta veikt viðnámsþrótt líkamans þannig að eyðniveiran eigi greiðari aðgang að honum. Fíkniefnanotkun getur einnig veikt viðnámsþrótt líkamans gegn eyðni.
Í þróunarlöndunum er viðnámsþróttur manna gegn eyðni oft lítill sökum lélegrar næringar af völdum fátæktar og ófullnægjandi heilsugæslu. Hundruð milljónir manna á þeim slóðum eru þegar heilsutæpar og því auðveld bráð fyrir eyðniveiruna.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Hvítu blóðkornin verja líkamann venjulega gegn sýklum.