Ungt fólk spyr . . .
Hvers vegna finnst mér ég þurfa að vera fullkominn?
„Þar sem pabbi var kennari gerðu allir ráð fyrir því að ég fengi alltaf níu og tíu í öllu. Ég grét mig stundum í svefn.“ — Lea.a
„Ég er haldinn fullkomnunaráráttu. Ef ég geri eitthvað verð ég að vera bestur í því eða gera það allt öðruvísi en allir hinir, því að annars sé ég enga ástæðu til þess að gera það.“ — Kaleb.
FINNST þér þú alltaf þurfa að vera fullkominn? Hefurðu sífellt áhyggjur af því að þú standir þig ekki nógu vel, hversu mikið sem þú leggur þig fram? Áttu erfitt með að taka gagnrýni? Kennirðu sjálfum þér um það þegar eitthvað fer úrskeiðis og ásakarðu þig um að vera heimskur, óverðugur eða verri en aðrir? Finnst þér þú þurfa að gera allt sjálfur svo að það verði almennilega gert? Ertu stundum svo hræddur um að þér eigi eftir að mistakast að þú frestar því sem þú þarft að gera eða sleppir því alveg?
Hvernig samskipti áttu við aðra? Áttu fáa eða enga vini vegna þess að þér finnst enginn sem þú umgengst vera nógu fullkominn? Læturðu galla annarra fara of mikið í taugarnar á þér? Ef þú svarar einhverri af þessum spurningum játandi er hugsanlegt að þú sért haldinn fullkomnunaráráttu. En ef svo er, ertu ekki sá eini. Fullkomnunarárátta er algeng hjá unglingum, sérstaklega hjá þeim sem hafa einstaka hæfileika eða hafa náð góðum árangri í því sem þeir taka sér fyrir hendur.b
Hvað veldur fullkomnunaráráttu? Rannsóknarmenn vita það ekki fyrir víst. Bókin Perfectionism — What’s Bad About Being Too Good? segir: „Fullkomnunarárátta er ekki sjúkdómur; þú smitaðist ekki af henni. Fullkomnunarárátta er ekki arfgeng; þú fæddist ekki með hana. Af hverju ertu þá haldinn fullkomnunaráráttu? Sumir sérfræðingar telja að fullkomnunarárátta myndist á æskuárunum. Þrýstingur frá fjölskyldunni, sjálfum sér, félögunum, fjölmiðlum og óraunhæfum fyrirmyndum veldur sumum samviskubiti og áhyggjum alla ævi og fær þá til að leggja allt of mikið á sig.“
Hver svo sem ástæðan er getur fullkomnunarárátta verið skaðleg. Athugum betur hvað fullkomnunarárátta er og hvers vegna hún getur valdið okkur tjóni.
Hvað er fullkomnunarárátta?
Fullkomnunarárátta er meira en það að leggja sig fram um að ná góðum árangri eða leggja metnað sinn í að gera hlutina vel. Biblían hrósar einmitt þeim sem er ,vel fær í verki sínu‘. (Orðskviðirnir 22:29) Hún talar líka jákvætt um nokkra menn sem voru mjög hæfileikaríkir á ýmsum sviðum. (1. Samúelsbók 16:18; 1. Konungabók 7:13, 14) Það er því gott að leggja sig fram um að ná góðum árangri og setja sér háleit en raunhæf markmið. Þannig getur maður ‚látið sálu sína njóta fagnaðar af striti sínu‘. — Prédikarinn 2:24.
En sá sem er haldinn fullkomnunaráráttu nýtur ekki þessarar gleði. Hann sér ekki árangur í réttu ljósi. Sumir sérfræðingar segja að fullkomnunarárátta felist meðal annars í „óraunhæfum markmiðum (það er að segja að sækjast eftir fullkomnun) og stöðugri óánægju þrátt fyrir góðan árangur“. Fyrir vikið veldur fullkomnunarárátta „langvinnri streitu sem fær einstaklinginn oft til að finnast hann vera misheppnaður“. Ein heimild skilgreinir því fullkomnunaráráttu sem „þá órökréttu hugsun að maður sjálfur og/eða allt í kringum mann verði að vera fullkomið“. Hún er það „að vera altekinn þeirri hugsun að maður verði að gera allt óaðfinnanlega án nokkurra undantekninga, mistaka eða ósamræmis“.
En sagði Jesús ekki: „Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn“? (Matteus 5:48) Jú, en hann sagði ekki að maður gæti verið algerlega fullkominn. Biblían segir einmitt að ,allir hafi syndgað og skorti Guðs dýrð‘. (Rómverjabréfið 3:23) Hvað átti Jesús þá við? Í Biblíunni felur orðið „fullkominn“ í sér merkinguna að vera heill. (Matteus 19:21) Þegar Jesús sagði að við yrðum að vera fullkomin var hann að ræða við lærisveina sína um kærleika og hvetja þá til að vera heilir í kærleikanum. Hvernig gætu þeir gert það? Með því að elska jafnvel óvini sína. Biblíuritarinn Lúkas skrifaði niður orð Jesú: „Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.“ — Lúkas 6:36.
