Þvagsýrugigt – orsakir og áhættuþættir
ÞVAGSÝRUGIGT er ein algengasta tegund liðagigtar og getur verið mjög sársaukafull. „Þvagsýrugigt er röskun á efnaskiptum þvagsýru,“ segir í bókinni Arthritis. Henni er einnig lýst sem „kvilla þar sem orsökin liggur greinilega fyrir – þvagsýrukristallar safnast fyrir í liðvökva . . . sérstaklega í stórutánni“.
Þvagsýra er úrgangsefni sem flyst með blóðinu og myndast við niðurbrot efnis sem kallast púrín. Þegar þvagsýra safnast upp, yfirleitt vegna þess að hún nær ekki að skila sér nógu vel út með þvagi, geta nálarlaga kristallar myndast. Oftast hlaðast þeir upp í liðamótunum neðst í stórutánni en geta einnig lagst á aðra liði. Liðurinn getur orðið bólginn, þrútinn og heitur viðkomu og mjög kvalarfullur verkur fylgir í kjölfarið.a „Jafnvel minnsta snerting getur valdið óbærilegum sársauka,“ segir Alfred sem þjáist af þvagsýrugigt.
„Þvagsýrugigtarkast varir venjulega í viku ef ekkert er að gert,“ segir í upplýsingariti sem Arthritis Australia gaf út. „Það geta liðið mánuðir eða jafnvel ár í næsta kast. En ef ekki er tekið rétt á málum gætu köstin orðið tíðari og svæsnari og varanlegar skemmdir gætu orðið á liðunum. Stundum getur þvagsýrugigt ágerst og einkennin orðið langvarandi.“
Þvagsýrugigt er sú tegund gigtar sem er hvað auðveldast að meðhöndla. Yfirleitt nægir að nota bólgueyðandi lyf sem innihalda ekki stera. En ef köstin endurtaka sig eða eru mjög svæsin gæti þurft að notast við allópúrínól sem hindrar þvagsýrumyndun. Er hægt að koma í veg fyrir að köstin endurtaki sig? Ef maður er sér meðvita um áhættuþættina gæti það vel verið.
Áhættuþættir
Helstu áhættuþættirnir eru aldur, kyn og erfðir. Sumar heimildir sýna að í meira en 50 prósentum tilvika hafi aðrir í fjölskyldunni einnig greinst með sjúkdóminn. „Faðir minn og afi voru báðir með þvagsýrugigt,“ segir Alfred sem minnst var á fyrr í greininni. Þvagsýrugigt leggst aðallega á karlmenn og sérstaklega þá sem eru á fimmtugsaldri. Karlmenn eru þrisvar til fjórum sinnum líklegri en konur til að fá sjúkdóminn en þær fá hann sjaldan fyrir tíðarhvörf.
Mataræði og offita: Í uppsláttarritinu Encyclopedia of Human Nutrition segir: „Til að vinna gegn þvagsýrugigt virðist ekki lengur vera einblínt á að forðast púrínríkan mat heldur frekar á að meðhöndla efnaskiptatruflanir sem tengjast oft þvagsýrugigt. Þar má meðal annars nefna offitu, insúlínónæmi og truflanir á efnaskiptum fitu,“ það er að segja hátt magn fitu, til dæmis kólesteróls, í blóði.
Sumir mæla þó líka með að draga úr neyslu púrínríkrar fæðu eins og geri, vissum fisktegundum og rauðu kjöti af ýmsu tagi.b
Áfengi: Óhófleg áfengisneysla getur hindrað útskilnað þvagsýru og valdið því að hún safnist upp.
Heilsufarsvandamál: Samkvæmt Mayo Clinic í Bandaríkjunum geta ýmis heilsufarsvandamál hrundið þvagsýrugigt af stað. Þar má nefna „ómeðhöndlaðan háþrýsting og langvinna sjúkdóma eins og sykursýki, æðakölkun og hátt magn fitu og kólesteróls í blóði“. Þvagsýrugigt má auk þess rekja til „meiðsla, bráðra eða alvarlegra sjúkdóma og hreyfingarleysis vegna rúmlegu“, sem og til nýrnasjúkdóma. Þvagsýrugigt leggst fyrst og fremst á stórutána vegna þess að blóðflæðið þar er lakara en annars staðar og líkamshitinn lágur. Þetta tvennt ýtir undir að þvagsýra safnist upp.
Lyf: Aukin hætta á þvagsýrugigt getur stafað af lyfjum eins og þvagræsilyfjum (lyf sem auka losun vatns úr líkamanum, oft notuð gegn háþrýstingi), litlum skömmtum af aspiríni, ónæmisbælandi lyfjum sem gefin eru líffæraþegum og frumueyðandi lyfjum.
Fimm leiðir til að fyrirbyggja köst
Þvagsýrugigt hefur verið sett í samband við mataræði og lífsstíl. Þar af leiðandi geta eftirfarandi ábendingar komið að góðum notum til að draga úr hættunni á frekari köstum.c
1. Þar sem þvagsýrugigt er efnaskiptasjúkdómur ætti sjúklingurinn að reyna að halda kjörþyngd með því að neyta ekki of margra hitaeininga. Ofþyngd veldur líka auknu álagi á liði sem bera þunga líkamans.
2. Varastu megrunarkúra þar sem maður grennist mjög hratt. Það getur aukið þvagsýrumagn í blóði.
3. Neyttu ekki dýraprótíns í of miklu magni. Sumir mæla með að takmarka það við 170 grömm af fitulitlu kjöti á dag, þar með talið fuglakjöti og fiski.
4. Ef þú neytir áfengis skaltu gera það í hófi. Þegar á þvagsýrugigtarkasti stendur getur verið skynsamlegt að sleppa því með öllu.
5. Vertu duglegur að drekka óáfenga drykki. Það hjálpar líkamanum að losa sig við þvagsýru.d
Þessi fyrirbyggjandi ráð minna okkur á fyrirmæli Biblíunnar um að vera hófsöm í venjum og ekki drykkfelld. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 8, 11) Við getum verið alveg viss um að kærleiksríkur skapari okkar veit best hvað gerir okkur gott.
[Neðanmáls]
a Svipuð einkenni geta komið upp þegar kalsíumpýrófosfatkristallar myndast í liðunum, sérstaklega í brjóskhimnu beinanna. En það er annar kvilli og þarfnast annarrar meðhöndlunar.
b Í grein sem birtist í Australian Doctor kemur fram að „ekkert bendi til þess að hættan á að fá þvagsýrugigt aukist“ við neyslu púrínríkra sveppa og grænmetis á borð við baunir, linsur, spínat og blómkál.
c Í þessari grein er ekki mælt með ákveðinni læknismeðferð. Hver og einn gæti þurft meðferð sem er sniðin að hans þörfum. Ekki ætti að hætta að taka ávísuð lyf eða gera stórar breytingar á mataræði án samráðs við lækni.
d Þessar upplýsingar byggja á ráðleggingum frá Mayo Foundation for Medical Education and Research.
[Skýringarmynd/mynd á bls. 26]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
Bólginn liður
Liðpoki
[Mynd]
Samansafn þvagsýrukristalla