Fegurð flugeldanna
FLUGELDAR eru óaðskiljanlegur hluti ýmissa viðburða, hvort sem um er að ræða Ólympíuleikana eða Menningarnótt í Reykjavík. Flugeldasýningar eru haldnar á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna og á Bastilludegi (þjóðhátíðardegi Frakka) og þær lýsa upp himininn í næstum öllum stórborgum jarðar á gamlárskvöld.
En hvenær fóru menn að hafa áhuga á flugeldum? Og hvaða hugvitssemi býr að baki hinum hrífandi flugeldasýningum?
Austurlensk hefð
Flestir sagnfræðingar eru sammála um að Kínverjar hafi fundið upp flugelda á tíundu öld okkar tímatals. Efnafræðingar uppgötvuðu þá að sprengiefni myndaðist við að blanda saman saltpétri (kalíumnítrati), brennisteini og viðarkolum. Vestrænir landkönnuðir eins og Marco Polo og hugsanlega arabískir kaupmenn fluttu síðan sprengiefnin með sér til Evrópu. Á 14. öld voru flugeldasýningar síðan farnar að skemmta Evrópubúum.
En duftið sem framkallaði þessar stórkostlegu flugeldasýningar, olli einnig straumhvörfum í sögu Evrópu. Þetta efni varð síðar þekkt sem byssupúður. Hermenn notuðu það til að knýja byssukúlur, sprengja kastalaveggi og sundra pólitískum öflum. Alfræðiorðabók segir: „Notkun sprengiefna í hernaði átti þátt í útbreiðslu flugelda í Evrópu á miðöldum og óskað var eftir sprengiefnasérfræðingum innan hersins til að stjórna flugeldasýningum sem tengdust sigur- eða friðarhátíðum.“ — Encyclopædia Britannica.
Á sama tíma virtust Kínverjar að mestu horfa fram hjá eyðingarmætti byssupúðurs. Á 16. öld skrifaði Matteo Ricci sem var ítalskur Jesúítatrúboði í Kína: „Kínverjar eru engir sérfræðingar í notkun á byssum eða fallbyssum og nota þær einungis lítið til hernaðar. Saltpétur er hins vegar notaður í miklu magni til að framleiða flugelda fyrir sýningar á opinberum mannamótum og hátíðisdögum. Kínverjar hafa mjög mikla ánægju af slíkum sýningum . . . Þeir eru algerir snillingar í að búa til flugelda.“
Leyndardómur flugeldasýninga
Þeir sem unnu við flugeldagerð fyrr á tímum þurftu eflaust að hafa til að bera bæði hugrekki og færni þegar þeir útfærðu hinar mismunandi sýningar. Þeir uppgötvuðu að grófar byssupúðursagnir brenna tiltölulega hægt en fíngerðar agnir hins vegar með sprengikrafti. Flugeldar voru búnir til með því að loka vel öðrum endanum á bambus- eða pappírsröri en neðri hlutinn var fylltur með grófu byssupúðri. Þegar kveikt var í byssupúðrinu þrýstust lofttegundir af miklum krafti úr opna endanum og þeyttu flugeldinum upp til himins. (Þetta grundvallarlögmál er notað enn þann dag í dag til að senda geimfara upp í geiminn.) Efri hluti flugeldsins var fylltur fíngerðu byssupúðri svo að hann spryngi þegar hann nálgaðist hápunkt brautar sinnar, ef allt gengi að óskum.
Flugeldatæknin hefur lítið breyst í aldanna rás. Nokkrar framfarir hafa þó orðið. Í fyrstu vissu Austurlandabúar aðeins hvernig átti að búa til hvítar og gulllitaðar sýningar. Ítalir bættu litunum við. Við upphaf 19. aldar uppgötvuðu þeir að hægt væri að bæta kalíumklórati við byssupúður svo að blandan brynni við nægan hita til að breyta málmtegundum í lofttegundir, sem síðan lituðu logann. Núna er strontíumkarbónati blandað við til að búa til rauðan loga. Títan, ál og magnesíum mynda skærhvítan loga, koparefnasambönd mynda bláan, baríumnítröt grænan og blanda, sem inniheldur natríumoxalat, myndar gulan loga.
Tölvur hafa gerbreytt flugeldasýningum. Í stað þess að kveikja handvirkt í flugeldum geta tæknimenn nú tímasett flugeldasýningar nákvæmlega með því að nota tölvur sem kveikja rafvirkt í flugeldunum svo að þeir springi í takt við tónlist.
Trúarleg tengsl
Flugeldar voru óaðskiljanlegur hluti af trúarhátíðum Kínverja rétt eins og Jesúítatrúboðinn Ricci nefndi. Blaðið Popular Mechanics segir að Kínverjar hafi fundið upp flugelda „til að reka burt illa anda frá hátíðum sem tengdust nýársfagnaði og öðrum hefðbundnum hátíðum“. Í bók sinni segir Howard V. Harper: „Frá fornum tímum hafa heiðnir menn borið kyndla og byggt bálkesti á mikilvægum trúarhátíðum. Það reyndist því eðlilegt að bæta við þessar hátíðir ljósum í margvíslegum litum sem hreyfðust af sjálfu sér.“ — Days and Customs of All Faiths.
Flugeldagerðarmenn fengu verndardýrling fljótlega eftir að nafnkristnir menn fóru að nota flugelda. Alfræðiorðabók segir: „Faðir [sánkti Barböru] er sagður hafa lokað hana í turni og síðan myrt hana fyrir að hafa verið kristin. Hann varð síðan fyrir eldingu sem gerði það að verkum að sánkti Barbara varð verndardýrlingur þeirra sem búa til og nota skotvopn og flugelda.“ — The Columbia Encyclopedia.
Engu til sparað
Hvort sem um er að ræða almennar eða trúarlegar hátíðir virðist almenningur hafa óseðjandi löngun til að sjá stærri og viðameiri flugeldasýningar. Ricci lýsti einni kínverskri flugeldasýningu á 16. öld svo: „Þegar ég var í Nanking fylgdist ég með flugeldasýningu sem var haldin í tilefni hátíðar fyrsta mánaðar ársins en það er mesta hátíð þeirra. Við þetta tækifæri reiknaði ég út að þeir hefðu notað nægilega mikið magn af sprengiefni til að halda úti miklum stríðsátökum í nokkur ár.“ Hann sagði um kostnaðinn við sýninguna: „Þegar um flugelda er að ræða virðast þeir ekki hafa neinar áhyggjur af kostnaði.“
Lítið hefur breyst á liðnum öldum. Á einni hátíð árið 2000 voru sprengd um 20 tonn af flugeldum til þess að skemmta rúmlega milljón áhorfendum sem voru samankomnir við höfnina í Sydney í Ástralíu. Á sama ári eyddu Bandaríkjamenn sem svarar 46 milljörðum íslenskra króna í um 70.000 tonn af flugeldum. Vissulega munu ýmis menningarsamfélög halda áfram að hrífast af flugeldum og enn er hægt að segja: „Þegar um flugelda er að ræða virðast þeir ekki hafa neinar áhyggjur af kostnaði.“