Þeir sem eru haldnir fullkomnunaráráttu erfiða hins vegar í þeirri trú að það sé hægt að vera algerlega fullkominn. Sumir þeirra gera því miklar kröfur til annarra. Samkvæmt bókinni Never Good Enough — Freeing Yourself From the Chains of Perfectionism er þetta „fólk sem pirrar sig yfir því hvernig aðrir vinna vinnuna sína. . . . Þeim finnst fólkið í kringum sig leggja lítinn metnað í vinnuna og vera alveg sama um hvort það vinni vel eða illa.“
Klöru gengur til dæmis vel í skóla og hún er á námsbraut fyrir afburðanemendur. Henni hefur hins vegar ekki gengið jafn vel í mannlegum samskiptum. Hún hefur misst næstum alla vini sína af því að hún vill að allt sé fullkomið. „Ég held að þeir hafi verið of ófullkomnir,“ segir hún.
Sumir krefjast fullkomleika af sjálfum sér en ekki öðrum. Bókin Never Good Enough segir að þeim finnist „þeir eða það sem þeir gera ekki vera nógu gott . . . og að þeir hafi miklar áhyggjur af því hvað öðrum finnst um þá“.
Vandinn við það að reyna að vera fullkominn
Það að reyna að vera fullkominn er því alls ekki heilnæmt og gagnlegt heldur hefur það oft reynst vera óheilnæmt og skaðlegt. Þetta hugarfar hefur líka oft stuðlað að slökum árangri frekar en góðum. Vottur, sem heitir Daníel, minnist þess að hafa undirbúið sig mjög vel fyrir ræðuverkefni sem hann átti að flytja í ríkissal Votta Jehóva. Margir áheyrendurnir hrósuðu honum fyrir ræðuna. Síðan gaf leiðbeinandinn honum nokkur uppbyggjandi ráð. Biblían hvetur okkur til að ,hlýða ráðum og taka umvöndun‘. (Orðskviðirnir 19:20) En í stað þess að taka þessari uppbyggjandi gagnrýni vel fannst Daníel sér hafa mistekist. „Mig langaði til að skríða inn í holu,“ segir hann. Hann átti erfitt með svefn vikum saman.
Fullkomnunarárátta getur því hindrað árangur í námi. Ung stúlka, sem heitir Rakel, skrifaði í grein á vefsíðu fyrir unglinga: „Þegar ég fór í framhaldsskóla var ég staðráðin í að standa mig vel. Ég fékk alltaf níu og tíu í öllu og bjóst ekki við að það myndi breytast.“ En Rakel komst fljótlega að raun um að hún átti í erfiðleikum með algebru og fékk „aðeins“ átta í einkunn. „Öllum öðrum fannst þetta vera góð einkunn,“ segir Rakel, „en ég skammaðist mín fyrir hana. Ég varð kvíðin og fór að hafa áhyggjur. . . . Ég vildi ekki biðja kennarann um hjálp af því að ef ég viðurkenndi að ég þyrfti hjálp til að leysa heimaverkefnin fannst mér ég vera að viðurkenna að ég skildi þau ekki. . . . Stundum gat ég næstum sannfært sjálfa mig um að það væri betra að deyja en að ná ekki að uppfylla þær kröfur sem ég gerði til mín.“
Sumir unglingar hafa jafnvel hugleitt sjálfsvíg af ótta við að gera mistök. Sem betur fer hugsa fæstir unglingar um að gera slíkt. En eins og sálfræðingurinn Sylvia Rimm bendir á reyna sumir unglingar stundum að forðast mistök með því að gera ekki heimaverkefnin sín. Hún segir að sumir sem haldnir eru fullkomnunaráráttu „skili ekki verkefnum, leggi ekki metnað í það sem þeir gera, gleymi heimavinnunni og komi með afsakanir“.
Aðrir unglingar fara hins vegar út í öfgar til að ná árangri. „Ég vakti oft langt fram eftir nóttu til að ná að leysa skólaverkefnin fullkomlega,“ viðurkennir Daníel. Vandamálið við slíkar öfgar er að þær hafa venjulega þveröfug áhrif. Þreyttur nemandi er líklegri til að standa sig illa.
Það er því ekki að furða að fullkomnunarárátta sé talin tengjast litlu sjálfsáliti, sífelldri reiði, sektarkennd, svartsýni, átröskun og þunglyndi. En það sem er alvarlegast við hana er að hún getur skaðað trú okkar. Biblían segir til dæmis kristnum mönnum að segja öðrum frá trú sinni. (Rómverjabréfið 10:10; Hebreabréfið 10:24, 25) En unglingsstúlka, sem heitir Vivian, svaraði ekki á safnaðarsamkomum því að hún óttaðist það að geta ekki orðað hugsanir sínar alveg rétt. Lea hefur svipaða sögu að segja: „Ef ég segi eitthvað vitlaust draga aðrir rangar ályktanir um mig. Þess vegna segi ég ekki frá því sem ég hugsa.“
Það er því greinilega skaðlegt og óheilnæmt að finnast maður þurfa að vera fullkominn. Ef þú hefur einhver af einkennunum, sem lýst er í þessari grein, gæti verið ástæða fyrir þig til að breyta um hugsunarhátt að einhverju leyti. Síðar verður fjallað um hvernig það er hægt.
[Neðanmáls]
a Sumum nöfnum hefur verið breytt.
b Könnun leiddi í ljós að 87,5 prósent af hæfileikaríkustu nemendunum í einum skóla væru haldnir fullkomnunaráráttu að einhverju marki.
[Mynd á blaðsíðu 13]
Sumir unglingar eru svo hræddir um að gera mistök að þeir ljúka ekki heimaverkefnunum.
[Mynd á blaðsíðu 14]
Fullkomnunarárátta getur ýtt undir þunglyndi og lítið sjálfsálit.