,Trúin flytur hús‘
Eftir fréttaritara VAKNIÐ! á Íslandi
SPENNAN lá í loftinu um sexleytið að morgni föstudagsins 9. júní 1995 þegar tveir hópar sjálfboðaliða söfnuðust saman á jafnmörgum byggingarlóðum í Keflavík og á Selfossi. Þarna átti að setja „Íslandsmet í húsbyggingum,“ eins og útvarpsstöð komst að orði, því að reisa átti tvö samkomuhús eða ríkissali samtímis á báðum stöðunum á aðeins fjórum dögum.
Vottar Jehóva hafa reist smáa og stóra ríkissali í þúsundatali fyrir söfnuði sína víða um lönd á aðeins tveim til fjórum dögum. En þetta var í fyrsta sinn sem vottar Jehóva á Íslandi réðust í slíkt verk. Tókst þeim það? Já, eins og kona í næsta húsi við annan byggingarstaðinn sagði í viðtali við fréttamann Ríkissjónvarpsins: ‚Ég var að pæla í hvaða hávaði þetta væri og leit út og þá var hér bara múgur og margmenni með hjálma í allavega litum og svo var bara risin ein kirkja, einn, tveir og þrír!‘
En hvernig gat rúmlega 300 manna samfélag votta á Íslandi afrekað þetta? Af því að vottar Jehóva eru heimsbræðralag þar sem menn hjálpast að óháð landamærum. Um 120 vottar frá Noregi buðu fram aðstoð sína. Um helmingur allra votta Jehóva á Íslandi, eða um 150 manns, buðu fram krafta sína. Norðmennirnir lögðu til efni í húsin, allt frá grindarefni til gluggatjalda, og kostuðu sjálfir ferðir og uppihald.
Undirbúningur
Árið 1993 var falast eftir byggingarlóðum í báðum bæjarfélögunum og fékkst strax hentug lóð í Keflavík. Í septemberbyrjun 1994 voru sökklar og plata steypt. Í maí 1995 var bílastæði hellulagt og gengið frá lóðinni að mestu, og var þá allt tilbúið til að reisa sjálft húsið.
Þrátt fyrir góðan vilja bæjaryfirvalda á Selfossi reyndist erfiðara að finna lóð þar vegna þess að bærinn átti sjálfur engar lóðir til úthlutunar. Það var ekki fyrr en í janúar 1995 sem samningar tókust um kaup á lóð og 3. maí fékkst óformlegt byggingarleyfi. Strax næsta dag hófst gröftur og uppfylling. Sökklar voru steyptir 12. maí og platan hinn 26. Mörgum þótti orðið ótrúlegt að þarna yrði risið fullbúið hús hálfum mánuði síðar.
Þegar hér var komið sögu voru komnir til landsins 7 Norðmenn til undirbúningsvinnu. Þeir unnu um vikutíma í Keflavík ásamt hópi íslenskra votta þar sem slegið var saman veggjagrindum og þaksperrum. Hópurinn færði sig síðan að Selfossi og undirbjó verkið þar með sama hætti.
Að kvöldi hins 8. júní komu tæplega 120 norskir vottar með leiguflugi til landsins. Eftir undirbúningsfund í Keflavík hélt hluti hópsins áfram að Selfossi.
Góð samvinna
Enda þótt hópurinn hefði komið til landsins átta stundum á eftir áætlun hófst verkið á tilsettum tíma. Klukkan sex næsta morgun vaknaði fólk í nágrenninu við fyrstu hamarshöggin. Innan skamms voru byggingarstaðirnir eins og iðandi mauraþúfur. Um áttaleytið voru veggjagrindur og þaksperrur komnar upp og byrjað var að klæða veggina að utan. Varla var búið að negla fyrstu gifsplöturnar þegar byrjað var að einangra veggina. Innanhús tóku milliveggir að rísa og rafvirkjar og pípulagningarmenn hófust handa.
Verkinu miðaði hratt undir umsjón iðnaðarmanna sem hver um sig sá um lítinn hóp sjálfboðaliða. Íslensku vottarnir höfðu lesið um slíkar byggingarframkvæmdir en nú sáu þeir með eigin augum hvernig húsin risu næstum á augabragði með vinnu fúsra sjálfboðaliða. Algengasta athugasemd þeirra var: „Þetta er alveg ótrúlegt!“ Bílstjóri á rútu, sem leigð hafði verið til að flytja sjálfboðaliðana að og frá vinnustað, hreifst svo af því sem hann sá að hann brá sér í vinnuföt, fékk sér hjálm og hamar og fór að vinna með vottunum.
Það vakti athygli að enginn asi var á mönnum þótt mikið lægi á, heldur unnu menn á hæfilegum, jöfnum hraða. Andinn var góður og engin hnjóðsyrði féllu þótt stundum væru margir að vinna hver ofan í öðrum að ólíkum verkum. Menn lögðu sig fram um að vera „gleðigjafar að atvinnu,“ eins og það var orðað á undirbúningsfundi.
Hjálpsamir bæjarbúar
Starfsmenn veitustofnana voru satt að segja vantrúaðir þegar þeir voru beðnir að koma á ákveðnum tíma daginn eftir til að að tengja rafmagn eða vatn í hús sem ekki var einu sinni byrjað að reisa! En þegar þeir sáu húsin rísa á mettíma voru þeir meira en fúsir til að koma á staðinn utan venjulegs vinnutíma. Verktakar og byggingavöruverslanir bæði á Selfossi og í Keflavík höfðu menn til taks sem hægt var að leita til eftir vörum og þjónustu hvenær sem var alla helgina. Velvild og hjálpsemi bæjaryfirvalda og raunar allra bæjarbúa var mikils virði og átti sinn þátt í vel heppnuðu verki.
Verkinu lokið
Á sunnudag voru fyrstu samkomurnar haldnar í nýju ríkissölunum. Að eignast eigin ríkissal — sem hafði einu sinni verið fjarlægur draumur safnaðanna tveggja — var nú orðið að veruleika. Í Keflavík var aðeins frágangsvinna eftir að kvöldi sunnudags, en á Selfossi heldur meira, enda höfðu færri verið að störfum þar.
Þegar íslensku vottarnir þökkuðu þeim norsku fyrir að leggja á sig kostnað og erfiði til að hjálpa þeim að byggja var algengasta svarið: „Við erum þakklát fyrir að fá að koma hingað til að byggja með ykkur.“
En hver er leyndardómurinn að baki því að reisa hús á fjórum dögum og nota til þess að mestu leyti ófaglærða sjálfboðaliða? Einn norsku vottanna, sem hefur tekið þátt í að reisa yfir 20 slíka ríkissali, sagði: „Ég hef oft velt því fyrir mér. Og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það sé aðeins hægt með hjálp anda Jehóva.“ Kannski hitti fréttamaður Stöðvar 2 naglann á höfuðið: „Það er oft sagt að trúin flytji fjöll, en í þessu tilviki má svo sannarlega segja að trúin hafi flutt heilt hús.“
[Myndir á blaðsíðu 15]
▲ Föstudagur ▲ kl. 06:05
▲ Föstudagur kl. 08:00
◀ Föstudagur kl. 11:30
▼ Sunnudagur kl. 18:00