Sjónarmið Biblíunnar
Er Guð alls staðar?
MARGR trúa því að Guð sé bókstaflega alls staðar og í öllu. Hinn vitri Salómon konungur sagði í bæn til Jehóva: „Heyr þá bæn þeirra í himninum þar sem þú býrð.“ (1. Konungabók 8:30, 39) Við sjáum að samkvæmt Biblíunni á Jehóva Guð ákveðinn bústað. Salómon talaði um að bústaður Guðs væri „í himninum“. En hvað þýðir það?
Í Biblíunni er orðið „himinn“ stundum notað um efnisheiminn umhverfis jörðina. (1. Mósebók 2:1, 4) En þar sem Guð skapaði alla hluti hlýtur bústaður hans að hafa verið til áður en hann myndaði hinn efnislega alheim. Því hlýtur Guð að vera á tilverusviði sem er ekki bundið við efnislega hluti. Þegar Biblían talar um himininn sem bústað Jehóva Guðs á hún þar af leiðandi ekki við ákveðinn stað í himinhvolfinu eða í geimnum heldur andlegt tilverusvið.
Mikilfengleg sýn
Í Biblíunni segir frá sýn sem Jóhannes postuli sá. Þar bregður fyrir hrífandi mynd af bústað Jehóva. Í sýninni sá Jóhannes opnar dyr á himnum og heyrði rödd segja: „Stíg upp hingað.“ — Opinberunarbókin 4:1.
Því næst sá Jóhannes Jehóva Guð sjálfan í mikilfenglegri sýn. Hann sá meðal annars þetta: „Hásæti á himni og einhver sat í því sem var ásýndum líkur jaspissteini og sardissteini og regnbogi var kringum hásætið sem smaragður á að sjá . . . Út frá hásætinu gengu eldingar, dunur og þrumur . . . Og frammi fyrir hásætinu var sem glerhaf, líkt kristalli.“ — Opinberunarbókin 4:2-6.
Þetta er ljóslifandi lýsing á skínandi fegurð Jehóva og mikilfengleika hans sem á sér enga hliðstæðu. Taktu eftir því umhverfi sem umlykur hásæti Jehóva. Regnboginn bendir til kyrrðar og friðar. Eldingar, dunur og þrumur leggja áherslu á mátt Guðs. Og glerhafið dregur athyglina að hreinleika þeirra sem eru í návist Guðs.
Þó að myndmálið, sem hér er notað, sé táknrænt segir það okkur mikið um bústað Guðs. Jehóva viðheldur fullkominni reglu á himnum — það er engin óreiða í bústað hans.
Alls staðar öllum stundum?
Sú staðreynd að Jehóva á sér bústað gefur til kynna að hann sé ekki alls staðar öllum stundum. Hvernig getur hann þá verið meðvitaður um allt sem er að gerast í alheiminum? (2. Kroníkubók 6:39) Ein leið er fyrir atbeina heilags anda eða starfskraftar hans. Sálmaskáldið orti: „Hvert get ég farið frá anda þínum, hvert flúið frá augliti þínu? Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.“ — Sálmur 139:7-10.
Tökum sólina sem dæmi til að lýsa því hversu langdrægur heilagur andi er. Hún er á ákveðnum stað en orka hennar nær til mikils meirihluta jarðarinnar. Á svipaðan hátt á Jehóva Guð sér ákveðinn aðseturstað. En hann getur framkvæmt hvað sem hann vill hvar sem er í alheiminum. Enn fremur getur Jehóva notað heilagan anda sinn til að skynja allt sem gerist hvar sem er og hvenær sem er. Því segir í 2. Kroníkubók 16:9: „Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“
Jehóva hefur einnig undir sinni stjórn mikinn fjölda andavera sem kallast englar. Biblían gefur til kynna að þessir englar geti skipt hundruðum milljóna — jafnvel milljörðum eða fleiri.a (Daníel 7:10) Í Biblíunni er að finna mörg dæmi þess að Jehóva hafi sent engla niður til jarðarinnar sem fulltrúa sína, þar hafi þeir talað við menn og síðan gert Jehóva grein fyrir stöðu mála. Á dögum Abrahams rannsökuðu englar neyðarópin frá Sódómu og Gómorru, svo dæmi sé tekið. Jehóva ákvað að tortíma borgunum eftir að hafa heyrt vitnisburð þessara engla. — 1. Mósebók 18:20, 21, 33; 19:1, 13.
Biblían gefur því til kynna að Jehóva þurfi ekki bókstaflega að vera alls staðar. Fyrir atbeina heilags anda og englasveitanna er hann vel upplýstur um gang mála.
Það er greinilegt að Biblían getur hjálpað okkur að kynnast skaparanum betur. Í henni lærum við að Guð eigi sér aðseturstað sem kallast himnar. Þetta er andlegt tilverusvið fyrir utan efnishimininn og þar er með honum mikill fjöldi voldugra andavera. Við lærum einnig að friðsæld, máttur og hreinleiki einkenni bústað hans. Biblían fullvissar okkur um að í fyllingu tímans muni mannkynið njóta sams konar friðar hér á jörð og ríkir á himnum. — Matteus 6:10.
[Neðanmáls]
a Opinberunarbókin 5:11 lýsir því að í kringum hásæti Guðs standi „tíu þúsundir tíu þúsunda“ engla. Tíu þúsund margfaldað með tíu þúsund eru 100 milljónir. En í þessu versi er talað um „tíu þúsundir tíu þúsunda“ svo að fjöldi englanna gæti hlaupið á milljörðum.
HEFURÐU HUGLEITT?
● Er Guð alls staðar? — 1. Konungabók 8:30, 39.
● Hversu langdrægur er andi Guðs? — Sálmur 139:7-10.
[Innskot á blaðsíðu 29]
Þótt sólin sé kyrr á ákveðnum stað finnum við fyrir áhrifum hennar á gríðarstóru svæði. Á svipaðan hátt á Jehóva Guð sér aðseturstað en áhrif heilags anda hans ná hvert sem er í alheiminum.