SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR
Áfengi
Er rangt að drekka áfengi?
,Vín gleður mannsins hjarta, olía lætur andlit hans ljóma og brauð veitir honum þrótt.‘ – Sálmur 104:15.
HVAÐ SEGIR FÓLK?
Hjá mörgum er það nánast fastur þáttur í daglegu lífi að drekka vín með mat. En aðrir líta áfengisneyslu hornauga. Hvers vegna hefur fólk svona ólíkar skoðanir? Margt hefur áhrif á viðhorf fólks til áfengis, svo sem menning, trú og heilsufar.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Biblían fordæmir ölvun og drykkjuskap en ekki hóflega notkun áfengis. (1. Korintubréf 6:9, 10) Frá ómunatíð hafa karlar og konur, sem þjónuðu Guði, smakkað áfengi. (1. Mósebók 27:25) Í Biblíunni er minnst á vín yfir tvö hundruð sinnum. „Et brauð þitt með ánægju og drekktu vín þitt með glöðu hjarta,“ stendur í Prédikaranum 9:7. Vín var oft haft á boðstólum í veislum, eins og brúðkaupsveislum, því að það á sinn þátt í að gera fólk glatt. Það var einmitt í brúðkaupsveislu sem Jesús Kristur vann sitt fyrsta kraftaverk, að breyta vatni í gott vín. (Jóhannes 2:1-11) Vín var líka notað til lækninga. – Lúkas 10:34; 1. Tímóteusarbréf 5:23.
Segir Biblían hve mikið megi drekka?
„[Verið ekki] í ánauð ofdrykkjunnar.“ – Títusarbréfið 2:3.
HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI FYRIR ÞIG?
Á ári hverju líða ótal fjölskyldur vegna þess að annað foreldrið drekkur óhóflega, eða jafnvel bæði. Fjölmörg umferðarslys og óhöpp verða vegna ofdrykkju. Og með tímanum getur misnotkun áfengis valdið skemmdum á heila, hjarta, lifur og maga.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Guð krefst þess að við gætum hófs í mat og drykk. (Orðskviðirnir 23:20; 1. Tímóteusarbréf 3:2, 3, 8) Við köllum yfir okkur vanþóknun hans ef við sýnum ekki sjálfstjórn. Í Biblíunni stendur: „Vínið er illkvittið, sterkur drykkur glaumsamur, fávís verður sá sem lætur leiðast afvega.“ – Orðskviðirnir 20:1.
Vín leiðir afvega meðal annars vegna þess að það brýtur niður siðferðishömlur fólks. Í Hósea 4:11 segir: „Víndrykkja sviptir þjóð mína viti.“ Jón lærði það í hörðum skóla reynslunnar.a Eftir að hafa rifist við konuna sína fór hann á hótel, drakk sig fullan og framdi hjúskaparbrot. Hann sá sárlega eftir því og hét að láta þetta aldrei koma fyrir aftur. Misnotkun áfengis getur skaðað okkur líkamlega, siðferðilega og andlega. Biblían segir að drykkjumenn hljóti ekki eilíft líf. – 1. Korintubréf 6:9, 10.
Hvenær er ekki við hæfi að drekka?
„Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ – Orðskviðirnir 22:3.
HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI FYIR ÞIG?
„Áfengi er öflugur vímugjafi,“ segir í uppflettiritinu World Book Encyclopedia. Þess vegna getur verið óviturlegt undir sumum kringumstæðum að neyta nokkurs áfengis.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Oft ratar fólk í ,ógæfu‘ vegna þess að það drekkur þegar það á ekki við. Í Biblíunni segir: „Öllu er afmörkuð stund.“ (Prédikarinn 3:1) Það á líka við um það að drekka áfengi. Til dæmis er ekki við hæfi að drekka ef maður er undir lögaldri, er óvirkur alkóhólisti eða tekur inn sum lyf. Fáum þykir rétti tíminn að bragða áfengi áður en þeir mæta til vinnu og í vinnunni, ekki síst ef þeir vinna við vélar sem geta verið hættulegar. Það er viska í því að líta á líf sitt og heilsu sem dýrmæta gjöf frá Guði. (Sálmur 36:10) Við sýnum virðingu fyrir þessari gjöf með því að láta meginreglur Biblíunnar móta viðhorf okkar til áfengis.
a Nafninu hefur verið breytt.